Tilbúin að hækka skuldabyrði Grikklands

Göngugata í Aþenu. Grísk stjórnvöld vonast til að ná milljarði …
Göngugata í Aþenu. Grísk stjórnvöld vonast til að ná milljarði evra í ríkiskassann með auknum skattlagninum á neytendur. AFP

Útlit er fyrir að Grikkir séu loks á leið upp úr þeim efnahagslega öldudal sem kreppan hefur haft í för með sér. Þetta kemur fram í athugasemdum sem Pierre Moscovici, efnahagsmálastjóri Evrópusambandsins, birti fyrir fund ESB og Grikklands á morgun.

Moscovici mun funda á morgun í Aþenu með Alexis Tsipras, forsætisráðherra Grikklands. Í viðtali við gríska dagblaðið Ethnos, sem er vinstra megin við miðjuna, sagði Moscovici að „vel væri gerlegt“ að ná samkomulagi varðandi endurbætur og fjárlög á næstu dögum.   

Grikkir verða að ná samkomulagi við lánardrottna sína, ESB og Alþjóðagjaldeyrissjóðinn, en fjármálaráðherrar ríkja ESB funda næst 5. desember.

Ethnos hafði eftir Moscovici, sem fer með efnahagsmálastjórn ESB, að hann muni biðja Tsipras um að „hvetja ríkisstjórn sína til að gera það sem þarf.“

„Skilyrðin eru viðunandi“ til að heimila hækkun á skuldabyrði gríska ríkisins á fundi ráðherranna í næsta mánuði, sagði Moscovici, sem bætti því við að hann byggist við „líflegum umræðum“ um tilslökun sparnaðaraðgerða.

Í síðustu viku kom til verkfalla í Grikklandi í mótmælaskyni við nýjar skattahækkanir og þær breytingar á vinnumálastefnu sem grísk stjórnvöld íhuga nú að grípa til vegna björgunaraðgerða ESB. Ríki ESB og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn vilja að stjórnvöld í Grikklandi fari yfir vinnulöggjöf landsins með það að leiðarljósi að gera fólki erfiðara um vik að nýta verkfallsrétt sinn og sömuleiðis til að auðvelda uppsagnir.

Gríska stjórnin kynnti nýtt fjármálafrumvarp í síðustu viku þar sem gert er ráð fyrir að ná inn um milljarði evra til viðbótar í ríkiskassann með auknum skattlagningum á bíla, landlínusíma, gjöld vegna sjónvarpsáskrifta, eldsneyti, kaffi, bjór og tóbak. Þá er líka gert ráð fyrir sparnaði í launa- og eftirlaunagreiðslum á næsta ári um 5,7 milljarða evra.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK