Íslendingur þróar nýja tækni Google

Guðmundur Hafsteinsson er verkefnastjóri hjá Google Assistant.
Guðmundur Hafsteinsson er verkefnastjóri hjá Google Assistant. mbl.is/Árni Sæberg

Þegar Guðmundur Hafsteinsson vann að því að koma Google Maps á markað þótti mörgum hugmyndin furðuleg. Hver myndi kjósa að horfa á pínulítið kort í símanum sínum? Í dag er hann verkefnastjóri hjá Google Assistant og segir marga horfa sömu undrunaraugum á tæknina.

„Viðbrögðin eru oft þannig að fólk segist ekki vera með neinar ljósaperur tengdar Internetinu á sínu heimili. Það segir að ég lifi í einhverjum draumaheimi,“ sagði Guðmundur á fundi Amerísk-íslenska viðskiptaráðsins og Samtaka atvinnulífsins í morgun. „En þegar að því kemur að við förum að nota þessi tæki þurfum við þessi viðmót.“

Google Assistant er tækni sem til dæmis er notuð í Google Home tækinu en það er hægt að nota til að stjórna nettengdum heimilistækjum og svara fyrirspurnum. 

Þegar heimilismenn setjast niður til að horfa á bíómynd er til dæmis hægt að varpa fram skipun um að Google Assistant kveiki á sjónvarpinu, finni mynd, dimmi ljósin, kveiki á örbylgjuofninum og komi poppinu af stað.

Google Home tækjum má koma fyrir víðs vegar um heimilið …
Google Home tækjum má koma fyrir víðs vegar um heimilið og nota til að stýra öðrum tækjum eða leita upplýsinga.

Þurfum eitthvað einfalt í flóknu umhverfi

Guðmundur er ekki ókunnugur tækni sem þessari þar sem hann vann áður hjá fyrirtækinu Siri áður en Apple keypti það en líkt og flestir þekkja er Siri raddstýringarbúnaður sem finna má í iPhone-símum. Áður en Guðmundur fór til Siri vann hann hjá Google og kom þá að þróun Google Maps. Eftir að Siri rann inn í Apple fór Guðmundur aftur yfir til Google.

„Við erum að horfa á framtíð þar sem allt er tengt við netið,“ sagði Guðmundur. „Við erum ekki að fara að læra á öll þessi tæki. Þetta verður orðið of flókið og ýtir þá undir þörfina fyrir eitthvað viðmót sem er eðlilegra fyrir okkur að nota.“

„Þetta er það sem við erum að gera hjá Google Assistant. Við ætlum ekki að neyða almenning til að læra inn á þetta heldur ætlum við að búa til eðlilegra viðmót.“Google Home tækjunum má koma fyrir víða um heimilið og til útskýringar benti Guðmundur á að með tækninni væri hægt að eiga samtal við Google við eldamennsku, óska eftir tónlist hvar sem er á heimilinu og auðvelda sér lífið ýmsan máta.

Guðmundur vinnur að þróun Google Assistant.
Guðmundur vinnur að þróun Google Assistant.

Mikilvægt að mega flakka á milli

Guðmundur hefur komið víða við í Kísildalnum og unnið þar að þróun og innleiðingu tækninýjunga frá árinu 2005. Hann þekkir nýsköpun vel og telur að Íslendingar gætu lært sitthvað af Kísildalnum.

Hann telur grunninn að velgengninni á svæðinu vera hágæða menntakerfi sem fjárfest hefur verið í. Það sé langtímafjárfestinga sem hafi skilað sér vel inn í nýsköpun og vöxt. Þá bendir hann á nálægð atvinnulífsins, frumkvöðla, menntastofnana og fjárfesta. Allir séu þeir samankomnir á litlu svæði og tengslamyndun verður þannig auðveldari.

Guðmundur telur einnig svokallað „At will employment“ ákvæði sem finna má í Kaliforníu mikilvægt. Samkvæmt því er enginn uppsagnarfrestur í starfi. „Það er gríðarlega mikilvægt fyrir nýsköpun að geta skipt um vinnu. Fólk hikar þannig ekki við að ráða og fólk hikar ekki við að fara.“ Þá nefnir hann einnig samkeppnisákvæði sem ekki eru við líði í Kaliforníu. „Ég lít á það sem grundvallarmannréttindi að geta unnið við það sem ég hef sérhæft mig í,“ sagði Guðmundur og benti á að þessi hreyfanleiki gæti verið mikilvæg forsenda nýsköpunar.

Guðmundur benti á að Íslendingar gætu markað sér stefnu í …
Guðmundur benti á að Íslendingar gætu markað sér stefnu í nýsköpun og vísaði til þess að við stæðum framarlega í sýndarveruleikaþróun. AFP

Skilgreina íslenska nýsköpun

Þá segir hann mikilvægt að halda lagaumhverfinu stöðugu. Óstöðugleiki sé það sem fari mest í taugarnar á erlendum fjárfestum. „Fjárfestar og fyrirtæki þurfa að vita að hverju þau ganga og geta treyst því til lengri tíma.“

Að lokum sagði Guðmundur að þegar litið væri á íslenska nýsköpunarumhverfið þyrfti einnig að skoða stefnuna og tilganginn. Mikilvægt væri að einblína á það sem gerir íslenska nýsköpun mikilvæga í stað þess að vinna að tilviljanakenndum nýjungum. Benti hann á að Íslendingar væru til dæmis að standa sig vel í nýsköpun varðandi fiskafurðir og sýndarveruleika og að það væri eitthvað til þess að hafa í huga.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK