Spá óbreyttum stýrivöxtum

Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands birtir vaxtaákvörðun sína í næstu viku.
Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands birtir vaxtaákvörðun sína í næstu viku. mbl.is/Árni Sæberg

Greiningardeild Arion banka spáir því að peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands haldi stýrivöxtum óbreyttum í 5% en nefndin birtir vaxtaákvörðun sína í næstu viku. Í desember lækkaði nefndin vexti um 0,25 prósentustig og gaf í skyn, að mati deildarinnar, að fleiri, en litlar, vaxtalækkanir væru í pípunum.

Síðan þá hefur gengi krónunnar veikst lítillega, verðbólguhorfur erlendis hafa frekar versnað „og enn má ætla að hætta sé á að kjarasamningar verði teknir upp á næstu vikum, sem gæti þýtt meiri launahækkanir en ella,“ segir í Markaðspunktum greiningardeildar Arion banka.

Þá bendir ný skýrsla deildarinnar um húsnæðismarkaðinn til áframhaldandi hækkana húsnæðisverðs á árinu og vaxandi verðbólgu í árslok.

„Þessir þættir gætu leitt til þess að nefndin verði varfærnari og klæði sig úr vaxtalækkunarbuxunum, í bili a.m.k., þó að verðbólguvæntingar séu enn lítillega undir verðbólgumarkmiði,“ segir í Markaðspunktum.

Deildin bendir á að óvissa um aðhald í ríkisfjármálum hafi minnkað frá síðustu ákvörðun en fjárlög 2017 voru samþykkt stuttu eftir hana. Afgangur á frumjöfnuði verður um 91 milljarður króna, sem er svipuð upphæð og var samkvæmt fjárlagafrumvarpi. Á móti kemur þó að útgjöld aukast meira en samkvæmt fjárlagafrumvarpi og byggjast þau á tekjum vegna góðra efnahagshorfa.

„Við teljum að peningastefnunefnd gæti áfram gagnrýnt of lítið aðhald í ríkisfjármálum og að fjárlög 2017 gefi tilefni til að halda vöxtum óbreyttum,“ segir í Markaðspunktum. Þá er einnig bent á að gengi krónunnar hafi sveiflast nokkuð síðustu vikur og er nú um 2% veikara en þegar peningastefnunefnd hittist síðast í desember.

„Af þeim sökum er langsótt að peningastefnunefnd noti gengi krónunnar sem rök fyrir vaxtalækkun að þessu sinni,“ segir í Markaðspunktum. Þá er tekið fram að um þessar mundir sé fremur rólegur tími í ferðaþjónustunni og, það sem mikilvægara er, þá hefur sjómannaverkfall staðið yfir í hátt í tvo mánuði.

„Gera má ráð fyrir að nefndin taki því tillit til þess að gengi krónunnar gæti styrkst þegar verkfalli lýkur og ferðamönnum fjölgar með hækkandi sól. Líklegt er að þær breytingar þurfi að raungerast áður en peningastefnunefnd bregst við,“ segir í Markaðspunktum.

Markaðspunktana í heild má sjá hér. 

mbl.is
Svæði

Gagnaveitur

Erlendar viðskiptafréttir