Nýr ráðherra ferðamála bendir á að í nýjum stjórnarsáttmála sé mælt fyrir um áherslur á sviði náttúruverndar, aukinnar arðsemi og dreifingar ferðamanna um landið og að þar megi líta til skynsamlegrar gjaldtöku. Hún segir að gjaldtaka sé skilvirk og skynsamleg leið til aðgangsstýringar. Þá muni aðgangsstýringin einnig dreifa ferðamönnum betur um landið.
„Ef við náum að dreifa ferðamönnum betur um landið, og skilvirkasta leiðin í þeim efnum er gjaldtaka, þá erum við ekki aðeins að vernda náttúruna heldur einnig að byggja upp tækifæri víðar. Það er því að stórum hluta til byggðamál að dreifa ferðamönnum betur,“ segir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, nýr ráðherra ferðamála, iðnaðar og nýsköpunar.
Ítarlegt viðtal er við Þórdísi Kolbrúnu á miðopnu ViðskiptaMoggans sem fylgir Morgunblaðinu í dag.