Einn á móti vaxtalækkun

Seðlabanki Íslands.
Seðlabanki Íslands. mbl.is/Ómar Óskarsson

Fjórir af fimm nefndarmönnum peningastefnunefndar Seðlabanka Íslands vildu lækka vexti bankans en einn taldi rétt að halda þeim óbreyttum. Þetta kemur fram í fundargerð nefndarinnar en vextir bankans lækkuðu um 0,25 prósentur fyrr í mánuðinum.

Nefndin ræddi á fundi sínum í desember taumhald peningastefnunnar sem var nánast óbreytt frá nóvemberfundinum miðað við raunvexti bankans. Gengi krónunnar hafði hins vegar hækkað frekar.

Eins og á nóvemberfundinum töldu nefndarmenn bæði rök fyrir því að halda vöxtum óbreyttum að þessu sinni og að lækka þá um 0,25 prósentur. Við vaxtaákvörðunina hafði nefndin til hliðsjónar síðustu spá Seðlabankans að viðbættum nýjum upplýsingum sem birst hefðu eftir nóvemberfundinn.

Helstu rök sem fram komu á fundinum fyrir því að lækka vexti voru þau að gengi krónunnar hefði hækkað um 1½% frá síðasta fundi nefndarinnar. Það væri því þegar orðið nokkru hærra en nóvemberspá bankans gerði ráð fyrir að það yrði að meðaltali á næsta ári.

Var það mat nefndarmanna að verðbólguhorfur næstu missera hefðu því líklega batnað enn frekar frá því sem gert var ráð fyrir í spánni. Töldu sumir nefndarmenn því svigrúm til að lækka nafnvexti, þótt margvísleg óvissa sem vísað var til við fyrri vaxtaákvörðun væri enn til staðar.

Æskilegt að draga úr vaxtamun við útlönd

„Í ljósi óvissunnar skorti þó eftir sem áður forsendur til að fullyrða um líklega stefnu næstu vaxtabreytinga. Þær myndu ráðast af framvindunni og eftir sem áður væri ástæða til varfærni við ákvörðun vaxta.

Eins og á síðasta fundi komu einnig fram þau rök fyrir lækkun vaxta að æskilegt gæti verið að draga eitthvað úr vaxtamun við útlönd til að auka hvata innlendra aðila til að fjárfesta erlendis þar sem það gæti vegið á móti undirliggjandi þrýstingi til hækkunar gengis krónunnar. Þá skipti máli í áhættumati þeirra sem fylgjandi voru vaxtalækkun að samsetning hagvaxtar væri að því leyti hagstæðari en spáð var í nóvember að vægi útflutnings og atvinnuvegafjárfestingar væri þyngra.

Helstu rök sem fram komu á fundinum fyrir að halda vöxtum óbreyttum voru þau að enn ríkti töluverð óvissa um launaþróun á komandi misserum og aðhaldsstig opinberra fjármála. Bent var á að þótt samsetning þjóðarútgjalda væri hagstæðari en gert hafði verið ráð fyrir í nóvemberspánni bentu niðurstöður þjóðhagsreikninga til þess að hagvöxturinn yrði jafnvel meiri í ár en spáð hafði verið og framleiðsluspenna því meiri.

Jafnframt var bent á að hætta væri á að vaxtalækkun til að draga úr vaxtamun við útlönd við núverandi aðstæður ofhitnunar innlends þjóðarbúskapar myndi grafa undan nýfenginni kjölfestu verðbólguvæntinga,“ segir í fundargerðinni.

Með hliðsjón af umræðunni lagði seðlabankastjóri til að vextir bankans yrðu lækkaðir um 0,25 prósentur sem myndi hafa í för með sér að meginvextir bankans, þ.e. vextir á sjö daga bundnum innlánum, yrðu 5%, innlánsvextir (vextir á viðskiptareikningum) 4,75%, vextir af lánum gegn veði til sjö daga 5,75% og daglánavextir 6,75%.

Kröftugur vöxtur eftirspurnar kallar á varkárni við vaxtaákvarðanir

Fjórir nefndarmenn greiddu atkvæði með tillögu seðlabankastjóra en einn nefndarmaður greiddi atkvæði gegn tillögunni og vildi halda vöxtum óbreyttum.

„Nefndarmenn voru sammála um að kjölfesta verðbólguvæntinga við verðbólgumarkmiðið virtist hafa styrkst og að aðhald peningastefnunnar hafi að einhverju leyti aukist vegna hækkunar á gengi krónunnar. Að mati meirihluta nefndarmanna gæfi það nefndinni svigrúm til að lækka nafnvexti nú.

Eigi að síður töldu þeir að kröftugur vöxtur eftirspurnar og ofangreindir óvissuþættir kölluðu á varkárni við ákvörðun vaxta. Voru nefndarmenn sammála um að aðhaldsstig peningastefnunnar á komandi misserum muni ráðast af framvindu efnahagsmála og annarri hagstjórn,“ segir í fundargerðinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK