Stefnir á EM í MMA með Mjölni

Rennismiðurinn Pawel Uscilowski starfar hjá Össuri þar sem hann smíðar íhluti fyrir stoðtæki fyrirtækisins. Eftir vinnu lýkur eyðir hann flestum stundum við æfingar í Mjölni en markmið hans eru að verða Íslandsmeistari í hnefaleikum og að keppa á EM fyrir Íslands hönd í blönduðum bardagaíþróttum.

Pawel hefur bæst í hóp Fagfólksins á mbl.is sem er samstarfsverkefni mbl.is og Samtaka iðnaðarins. Ímyndskeiðinu er heilsað upp á Pawel í vinnunni og við æfingar hjá Mjölni.

Hann flutti til Bolungarvíkur fyrir átta árum þegar hann var sextán ára þar sem faðir hans starfaði sem sjómaður og foreldrar hans og systir búa þar enn. Eftir að hafa klárað grunnnámið í Menntaskólanum á Ísafirði fór hann í Iðnskólann í Hafnarfirði þar sem hann lærði til rennismiðs. Lífið á Íslandi segist hann kunna vel við. „Ég er mjög glaður hérna, fólkið er gott og það er bara frábært að vera hérna.“

Í starfi sínu hjá Össuri hefur Pawel umsjón með smíði á ýmiskonar íhlutum fyrir stoðtækjaframleiðslu fyrirtækisins. Tækjakosturinn er háþróaður og Pawel segir að það sé stór hluti af starfinu að tileinka sér nýja hluti. „Ég hef gaman af því að læra á tölvukerfi og tölvustýringar,“ segir Pawel og hann sér ekki eftir því að hafa lagt rennsmíðina fyrir sig þó hann viðurkenni að það hafi verið hálfgerð tilviljun að hann hafi lagt iðnina fyrir sig.

Össur framleiðir stoðtæki fyrir fólk sem t.a.m. hefur lent í alvarlegum slysum og Pawel segir það sérstaklega ánægjulegt að starfa hjá slíku fyrirtæki. „Það sem við gerum hérna er mikilvægt.“

Bardagamaður eftir vinnu

Pawel æfði box þegar hann bjó á Vestfjörðum og þegar hann flutti til borgarinnar fór hann að æfa hjá Mjölni og er kominn í keppnislið félagsins í blönduðum bardagaíþróttum. „Ég er núna að sækja um íslenskan ríkisborgararétt til að eiga möguleika á keppa fyrir Ísland,“ segir Pawel sem hefur keppt í hnefaleikum með góðum árangri sem fæst ekki án áreynslu. „Ég reyni að æfa tvisvar á dag, fyrir vinnu og eftir vinnu sex daga í viku.“

Hann segir íþróttina ólíka öllu öðru. „Þegar ég er kominn í búrið, þá er ég bara rólegur. Ég hætti að hugsa um allt annað.“ Strategíuna segir hann leika stórt hlutverk. Hver hreyfing þurfi að vera úthugsuð.

En hvað segir fjölskyldan?

„Mamma skilur þetta ekki, pabbi getur kannski fylgst með.“ Hann segir það þó ekki koma að sök og er staðráðinn í að keppa fyrir Íslands hönd á Evrópumótinu í MMA og hann fær mikinn stuðning frá félögum sínum í Mjölni sem hann segir eins og eina stóra fjölskyldu.

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK