„Ekkert mál fyrir Stjána-Stál“

„Þetta er tuttugasta árið mitt og mér líður mjög vel hérna,“ segir Kristján Magnús Karlsson starfsmaður hjá Vífilfelli. Hann gegnir ýmsum störfum á lagernum, fylgist með framleiðslunni á færiböndunum og grípur inní fari eitthvað úrskeiðis.

Kristján er með þroskahömlun og hefur unnið til verðlauna á Ólympíuleikum fatlaðra. Hann hefur bæst í hóp Fagfólksins á mbl.is.

Kristján er vinsæll starfsmaður hjá fyrirtækinu og hann segist reyna að hafa gaman í vinnunni. „Þegar ég byrjaði hérna uppi í Kók þá fannst mér að húmorinn væri ekki mjög góður. En svo eftir að ég kom, af því að ég er voðalega mikill sprellikall og hressi fólk við getur maður alveg sagt að ég sé einn af þeim sem hressi hópinn við,“ segir Kristján Magnús sem hefur alltaf jafn gaman af því að mæta í vinnuna og takast á við ný verkefni en hann kann sérlega vel að meta fjölbreytni í starfinu. „Maður er næstum því búinn að prófa allt nema að keyra út með köllunum hérna.“

Þrátt fyrir að vinna í gosdrykkjarframleiðslu segist Kristján Magnús ekki freistast til þess að drekka mikið af því sjálfur. „Af því að maður er mikið í íþróttunum er maður búinn að finna einn dag í einu,“ segir Kristján Magnús og á við laugardaga þar sem hann leyfir sér að drekka gos. „Ég drekk ekkert meira kók en næsti maður.“  

Verðlaunaður á Ólympíuleikum

Kristján Magnús er mikill íþróttamaður, æfir bæði lyftingar og fótbolta sem hann segir hafa gert sér mikið gagn. „Íþróttirnar hafa gert mér alveg rosalega gott. Þegar ég var yngri var ég með svolítið slæmt jafnvægi,“ segir Kristján Magnús en þegar hann byrjaði að æfa lyftingar þá styrktust fæturnir og það bætti jafnvægið hjá honum. Kristján Magnús hefur keppt í lyftingum og hann fór á Ólympíuleika fatlaðra í Kína árið 2007 þar sem hann keppti fyrir Íslands hönd.

Hann keppti í fjórum greinum og vann til bronsverðlauna sem hann segir að hafi verið mjög skemmtilegt. „Það var rosalega gaman að standa á verðlaunapallinum og lenda í þriðja sæti það er bara næstum því eins og að vera ólympíumeistari.“ Kristján Magnús segir þó að keppnin sé ekki aðalatriðið og að félagsskapurinn skipti ekki minna máli en árangurinn sem náist.

Eftir að hafa æft um árabil segist hann hafa fundið sinn takt í lyftingunum. „Maður er búinn að læra það að ef maður flýtir sér of mikið eða lyftir of þungu getur maður slitið eitthvað í vöðvunum,“ og bætir við að lokum setningu sem heyrist víst ósjaldan í Vífilfelli. „Þetta er ekkert mál fyrir Stjána-Stál.“

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK