Walker fellir víking í jólaboði Iceland

Víkingaþema var í jólaboði Iceland og fékk Walker þar það …
Víkingaþema var í jólaboði Iceland og fékk Walker þar það hlutverk að fella víking. mbl

Malcolm Walker, stofnandi Iceland-keðjunnar í Bretlandi, barðist við „víking“ á jólaboði matvælakeðjunnar nú um helgina, eftir að viðræður sendinefndar fyrirtæksins með fulltrúum Íslands varðandi skráningu á orðmerkinu „Iceland“ fóru út um þúfur sl. föstudag.

Frá þessu er greint á vef dagblaðsins Daily Post, sem birtir myndband af Walker fella víkinginn við mikinn fögnuð hundraða starfsmanna fyrirtækisins í jólaboðinu sem haldið var í Deeside.

Víkingaþema var í jólaboðinu og sést Walker þar segja við starfsmenn áður enn hann setur á sig víkingahjálm: „Þið hafi séð fréttir vikunnar – ég veit ekki hver átti þessa bjánalegu hugmynd að hafa víkingakvöld í kvöld þegar íslensk stjórnvöld eru að fara í mál við okkur um nafnið!“

Sparkar í víkinginn við fagnaðarlæti gesta

Því næst heyrist lúðrahljómur og Walker leggur til atlögu við vígalega klæddan, síðhærðan víking með feld á öxlum og öxi í hendi. Walker heggur með sverði sínu til víkingsins og sparkar síðan í hann eftir að hann er fallinn við mikil fagnaðarlæti gesta.

Daily Post hefur eftir talsmanni Iceland Foods að ákvörðunin um að hafa víkingaþema í jólaboðinu hafi verið tekin fyrir mörgum mánuðum, löngu áður en deilan við íslensk stjórnvöld kom upp.

Vilja ekki ræða málin í alvöru

Fréttavefur BBC hafði eftir Wal­ker um helgina að viðræður sendi­nefnd­ar fyr­ir­tæk­is­ins með full­trú­um Íslands varðandi skrán­ingu á orðmerk­inu „Ice­land“ hjá Hug­verka­rétt­ar­stofn­un ESB (EUIPO) hafi farið út um þúfur þar sem ís­lensk stjórn­völd vilji ekki ræða málið af al­vöru.

Utanríkisráðuneytið greindi frá því í lok nóvember að ráðuneytið hefði gripið til laga­legra aðgerða gegn Ice­land Foods, þar sem fyr­ir­tækið hefði um ára­bil beitt sér gegn því að ís­lensk fyr­ir­tæki gætu auðkennt sig með upp­runa­landi sínu við markaðssetn­ingu á vör­um sín­um og þjón­ustu í Evr­ópu.

Walker setti á sig víkingahjálm og lagði til atlögu gagnvart …
Walker setti á sig víkingahjálm og lagði til atlögu gagnvart hinum síðhærða kappa. Skjáskot/Daily Post
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK