Hvað er málið með þessa skatta?

Skattar eru misjafnir eins og þeir eru margir.
Skattar eru misjafnir eins og þeir eru margir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Skatta­mál­in eru sögð hafa verið meðal þess sem strandaði á í stjórn­ar­mynd­un­ar­viðræðum flokk­anna fimm sem var slitið á miðvikudaginn. Vinstri græn­ir hafa talað fyr­ir breyt­ing­um á skatta­kerf­inu, m.a. til þess að velta skatt­byrði af lág- og milli­tekju­hóp­um yfir á há­tekju­hópa og hef­ur því nú verið haldið fram að for­ystu­sveit Viðreisn­ar hafi ekki getað samþykkt þær hug­mynd­ir.

Þrír skatt­flokk­ar voru ít­rekað nefnd­ir á nafn í umræðunni síðustu daga þegar að stjórn­ar­mynd­un­ar­viðræður flokk­anna fimm stóðu enn yfir, þ.e. auðlegðarskatt­ur, há­tekju­skatt­ur og fjár­magn­s­tekju­skatt­ur. En hvað þýða þess­ir skatt­ar og hvert á að vera hlut­verk þeirra?

Að mörgu leyti ósanngjarn skattur

Auðlegðarskatt­ur var lagður á gjaldár­in 2010-2014. Hann var lagður á hreina eign fram­telj­anda, þ.e. all­ar eign­ir fyr­ir utan skuld­ir og yfir ákveðnum viðmiðum.

„Auðlegðarskattur var í grunn­inn eigna­skatt­ur fyrst og fremst,“ seg­ir Har­ald­ur I. Birg­is­son, sviðsstjóri skatta- og lögfræðisviðs Deloitte, í sam­tali við mbl.is. „Það má ekki gleyma því að við erum með fleiri eigna­skatta, fast­eigna­gjöld eru til dæm­is ekk­ert annað en eigna­skatt­ur. Þá eru stimp­il­gjöld annað form af eign­ar­skatti, þ.e. skatt­ur sem er tek­inn af flutn­ingi eigna milli aðila.“

Har­ald­ur I. Birg­is­son, sviðsstjóri skatta- og lögfræðisviðs Deloitte.
Har­ald­ur I. Birg­is­son, sviðsstjóri skatta- og lögfræðisviðs Deloitte. Aðsend mynd

Auðlegðarskatt­ur var lagður á sem tíma­bund­in aðgerð árið 2009. Þegar að auðlegðarskatt­ur­inn rann sitt skeið var skatt­hlut­fallið 1,5% og hafði þá hækkað um 0,25% frá því að hann var sett­ur á.

Árið 2013 greiddu 6.534 aðilar auðlegðarskatt, alls um 6,2 millj­arða króna.

„Auðlegðarskatt­ur­inn hafði það í för með sér að hann lagðist þyngst á þá aðila sem höfðu um ára­bil greitt niður skuld­ir og safnað eign­um til efri ára. Á meðal greiðenda var fólk sem var komið á þann stall en hafði samt litlar eða engar launa­tekj­ur til að standa und­ir skatt­greiðslunni. Því var jafnvel verið að ganga á sparnað sem fólk hafði sam­visku­sam­lega lagt fyr­ir í ár­araðir. Þá var skatturinn lagður á eignir óháð þeim tekjum sem eignirnar sköpuðu og óháð því að þær tekjur hefðu þegar verið skattlagðar,“ seg­ir Har­ald­ur. „Auðlegðarskatt­ur­inn var því að mörgu leyti ósanngjarn skatt­ur.“

Hann seg­ir vissu­lega til dæmi um eigna­skatta í öðrum lönd­um en það séu dæmi um að íbúðahús­næði og eign­ir af þeim toga séu þeim undanþegnar og tekið til­lit til eignaþátt­ar­ins að því leyti.

Tekjujöfnunartæki eða tekjuöflunartæki?

Aðspurður um til­gang auðlegðarskatts á sín­um tíma seg­ir Har­ald­ur hann hafa lík­lega verið tvenns­ kon­ar.

„Hins­ veg­ar að ná tímabundið tekj­um í rík­is­sjóð sem stóð höll­um fæti á þeim tíma. Þess má geta að farið var með auðlegðarskatt­inn fyr­ir dóm­stóla þar sem Hæsti­réttur staðfesti að lög­gjaf­inn hefði veru­legt svig­rúm til að leggja á skatta. Hins vegar horfði Hæstiréttur til stöðu rík­is­sjóðs á þeim tíma sem skatt­ur­inn var sett­ur á og að skattinum væri markaður tiltekinn gildistími.“

Har­ald­ur seg­ir að hinn til­gang­ur­inn, sem er meira í umræðunni núna, sé tekju­jöfn­un, þ.e. að færa skatt­byrðina. „Það er hægt að líta svo á að með auðlegðarskatti sé verið að færa eign­ir frá ein­um aðila til ann­ars í gegn­um skatt­kerfið. En það fer bara eft­ir því hvernig maður horf­ir á skatt­kerfið. Sum­ir líta á skatt­kerfið sem tekju­jöfn­un­ar­tæki, til dæm­is með þrepa­skipt­um tekju­skatti. Síðan eru aðrir sem vilja fremur nota það sem skil­virkt tekju­öfl­un­ar­tæki með lág­um skatt­pró­sent­um, breiðum skatt­stofni og litl­um sem eng­um und­anþágum. Þetta eru tveir pól­ar sem eiga það til að tak­ast á.“

Eru skattar tekjujöfnunartæki eða tekjuöflunartæki?
Eru skattar tekjujöfnunartæki eða tekjuöflunartæki? Morgunblaðið/Kristinn

Gæti haft slæmt áhrif á vinnuhvata

Sér­stak­ur há­tekju­skatt­ur upp á 8% var lagður á hér á landi frá 1. júlí 2009 til árs­loka 2009 en fyr­ir það var hér flatt skatt­kerfi í launa­skatti, ein skatt­pró­senta yfir alla. Árið 2010 var há­tekju­skatt­ur tek­inn upp og leyst­ur af hólmi með þrem­ur launatekju­skattþrep­um. „Það má því segja að efsta þrepið sé hinn eig­in­legi há­tekju­skatt­ur,“ bend­ir Har­ald­ur á.

Katrín Jak­obs­dótt­ir, sem var með stjórnarmyndunarumboðið þangað til í morgun, hefur talað fyr­ir svo­kölluðu há­tekju­skattþrepi þar sem miðað væri við eina og hálfa millj­ón í mánaðarlaun.

„Í þess­um efn­um tak­ast á sjón­ar­mið, hvort þetta sé heppi­legt, að með hverri krónu sem þú aflar færðu minna í þinn vasa. Það hafa verið uppi hug­mynd­ir um að þetta hafi slæm áhrif á vinnu­hvata. Það má líka setja þetta í sam­hengi við umræður um kjara­samn­inga, hvort það sé álíka skil­virk leið að lækka að ein­hverju leyti skatta en að hækka laun. En það fer allt eft­ir því hvar fólk lend­ir í þess­um þrep­um,“ seg­ir Har­ald­ur.

Þarf að horfa á heildarmyndina

Fjár­magn­s­tekju­skatt­ur er skatt­ur sem lagður er á eigna­tekj­ur ein­stak­linga utan at­vinnu­rekstr­ar, þ.e. vaxta­tekj­ur, arð, sölu­hagnað og leigu­tekj­ur. Á fjár­magn­s­tekj­ur er ekki lagt út­svar og þær hafa eng­in áhrif á þrepa­skipt­ingu tekju­skatts. Hins veg­ar telj­ast þær með öðrum tekj­um til stofns við út­reikn­ing vaxta­bóta og barna­bóta.

Mögu­leg hækk­un á fjár­magn­s­tekju­skatti er meðal þess sem bar á góma í umræðunni um stjórn­ar­mynd­un­ar­viðræður flokk­anna fimm sem upp úr slitnaði fyrr í vikunni.

Fjár­magn­s­tekju­skatt­ur var hækkaður upp í 20% frá og með 1. janú­ar 2011 og hafði þá hækkað úr 10% á tveim­ur árum. Hann var tek­inn upp árið 1997 og var lengst af 10%. 

„Umræða um hækk­un á fjár­magn­s­tekju­skatti snýst að miklu leyti um að sam­ræma skatt­lagn­ingu fjár­magns, þ.e. arðs, vaxta til dæm­is, og síðan launa,“ seg­ir Har­ald­ur. „En það verður að hafa í huga þess­ir tveir skatt­stofn­ar eru tölu­vert ólík­ir og það rétt­læt­ir ólíka nálg­un hvað skatt­lagn­ingu varðar.“

Þá seg­ir Har­ald­ur að það megi hafa það í huga, horf­andi á arðinn, að þar eru tekj­ur sem þegar er búið að skatt­leggja inni í fé­lög­un­um.

„Fyrirtæki sem skil­ar 100 krón­um í hagnað greiðir tutt­ugu krón­ur af þeim hagnaði í skatt. Ef 80 krón­ur eru greiddar í arð þá þarf viðkom­andi að greiða 16 krón­ur í skatt af þeim arði. Þá verður skatt­lagn­ing­in í raun 36 krón­ur og við kom­in tölu­vert nær launa­skatt­lagn­ingu. Þá má ekki gleyma því að skatturinn er brúttóskattur, þ.e. hann er greiddur bæði af raunávöxtun og verðbólguhækkunum sem eru ekki raunverulegar tekjur. Auk þess eru vaxtagjöld ekki heldur heimiluð til frádráttar. Það var meginástæðan fyrir því upphaflega að skatthlutfallið væri 10%. Það þarf því að horfa á heildarmyndina þegar verið er að bera saman fjármagnstekjuskatt og launaskatt,“ seg­ir Har­ald­ur.

Fjár­magn­s­tekju­skatt­ur var hækkaður upp í 20% frá og með 1. …
Fjár­magn­s­tekju­skatt­ur var hækkaður upp í 20% frá og með 1. janú­ar 2011 og hafði þá hækkað úr 10% á tveim­ur árum. Hann var tek­inn upp árið 1997 og var lengst af 10%. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Getur haft jákvæð og neikvæð áhrif

Hann seg­ir að það hafi líka verið bent á að fjár­magn­tekju­skatt­ur­inn sé kvik­ari skatt­stofn. „Við get­um haft bein áhrif, já­kvæð og nei­kvæð, á aukna efna­hags­starf­semi með því að draga úr hvöt­um til sparnaðar og fjár­fest­ing­ar með því að hækka skatt­inn, eða hvetja til frek­ari sparnaðar og fjár­fest­ing­ar með að lækka skatt­inn,“ seg­ir Har­ald­ur og bæt­ir við að sparnaður Íslend­inga í sögu­legu sam­hengi mætti vera hærri. Þá hef­ur vantað upp á fjár­fest­ing­ar upp á síðkastið.

„Eitt markmið sem hef­ur verið nefnt í þessu sam­hengi er að jafna skatt­hlut­föll­in meðal ann­ars til að koma í veg fyr­ir það að ein­stak­ling­ar stofni at­vinnu­rekst­ur utan um sjálf­an sig og færi þá að ein­hverju leyti launa­tekj­ur yfir í fjár­magn­s­tekj­ur. Hætti að borga sér laun borgi bara fjár­magn­s­tekj­ur. Það er nátt­úru­lega ekki þannig því hér eru regl­ur um reiknað end­ur­gjald sem gera það að verk­um að viðkomandi þarf að greiða sér ákveðin laun í skatta­legu til­liti, sem eiga að vera jafnhá og til ótengds aðila, þótt hann sé með félag,“ seg­ir Har­ald­ur og bæt­ir við að það þrengi ein­hvers ­kon­ar svig­rúm til þess að fær­ast und­an launa­skatt­lagn­ingu.

„Þetta er skil­virk­ara og markvissari leið til að sporna við því en að hækka skatt­inn flatt á all­ar fjár­magn­s­tekj­ur. Þá má ekki gleyma því að fjár­magn­s­tekju­skatt­ur­inn hef­ur verið hækkaður tölu­vert und­an­far­in sex ár.“

Hvernig mun næsta ríkisstjórn tækla skattamálin?
Hvernig mun næsta ríkisstjórn tækla skattamálin? mbl.is/Styrmir Kári
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK