Laun Birnu lækka um 40%

Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka.
Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka. mbl.is/Ómar Óskarsson

Kjararáð hefur lækkað laun Birnu Einarsdóttur, bankastjóra Íslandsbanka, um 40%. Mánaðarlaun hennar verða núna 1.131.816 krónur.

Úrskurðurinn var birtur síðdegis í dag.

Samkvæmt honum verða laun hennar rúmar tvær milljónir króna með þeirri yfirvinnu og álagi sem fylgir starfinu.

„Kjararáð hefur ekki áður ákveðið bankastjóra Íslandsbanka hf. laun. Með vísan til þess innbyrðis samræmis sem kjararáði ber að hafa að leiðarljósi og áður er gerð grein fyrir er við ákvörðun launakjara bankastjóra Íslandsbanka hf. horft til launakjara forstöðumanna annarra fjármála- og lánastofnana sem undir kjararáð heyra, svo sem bankastjóra Landsbankans hf.,“ segir í úrskurði kjararáðs.

Í úrskurðinum er vísað í mat stjórnar Íslandsbanka. Í því segi að starfsárangur núverandi bankastjóra hafi verið framúrskarandi og að „hann hafi sinnt starfi sínu af kostgæfni og verið sterkur leiðtogi stjórnunarteymis bankans, meðal annars í stefnumótun á umbrotatímum. Sérstaklega megi nefna endurskipulagningu lána sem Íslandsbanki hafi lokið hraðar en keppinautar“.

Stjórnin segir einnig að ljóst sé að gríðarmiklar kröfur séu gerðar til bankastjóra um viðveru og vinnu utan hefðbundins vinnutíma. „Þannig sé víst að raunverulegur vinnutími bankastjóra sé um það bil 130 klukkustundir á mánuði umfram hefðbundinn dagvinnutíma og ekkert bendi til annars en að svo verði áfram."

Ný lög um kjararáð taka gildi 1. júlí og þá má búast við að laun Birnu breytist á nýjan leik.

mbl.is

Myntbreyta

  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  CHF
  JPY

Gagnaveitur

Erlendar viðskiptafréttir