Framtíðin er gengin í garð!

Pálmi Guðmundsson.
Pálmi Guðmundsson. Eggert Jóhannesson

Miklar breytingar hafa orðið á neysluvenjum sjónvarpsáhorfenda undanfarin misseri; línuleg dagskrá og áskriftarsjónvarp, eins og við þekktum það, er á niðurleið en efnisveitur á uppleið í staðinn. Ein slík, Sjónvarp Símans Premium, næst nú á 28 þúsund heimilum sem er ríflega tvöfalt meira en fyrir ári. 

Þáttaskil urðu í íslenskri sjónvarpssögu þegar efnisveita Símans, Sjónvarp Símans Premium, hóf göngu sína haustið 2015 í umfangi og af stærð sem ekki hefur þekkst áður. Í Sjónvarpi Símans Premium horfir fólk bara þegar því hentar og getur fengið aðgang að heilum þáttaröðum í einu; þarf með öðrum orðum ekki að bíða í heila viku eftir næsta þætti. Á sama tíma opnaði Sjónvarp Símans (SkjárEinn eins og það hét þá) fyrir dagskrá sína eftir að hafa verið áskriftarstöð um nokkurra ára skeið.

Markaður fyrir heimilispakka með afþreyingu

Pálmi Guðmundsson, forstöðumaður hjá Símanum, segir fyrirtækið vissulega hafa tekið áhættu með því að opna dagskrána með þessum hætti og setja efnisveituna á laggirnar. „Síminn mat það svo að markaður væri fyrir heimilispakka með afþreyingu og það hefur sannarlega komið á daginn. 28 þúsund heimili eru nú með Sjónvarp Símans Premium og fjölgaði þeim um ríflega helming á síðasta ári. Það þýðir að ekki er lengur marktækur munur á fjölda áskrifenda að Sjónvarpi Símans Premium, Netflix Íslandi og Stöð 2,“ segir Pálmi.

Hann segir að ekki sé annað en áframhaldandi sókn í kortunum. „Við erum þegar komin á þann stað sem við stefndum á og nú setjum við markið bara ennþá hærra. Við erum hæstánægð með þessar undirtektir.“

Á árinu 2016 voru heildarpantanir í Premium 9,1 milljón og þar af ein milljón bara í desember.

Heiða Rún Sigurðardóttir verður í aðalhlutverki í þáttunum um Stellu …
Heiða Rún Sigurðardóttir verður í aðalhlutverki í þáttunum um Stellu Blomkvist.


6.000 klukkustundir af efni

Pálmi segir aðgang að heilum þáttaröðum njóta vaxandi vinsælda. Jafnt og þétt hefur verið bætt við efnisvalið og aðgengilegt efni í Premium hefur vaxið úr 2.400 klukkustundum í 6.000 klukkustundir á rúmu ári. Þess má geta að allt erlent efni er með íslenskum texta. „Við höfum bætt í innkaupin og samstarfsaðilar okkar hafa verið að standa sig gríðarlega vel.“

Þá er sífellt meiri áhersla lögð á íslenskt efni og í haust verður íslenskur þáttur í fyrsta sinn settur inn á efnisveitu í heilu lagi þegar Stella Blomkvist drepur niður fæti í Sjónvarpi Símans Premium. Alls sex þættir. Haustið 2018 frumsýnir veitan svo glæpaþætti byggða á bókum Yrsu Sigurðardóttur, sem Baltasar Kormákur framleiðir, og haustið 2019 er röðin komin að spennuþættinum Ferðalaginu í leikstjórn Baldvins Z. Sama máli gegnir um alla þessa þætti, þeir verða aðgengilegir í heilu lagi.

Verða að bjóða upp á nýtt íslenskt efni

Pálmi segir nýtt íslenskt efni skipta gríðarlegu máli í þessu sambandi. „Til að eiga möguleika á því að ná hylli áhorfenda verðum við að bjóða upp á nýtt íslenskt efni og um þessar mundir er engin íslensk sjónvarpsstöð með meira leikið íslenskt efni í pípunum en við,“ segir Pálmi.

Samkeppnin í gerð leikins íslensks efnis er raunar mikil um þessar mundir sem hljóta að vera góð tíðindi fyrir áhorfendur.

Menn hrista slíkt efni ekki fram úr erminni og fjögur ár eru síðan farið var að leggja drög að Stellu-þáttunum. Meðgöngutími Yrsu-þáttanna og Ferðalagsins er svipaður. Að sögn Pálma er ekki verra að efni af þessu tagi hafi sannað sig áður, eins og Stella og Yrsa á bók, en frumsköpun geti auðvitað líka skilað góðum árangri. „Það er ótrúlega gaman að vinna með grasrótinni við að búa til sjónvarp.“

Sjónvarp Símans Premium leggur sig fram um að bjóða upp á nýja erlenda þætti daginn eftir að þeir eru frumsýndir erlendis. „Það er okkar svar við ólöglegu niðurhali og fyrir vikið finnum við minna fyrir því,“ segir Pálmi.

Efnisveitur eru að vonum nýr auglýsingamiðill og segir Pálmi markaðinn meðvitaðan um það. „Íslenskir auglýsendur hafa tekið vel við sér og gera sér í auknum mæli grein fyrir því hvar framtíðin liggur.“

Hugmyndin raungerist

Til að draga þetta saman segir Pálmi vatnaskil hafa orðið á árinu 2016. „Það er framtíðin að horfa hvar sem er og hvenær sem er á sjónvarp; þessi hugmynd raungerðist á síðasta ári. Þetta hefur tekið sinn tíma; ég man eftir að hafa rætt um stafrænu byltinguna, sem þá stóð fyrir dyrum, í samtali við Vikuna árið 1995; að maður yrði sinn eigin sjónvarpsstjóri og allt það. Ég sá mikil tækifæri í þessu á þeim tíma og það er magnað að við séum loksins komin á þann stað. Á þessum tíma var Amazon að selja raftæki og bækur; sjáðu þá núna!“

– Mun línuleg dagskrá þá senn heyra sögunni til?

„Ég sé alla vega mikinn eðlismun frá því sem áður var. Auðvitað taka þessi umskipti einhvern tíma og fólk þarf að vita á hvað það vill horfa til þess að geta nýtt sér þjónustu efnisveitunnar.“

Hér á Pálmi við að framvegis þarf fólk í auknum mæli á stóla á sjálft sig þegar kemur að því að velja sjónvarpsefni til að horfa á en ekki einhverja dagskrárstjóra úti í bæ.

Mun alltaf finna sér farveg

Pálmi er sammála því að íslenska þjóðin sé líklega meðfærilegri en flestar aðrar þjóðir í þessu sambandi enda sé hún jafnan fljót að tileinka sér nýjungar, ekki síst á tæknisviðinu. „Þegar fólk kemst upp á lagið með efnisveitur verður ekki aftur snúið. Sú tíð er liðin að sjónvarpstækið sé miðpunktur heimilisins. Núna hafa myndlyklarnir og snjallsímarnir tekið við hlutverki þess og þegar þessi tæki ganga sér til húðar tekur eitthvað nýtt og spennandi við. Það er gangur lífsins. Sjónvarpsefni mun alltaf finna sér farveg.“

Óttast ekki erlenda samkeppni

Pálmi segir Símann hvergi smeykan við samkeppni við Netflix og aðrar stórar erlendar efnisveitur.

„Það er eðlismunur á Sjónvarpi Símans Premium og Netflix; þeir eru aðallega að endursýna efni meðan við erum að frumsýna það. Þeir framleiða efnið ekki heldur sjálfir, stóru kvikmyndaverin í Bandaríkjunum gera það. Við óttumst ekki samkeppni, hvorki innanlands né utan; við höfum fundið okkar takt. Um tíma var íslenskt sjónvarp í mikilli vörn en það er nú liðin tíð – og það er alltaf skemmtilegra að vera í sókn en vörn!“

Hann segir hinn alþjóðlega sjónvarpsmarkað raunar á fleygiferð um þessar mundir; um það vitni kaup Kínverja á Paramount-kvikmyndaverinu sem hafi þann tilgang að dreifa framvegis efni sem fellur að smekk Kínverja.

Pálmi segir vandað íslenskt efni eiga góða möguleika í þessu sambandi enda búum við að því að vor sé í norrænni dagskrárgerð fyrir sjónvarp og áhuginn aldrei meiri. „Það er full ástæða til að spenna bogann hátt.“

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 2.090 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »

  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK