Vefur Elko hrundi vegna álags

Á Svörtum fössara í fyrra.
Á Svörtum fössara í fyrra. Ljósmynd/Elko

Gríðarlegt álag hefur skapast á vef raftækjaverslunarinnar Elko í morgun vegna tilboða í tilefni „svarts fössara“ eða „Black Friday“ í dag. Vefurinn lá niðri um tíma en virðist nú vera kominn í lag í bili.

Fyrri frétt mbl.is: Hvað gerir þennan föstudag svartan?

Markaðsstjóri Elko segir mjög mikið álag á vefnum og í búðunum sömuleiðis vegna tilboðanna en mörg þeirra tóku gildi klukkan átta í morgun.

„Við byrjuðum á mánudaginn með tilboð vegna Svarts fössara, köstuðum þá góðum tilboðum í loftið en bættum við tilboðum á hverjum degi. Svo náði þetta hámarki þegar við opnuðum klukkan átta í morgun,“ segir Berglind Ósk Ólafsdóttir, markaðsstjóri Elko í samtali við mbl.is

Hún segir brjálað að gera í búðunum. „Þegar ég mætti klukkan sjö í morgun var myndarleg röð fyrir framan verslunina í Lindum sem er náttúrulega bara frábært. Fólk er að taka mjög vel í  þetta og það gengur rosalega vel.“

Berglind segir miklar raðir í öllum verslunum Elko en vinsælustu vörurnar eru Playstation vélar, snjallsímar, spjaldtölvur og sjónvörp en Elko er með yfir 400 vörur á tilboði í tilefni dagsins en í takmörkuðu magni. Að sögn Berglindar er að minnsta kosti ein gerð af sjónvarpi uppseld á tilboðinu.

Þetta er í annað skiptið sem Elko heldur Black Friday eða Svartan fössara hátíðlegan og segir Berglind daginn kominn til að vera. Mikið álag var hjá Elko í fyrra líka þar sem Playstation vélaranar kláruðust á innan við mínútu til dæmis.

„Með þessum viljum við skapa stemningu á markaðinum og við lítum á þetta sem jákvætt framtak sem skapar eftirvæntingu,“ segir Berglind.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Svæði

Gagnaveitur

Erlendar viðskiptafréttir