„Erkitákn alþjóðafjármálakerfisins“

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson. mbl.is/Rax / Ragnar Axelsson

„Vogunarsjóðir og sjálf erkitáknmynd alþjóðafjármálakerfisins, Goldman Sachs, eignast Arion banka (30%). Ríkisstjórnin algjörlega óundirbúin og stefnulaus um framtíð fjármálakerfisins,“ skrifar Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, fyrrverandi forsætisráðherra, á Facebook.

Sigmundur Davíð bætir við: „Hefur þó e.t.v. fengið að fylgjast með þessu á fundum í New York.

Fjármálaeftirlitið tók fram að yfirtaka vogunarsjóðanna á Lýsingu væri ekki fordæmisgefandi. Hvað nú?

Rennur þetta í gegn og klárast umræðulaust með samstilltum fréttatilkynningum eftir kvöldfréttir á sunnudegi?

Sumum hefur þótt það merki um „paranoju“ þegar bent er á að þessir aðilar beiti ýmsum ráðum til að hámarka hagsmuni sína á Íslandi.

Fyrir viðkomandi fylgir „til gamans“ umfjöllun bandaríska dómsmálaráðuneytisins um einn af nýju eigendum Arion banka,“ skrifar þingmaður Framsóknarflokksins og lætur fylgja með færslu sinni umfjöllun ráðuneytisins. 

Kaupskil, félag sem heldur á 87% eignarhlut Kaupþings í Arion banka, hefur komist að samkomulagi við fjóra aðila um kaup á ríflega 29% hlut í bankanum. Kaupverðið nemur nærri 50 milljörðum króna og rennur það allt til að greiða inn á 84 milljarða skuldabréf sem Kaupþing gaf út vegna stöðugleikasamkomulags við íslenska ríkið. Kaupverðið rennur því að fullu til ríkisins. Kaupverðið er áætlað um 81 eyrir á hverja krónu eigin fjár í bankanum og er það eilítið hærra verð en lagt var upp með í viðræðum, sem miðuðu að því að íslenskir lífeyrissjóðir keyptu umtalsverðan hlut í bankanum. Sjóðirnir eiga ekki aðkomu að þessum viðskiptum en Morgunblaðið hefur greint frá því í fréttum á liðnum vikum að algjört frost sé í viðræðum sjóðanna og Kaupskila.

Bandaríski fjárfestingarbankinn Goldman Sachs hefur aðkomu að kaupunum ásamt fjárfestingarsjóðunum Taconic Capital, Attestor Capital og Och-Ziff. Allt eru það eigendur að Kaupþingi.

Paul Copley, forstjóri Kaupþings, segir að þarna sé um að ræða stærstu einstöku hlutabréfakaup erlendra aðila í sögu Íslands.

Bjarni Benediktsson forsætisráðherra fagnar því að erlendir fjárfestar ákveði að festa fé í íslenskri fjármálastofnun.

„Þetta sýnir ótvírætt traust á aðstæðum hérlendis og það eru sannarlega góðar fréttir ef hingað vilja koma öflugir erlendir aðilar sem eru tilbúnir að gerast langtímafjárfestar í íslenskum fjármálafyrirtækjum,“ segir Bjarni. Hann segir einnig í samtali við Morgunblaðið að viðskiptin gefi fyrirheit um að ríkissjóður muni á réttum tímapunkti geta losað um 13% eignarhlut sinn í bankanum.

mbl.is
Svæði

Gagnaveitur

Erlendar viðskiptafréttir