Kaupverð hefur hækkað meira en leiguverð

Leiguverðið er hæst fyrir allar stærðir íbúða í vesturhluta Reykjavíkur ...
Leiguverðið er hæst fyrir allar stærðir íbúða í vesturhluta Reykjavíkur og lægst á Akureyri, en annars er dreifingin þar á milli nokkuð jöfn. mbl.is/Ómar Óskarsson

Kaupverð fjölbýlis hefur hækkað um 7,5% meira en leiguverð frá upphafi ársins 2011. Þetta kemur fram í Hagsjá Hagfræðideildar Landsbankans. Þar segir að vísitala leiguverðs á höfuðborgarsvæðinu hafi hækkað um 8,5% á 12 mánaða tímabili frá október 2015. Á sama tíma hefur söluverð íbúða á höfuðborgarsvæðinu hækkað um 13,6%.

Vísitala leiguverðs er byggð á þinglýstum samningum um húsaleigu og á að sýna þau leiguverð sem eru í gangi hverju sinni. Íbúðarhúsnæði er skipt í flokka eftir staðsetningu og herbergjafjölda. Fjöldi samninga er nokkuð breytilegur eftir mánuðum og því byggja mælingarnar á mistraustum grunni. Sveiflur í leiguverði einstakra svæða eru mun meiri en má sjá á vísitölunni. Talnaupplýsingar um leiguverð í október 2016 eru unnar upp úr rúmlega 200 leigusamningum sem þinglýst var í mánuðinum.

Verulegur munur í vesturbæ og úthverfum Reykjavíkur og á Akureyri

Í Hagsjá er bent á að meðalleiguverð í ágúst, september og október 2016 sýni að leiguverð fyrir tveggja herbergja íbúðir er allsstaðar töluvert hærra en á þriggja herbergja íbúðum sem er svo líka allsstaðar hærra en á stærstu íbúðunum. Sums staðar er þessi munur verulegur eins og í vesturhluta Reykjavíkur, úthverfum Reykjavíkur og á Akureyri. Munur á leiguverði tveggja og þriggja herbergja íbúða er mestur í Kópavogi, 25%, en er að meðaltali um 17%. Munurinn á þriggja herbergja íbúðum og þeim stærri er mestur á Akureyri, 26%, en er að meðaltali 13%.

Leiguverðið er hæst fyrir allar stærðir íbúða í vesturhluta Reykjavíkur og lægst á Akureyri, en annars er dreifingin þar á milli nokkuð jöfn.

29% hækkun tveggja herbergja íbúða í Kópavogi

„Sé leiguverðið borið saman milli tveggja tímabila, meðaltala ágúst, september og október 2015 og 2016 er reynt að komast hjá því að sveiflur milli einstakra mánaða hafi áhrif. Vísitala leiguverðs hækkaði um 9,3% á milli þessara tímabila. Mesta breyting á leiguverði á þessum tíma er 29% hækkun tveggja herbergja íbúða í Kópavogi og þar á eftir koma stærstu íbúðirnar í vesturhluta Reykjavíkur, í Kópavogi og í Breiðholti, með 14-20% hækkun.  Minnstu breytingarnar eru 3% lækkun á stærstu íbúðum á Akureyri og um 1% hækkun á tveggja herbergja íbúðum í Garðabæ og Hafnarfirði,“ segir í Hagsjá.

„Eins og oft hefur verið undirstrikað í Hagsjám Hagfræðideildar er jafnan um að ræða mikla dreifingu á bak við meðaltöl ýmissa stærða á fasteignamarkaði. Þær aðstæður eiga greinilega við um leigumarkaðinn.“

mbl.is

Gagnaveitur

Erlendar viðskiptafréttir