Milljarðamæringar á einni nóttu

Bobby Murphy og Evan Spiegel, stofnendur Snapchat voru kátir í ...
Bobby Murphy og Evan Spiegel, stofnendur Snapchat voru kátir í gær við skráningu félagsins á markað. AFP

Snapchat var skráð á markað í gær en segja má að útboðið hafi gengið mjög vel þar sem hlutabréfin ruku upp um 44% á fyrsta degi og er fyrirtækið nú metið á 28 milljarða dollara. Verður það að teljast nokkuð gott í ljósi þess að Snap Inc., fyrirtækið á bak við appið, hefur aldrei skilað hagnaði.

Urðu stofnendur Snapchat, þeir Evan Spiegel og Bobby Murphy, sem báðir eru á þrítugsaldri milljarðamæringar á einni nóttu og eru þeir nú á meðal ríkustu manna í tæknigeiranum. Auðæfi hvors þeirra eru metin á um 5,2 milljarða dollara, eða um 556 milljarða króna, í kjölfar skráningar Snapchat á markað.

Skráning Snapchat á markað gekk vonum framar.
Skráning Snapchat á markað gekk vonum framar. AFP

Fær einn dollar á ári

Samkvæmt útboðslýsingu ætlar Spiegel að feta í fótspor kollega síns, Mark Zuckerbergs stofnanda Facebook, og greiða sér einn dollara í laun á ári. Zuckerberg hefur gert hið sama frá árinu 2012 þegar Facebook fór á markað. Það sama gerðu einni Larry Page og Segey Brin stofnendur Google þegar leitarvélin fór á markað árið 2004.

Þessar lágu launagreiðslur bera þess merki að Spiegel hefur góða trú á velgengni félagsins þar sem hann treystir á vænar greiðslur vegna hlutareignar sinnar í Snapchat. Spiegel á 22% hlut í félaginu.

Verðmætara en Twitter

Greinendur höfðu gert ráð fyrir að fyrirtækið yrði metið á 20 til 25 milljarða dollara í kjölfar útboðsins og gekk útboðið framar vonum. Viðmiðunargengi hluta var 17 dollarar á hlut við upphaf viðskipta en rauk það strax upp í 24 dollara við opnun markaða. Þegar mörkuðum var lokað í gær stóð fengið í 24,48 dollurum á hlut en hæst fór það upp í 26,05 dollara.

Eftir útboðið telst Snapchat orðið verðmætara en Twitter sem metið er á 11 milljarða dollara en er þó ennþá langt á eftir Facebook sem er með 393 milljarða dollara markaðsvirði.

Snap Inc. var hringt inn í kauphöllina í New York ...
Snap Inc. var hringt inn í kauphöllina í New York í gær. AFP
mbl.is
Svæði

Gagnaveitur

Erlendar viðskiptafréttir