Völdu frekar vogunarsjóðina

Íslenskir lífeyrissjóðir voru enn þá áhugasamir um kaup á hlut í Arion banka þegar ákveðið var að ganga til samninga við erlenda fjárfesta. Möguleg sameiginleg aðkoma sjóðanna að kaupum á hlut í bankanum er ekki lengur á borðinu og er hópurinn undrandi á niðurstöðunni.

RÚV greindi fyrst frá því að Kaupþing hefði slitið viðræðunum en þetta staðfestir Þórarinn V. Þórarinsson, hæstaréttarlögmaður sem leiddi samningaviðræður lífeyrissjóðanna, í samtali við mbl.

Samningaviðræður milli Kaupþings og hóps íslenskra lífeyrissjóða hafa staðið yfir í rúmt ár og höfðu samningsdrög þegar verið kynnt í stjórnum flestra lífeyrissjóða. Á sunnudag var síðan tilkynnt um kaup fjögurra vogunarsjóða og fjárfesta á 30% hlut í bankanum. Eiga sjóðirnir nú samtals beint eða óbeint ríflega 67% hlut í Arion banka eftir kaupin, miðað við eignarhlut í eignarhaldsfélaginu Kaupþingi um áramótin. Þar af er stærsti hluthafinn vogunarsjóðurinn Taconic Capital sem á tæplega þriðjungshlut beint eða óbeint.

Töldu áhuga til staðar

Þórarinn segir ljóst að lífeyrissjóðirnir muni eftir þetta ekki koma saman að kaupum á hlut í Arion banka. „Hvort einstakir sjóðir kaupa hluti í Arion ef þeir verða boðnir til sölu get ég ekkert sagt um. Þessu sameiginlega verkefni um kaup á hlutum í Arion er hins vegar slitið og Kaupþing setti endapunktinn við það með því að slíta viðræðum,“ segir hann.

Að sögn Þórarins var búið að kynna verkefnið í stjórnum lífeyrissjóða og var beðið eftir endanlegum samningi áður en hægt væri að taka málið til endanlegrar afgreiðslu. „Það var ekkert sem gaf annað til kynna en að áhuginn væri til staðar.“

Komið hefur fram að kaupverðið í viðskiptunum við erlendu fjárfestana hafi verið 0,81 króna fyrir hverja krónu eigin fjár. Spurður um kaupverð í samningaviðræðum við lífeyrissjóðina segir Þórarinn tilgangslaust að tjá sig um það og vísar til þess að verðið sé bundið trúnaði. „Lífeyrissjóðirnir hefðu ekki tekið þátt í þessum kaupum nema að telja það sjóðsfélögum hagfellt.“

Verðmæti beins og óbeins hlutar Taconic Capital er um 54 …
Verðmæti beins og óbeins hlutar Taconic Capital er um 54 milljarðar króna samkvæmt kaupverðinu sem vogunarsjóðirnir greiddu. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Tekin ákvörðum um að selja frekar eigendum

„Niðurstaðan er að Kaupþing hefur slitið þessum viðræðum í framhaldi af því að stærstu eigendur hafa tryggt sér meirihluta í bankanum.“

Þórarinn segir þetta hafa komið mjög á óvart. „Það hefur frá upphafi verið ljóst að það yrði að líkindum áhugi einhverra af stærri eigendum Kaupþings á því að taka þátt í kaupunum á Arion banka. Lengst af hefur verið talað um að umfang þeirra kaupa væri líklegt til að vera 10 til 20%. Það hefur á engu stigi komið fram að eigendur Kaupþings kynnu að kjósa að tryggja sér meirihluta í bankanum.“

„Það kom síðan enn meira á óvart að Kaupþing skyldi kjósa að ganga til samninga sem fælu það í sér að þeir gætu ekki lokið samningsdrögum gagnvart lífeyrissjóðunum eins og þau lágu fyrir. Þannig að það var tekin ákvörðun um að selja frekar eigendum en íslensku lífeyrissjóðunum.“

Umfangið kom á óvart

Spurður hvenær lífeyrissjóðirnir hafi frétt af kaupunum segist Þórarinn hafa fengið upplýsingar um nákvæmar stærðir á sunnudag þegar tilkynnt var um kaupin. „Við höfðum tilfinningu fyrir því að kaupin gætu orðið meiri en þessi 10 til 20% sem áður hafði verið rætt en það var ekkert sem gaf til kynna að umfangið væri af þessum toga.“

Þórarinn segir að málið verði skoðað í heild sinni þegar undruninni sleppir. Spurður hvort mögulega verði gripið til einhverra aðgerða svarar Þórarinn „no comment“.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK