Lækka vexti um 0,25 prósentur

Gengi krónunnar hefur hækkað um 1½% frá síðasta fundi peningastefnunefndar …
Gengi krónunnar hefur hækkað um 1½% frá síðasta fundi peningastefnunefndar Seðlabankans og er nú þegar orðið nokkru hærra en spáð var að það yrði að meðaltali á næsta ári. mbl.is/Golli

Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands hefur ákveðið að lækka vexti bankans um 0,25 prósentur. Meginvextir bankans, vextir á sjö daga bundnum innlánum, verða því 5%. Þetta kemur fram í tilkynningu frá nefndinni. 

„Þjóðhagsreikningar fyrir fyrstu níu mánuði ársins sýna meiri hagvöxt en Seðlabankinn spáði í nóvember. Vöxtur þjóðarútgjalda var svipaður og spáð var en samsetning hans var önnur. Atvinnuvegafjárfesting jókst meira en einkaneysla minna. Vöxtur útflutnings var einnig meiri en spáð hafði verið og munar þar fyrst og fremst um kröftugan þjónustuútflutning. Metafgangur var á viðskiptajöfnuði á þriðja fjórðungi ársins.

Verðbólga mældist 2,1% í nóvember og hefur haldist undir markmiði um tæplega þriggja ára skeið þrátt fyrir miklar launahækkanir og öran vöxt eftirspurnar. Þar vega þungt hagfelld ytri skilyrði og hækkun á gengi krónunnar en ekki síður aðhaldssöm peningastefna sem hefur skapað verðbólguvæntingum kjölfestu.

Ákvörðun peningastefnunefndar um lækkun vaxta er tekin með hliðsjón af síðustu spá Seðlabankans að viðbættum nýjum upplýsingum. Gengi krónunnar hefur hækkað um 1½% frá síðasta fundi nefndarinnar og er nú þegar orðið nokkru hærra en spáð var að það yrði að meðaltali á næsta ári. Þá er samsetning hagvaxtar hagstæðari en spáð var í nóvember að því leyti að útflutningur og atvinnuvegafjárfesting vega þyngra. Hvort tveggja hefur áhrif á áhættumat nefndarinnar. Sem fyrr er töluverð óvissa um stefnuna í ríkisfjármálum, en aðhald hennar hefur slaknað nokkuð undanfarin tvö ár og enn er óljóst hver efnahagsstefna næstu ríkisstjórnar verður. Þá gætir áfram óróa á vinnumarkaði og óvissa er um áhrif næstu skrefa við losun fjármagnshafta.

Kjölfesta verðbólguvæntinga við verðbólgumarkmiðið virðist hafa styrkst og aðhald peningastefnunnar að einhverju leyti aukist í gegnum hækkun gengis krónunnar. Það gefur nefndinni svigrúm til að lækka nafnvexti nú. Eigi að síður kalla kröftugur vöxtur eftirspurnar og ofangreindir óvissuþættir á varkárni við ákvörðun vaxta. Aðhaldsstig peningastefnunnar á komandi misserum mun ráðast af framvindu efnahagsmála og annarri hagstjórn.“

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK