Hafna ásökunum og kvarta undan Sveini Andra

Málið var kært til embættis héraðssaksóknara.
Málið var kært til embættis héraðssaksóknara. Ófeigur Lýðsson

Lögmaður þeirra Skúla Gunnars Sigfússonar og Guðmundar Hjaltasonar, sem voru kærðir til embættis héraðssaksóknara fyrir meint brot í tengslum við þrotabú EK 1923 ehf., segir að öllum ásökunum sé alfarið hafnað og að umbjóðendur hans hafi á engan hátt rýrt verðmæti þrotabúsins, eins og lagt er upp með í kærunni. Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá lögmanninum.

Frétt mbl.is: Skúli í Subway kærður til héraðssaksóknara

Það er lögmaðurinn Sveinn Andri Sveinsson sem lagði kæruna fram sem skiptastjóri þrotabúsins, en í yfirlýsingunni segir Heiðar Ásberg Atlason, lögmaður Skúla og Guðmundar, að aðfinnslur hafi verið lagðar fram við Héraðsdóm Reykjavíkur vegna starfa Sveins Andra. Þá hafi hann talið háttsemi hans svo alvarlega og ámælisverða að kvartað hafi verið við úrskurðarnefnd Lögmannafélags Íslands og óskað eftir úrskurði nefndarinnar á því hvort hún standist siðareglur félagsins.

Kært var fyrir auðgunarbrot, skjalafals og ranga skýrslugjöf, en um er að ræða millifærslu sem gerð var af reikningi þrotabúsins á reikning Sjöstjörnunnar, félags Skúla. Var hann einnig eigandi EK 1923 í gegnum eignarhaldsfélag sitt Leiti. Guðmundur var hins vegar framkvæmdastjóri Sjöstjörnunnar á þeim tíma sem millifærslan var gerð.

Í yfirlýsingunni segir að umrædd greiðsla hafi verið trygging í formi veðsettrar upphæðar á bankabók sem lá til grundvallar leiguábyrgð. „Með endurgreiðslunni var um að ræða eðlilegt uppgjör á veðláni og hefði þessi trygging aldrei orðið hluti almennra skipta hjá félaginu, hefði hún verið til staðar við gjaldþrotið, heldur ávallt runnið til umbjóðenda minna. Skiptastjóri hafði hins vegar ekki áhuga á að hlusta á efnisleg rök og skýringar í málinu. Það vekur því furðu að lögmaðurinn kjósi þess í stað að kæra til héraðssaksóknara og leki svo kæru sinni samhliða til fjölmiðla,“ segir í yfirlýsingunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK