Mikil veiking krónunnar ólíkleg

Hrafn Steinarsson hjá Greiningardeild Arion banka.
Hrafn Steinarsson hjá Greiningardeild Arion banka. Kristinn Ingvarsson

Krónan hefur veikst lítillega í morgun eftir styrkingu í gær. Hrafn Steinarsson hjá Greiningardeild Arion banka telur ólíklegt að breytingar í kjölfar haftalosunar skapi mikinn þýsting á gengi krónunnar til veikingar.

Gengisbreytingar hafa ekki verið mjög öflugar í kjölfar haftalosunar og spurður hvort það gefi vísbendingu um komandi tíma segir Hrafn ómögulegt að spá fyrir um gengisþróun næstu daga og vikna. Frekar megi þó leiða líkur að því að skammtíma flökt aukist í ljósi þess að fjármagnsflæði sé nú að mestu leyti frjálst. Engar hömlur eru á fjárfestingu lífeyrissjóða á erlendum mörkuðum og einnig er einstaklingum og fyrirtækjum frjálst að fjárfesta erlendis. „Engu að síður teljum við ólíklegt að þessi breyting skapi mikinn þrýsting á gengi krónunnar til veikingar,“ segir Hrafn.

Krónan hefur veikt um 0,4% til 1,8% gagnvart helstu gjaldmiðlum í morgun. Evran hefur hækkað um 1,23% gagnvart krónunni og Bandaríkjadalur um 0,4%.

Nokkrir þættir geta ýtt undir styrkingu

„Hafa þarf í huga að í fyrra var metafgangur af viðskiptum við útlönd eða um 8% af vergri landsframleiðslu. Einnig var merki um auknar gjaldeyrisvarnir fyrirtækja í fyrra en það getur ýtt undir styrkingu krónunnar,“ segir Hrafn.

„Þá er ekki ólíklegt að losun fjármagnshafta hafi jákvæð áhrif á lánshæfismat ríkisins og að Ísland muni í auknum mæli verða áhugaverður fjárfestingakostur fyrir erlenda fjárfesta, og það á líka við um beina erlenda fjárfestingu.“

AFP

Löngu tímabært skref

Hrafn bendir á að hingað til hafi skort gjaldeyrisútstreymi og því hafi Seðlabankinn verið nánast einn í því að leggjast gegn styrkingu krónunnar með gjaldeyrisinngripum og stækkun á hreinum gjaldeyrisforða.

„Það er því löngu tímabært að stíga þetta skref að losa frekar um höftin, skapa forsendur fyrir eðlilegt gjaldeyrisútstreymi og freista þess að meira jafnvægi náist á gjaldeyrismarkaði,“ segir hann.

„Þróunin á næstu misserum á svo eftir að leiða í ljós hvert jafnvægisgengið er og hvort Seðlabankanum tekst að tempra skammtíma gengissveiflur.“

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK