Íbúðaverð hækkað um 16% síðustu tólf mánuði

Að mati greiningardeildarinnar hefur íbúðamarkaðurinn nú mörg einkenni þenslu. Fyrir …
Að mati greiningardeildarinnar hefur íbúðamarkaðurinn nú mörg einkenni þenslu. Fyrir utan mikla hækkun á íbúðaverði hefur heildarfjöldi íbúða á söluskrá ekki verið minni svo langt sem gögn Þjóðskrár Íslands ná. mbl.is/Rax / Ragnar Axelsson

Íbúðaverð á landinu öllu hækkaði um 1,8% í febrúar milli mánaða og þetta er sjöundi mánuðurinn í röð þar sem verðhækkunin er yfir einu prósenti á milli mánaða, en á því stutta tímabili hefur húsnæðisverð hækkað um heil 12,7%. Greiningardeild Íslandsbanka segir frá þessu og vitnar í tölur Hagstofu Íslands.

Í Morgunkorni greiningardeildarinnar kemur fram að hækkunina í febrúar megi bæði rekja til mikillar hækkunar á verði íbúðarhúsnæðis á höfuðborgarsvæðinu og landsbyggðinni. „Þó er íbúðaverð á landsbyggðinni að hækka nokkuð hraðar um þessar mundir. Nam hækkunin þar nú í febrúar 2,4% samanborið við 1,6% hækkun á íbúðum í fjölbýli og 1,4% hækkun á sérbýli á höfuðborgarsvæðinu. Hefur íbúðaverð á landsbyggðinni verið að hækka nokkuð umfram íbúðaverð á höfuðborgarsvæðinu undanfarna mánuði,“ segir í Morgunkorni Íslandsbanka.

Ekki hraðari hækkunartaktur síðan 2008

Þá hefur íbúðaverð hækkað um 16% yfir síðustu tólf mánuði, en hraðari hefur hækkunartaktur íbúðaverðs ekki verið síðan í upphafi árs 2008. Hefur verið að bæta nokkuð hratt í hækkunartaktinn síðan í maí í fyrra þegar hann mældist 6,5%.

„Þar sem verðbólgan hefur verið lítil og nokkuð stöðug undanfarið hefur hraðari taktur í verðhækkun íbúðarhúsnæðis komið fram í samsvarandi hraðari raunhækkun íbúðaverðs. Yfir síðustu tólf mánuði hefur raunverð íbúðarhúsnæðis hækkað um 13,8% sem er mesta raunverðshækkun íbúðarhúsnæðis sem mælst hefur síðan í apríl 2006. Er raunverð íbúða orðið hátt sögulega séð og nálægt því sem það fór hæðst í síðustu uppsveiflu,“ segir í Morgunkorni bankans.

Helstu ástæður hraðrar hækkunar íbúðaverðs um þessar mundir er mikil hækkun launa heimilanna, fjölgun starfa, vöxtur deilihagkerfisins og lítið framboð nýbygginga. Hafa laun hækkað um tæplega 9% yfir síðustu tólf mánuði, störfum fjölgað um 7,6% og fjöldi ferðamanna hér á landi aukist umtalsvert.  

Markaðurinn hefur mörg einkenni þenslu

Að mati greiningardeildarinnar hefur íbúðamarkaðurinn nú mörg einkenni þenslu. Fyrir utan mikla hækkun á íbúðaverði hefur heildarfjöldi íbúða á söluskrá ekki verið minni svo langt sem gögn Þjóðskrár Íslands ná. Undir lok síðastliðins árs voru 920 íbúðir auglýstar til sölu, en þeim hafði þá fækkað um 35% frá lokum árs 2015. Einnig mældist meðalsölutími íbúða 1,6 mánuðir í lok síðastliðins árs og er það lægsti meðalsölutími sem mælst hefur síðan mælingar á þeim þætti hófust í ágúst 2006. 

Líkt og deildin hefur bent á fer þenslan í íslensku hagkerfi nú vaxandi, og er auknum hluta vinnuaflsþarfar hagvaxtarins mætt með innflutningi vinnuafls. Atvinnuleysi er lítið og atvinnuþátttaka mikil á sama tíma og hagvöxtur er kröftugur. „Leita þarf því út fyrir landsteinana í auknum mæli eftir vinnuafli, en aukning erlends vinnuafls ýtir undir spurn eftir íbúðum, kallar á auknar íbúðabyggingar og hækkar húsnæðisverð,“ segir í Morgunkorni Íslandsbanka.

„Eftir að verðþróun íbúðarhúsnæðis hafði fylgt launaþróun nokkuð vel í núverandi uppsveiflu á íbúðamarkaði hefur verið að skilja nokkuð þarna á milli síðustu mánuði, enda hefur hægt á kaupmáttaraukningu á sama tíma og bætt hefur í hækkunartakt íbúðaverðs. Gefur það ástæða til að hafa vakandi auga fyrir því hvort verðbóla kunni að vera að myndast á íbúðamarkaði um þessar mundir.“

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK