Blekktu stjórnvöld vísvitandi

Í skýrslunni segir að gögn sýni með óyggjandi hætti að …
Í skýrslunni segir að gögn sýni með óyggjandi hætti að þýski bankinn Hauck & Aufhäuser, Kaupþing hf. á Íslandi, Kaupthing Bank Luxembourg og hópur manna sem vann fyrir og í þágu Ólafs Ólafssonar fjárfestis notuðu leynilega samninga til að fela raunverulegt eignarhald þess hlutar sem Hauck & Aufhäuser átti í orði kveðnu. mbl.is/Ómar

Rannsóknarnefnd Alþingis hefur sannreynt að þýski bankinn Hauck & Aufhäuser var aldrei í reynd fjárfestir í Búnaðarbankanum þegar 45,8% hlutur ríkisins í honum var seldur í janúar 2003, ólíkt því sem haldið var fram allt frá upphafi. Það er afdráttarlaus niðurstaða rannsóknarnefndar Alþingis að stjórnvöld hafi skipulega verið blekkt í aðdraganda og kjölfar sölunnar.

Ólafur Ólafsson, forstjóri Samskipa, og Finnur Ingólfsson, forstjóri VÍS, voru …
Ólafur Ólafsson, forstjóri Samskipa, og Finnur Ingólfsson, forstjóri VÍS, voru brosmildir þegar þeir óku á brott eftir að hafa samið við einkavæðingarnefnd um kaup S-hópsins á 45,8% hlut í Búnaðarbankanum? mbl.is/Þorkell Þorkelsson

Notuðu leynilega samninga til að fela raunverulegt eignarhald

Ítarleg skrifleg gögn sýna með óyggjandi hætti að þýski bankinn Hauck & Aufhäuser, Kaupþing hf. á Íslandi, Kaupthing Bank Luxembourg og hópur manna sem vann fyrir og í þágu Ólafs Ólafssonar fjárfestis notuðu leynilega samninga til að fela raunverulegt eignarhald þess hlutar sem Hauck & Aufhäuser átti í orði kveðnu.

Í raun var eigandi hlutarins aflandsfélagið Welling & Partners, skráð á Tortóla á Bresku Jómfrúaeyjum. Með fjölda leynilegra samninga og millifærslum á fjármunum, m.a. frá Kaupþingi hf. inn á bankareikning Welling & Partners hjá Hauck & Aufhäuser var þýska bankanum tryggt skaðleysi af viðskiptunum með hluti í Búnaðarbankanum.

Búnaðarbankinn
Búnaðarbankinn mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Síðari viðskipti á grundvelli ofangreindra leynisamninga gerðu það að verkum, að Welling & Partners fékk í sinn hlut rúmlega 100 milljónir Bandaríkjadala sem voru lagðar inn á reikning félagsins hjá Hauck & Aufhäuser. Snemma árs 2006, eða um þremur árum eftir viðskiptin með eignarhlut ríkisins í Búnaðarbankanum, voru 57,5 milljónir Bandaríkjadala greiddar af bankareikningi Welling & Partners til aflandsfélagsins Marine Choice Limited sem stofnað var af lögfræðistofunni Mossack Fonseca í Panama en skráð á Tortóla.

Raunverulegur eigandi Ólafur Ólafsson

Raunverulegur eigandi Marine Choice Limited var Ólafur Ólafsson. Um svipað leyti voru 46,5 milljónir Bandaríkjadala greiddar af bankareikningi Welling & Partners til aflandsfélagsins Dekhill Advisors Limited sem einnig var skráð á Tortóla. Ekki liggja fyrir óyggjandi upplýsingar um raunverulega eigendur Dekhill eða hverjir nutu hagsbóta af þeim fjármunum sem greiddir voru til félagsins.

Kjartan Bjarni Björgvinsson, formaður rannsóknarnefndarinnar og Finnur Þór Vilhjálmsson, starfsmaður …
Kjartan Bjarni Björgvinsson, formaður rannsóknarnefndarinnar og Finnur Þór Vilhjálmsson, starfsmaður nefndarinnar.

Ítarlega er fjallað um málavexti í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis sem gerð var opinber í dag. Hún er aðgengileg á vef rannsóknarnefnda Alþingis og í henni er meðal annars að finna tölvupóstsamskipti milli ofangreindra aðila. Þau sýna hvernig íslensk stjórnvöld voru blekkt og hvernig rangri mynd af viðskiptunum var haldið að fjölmiðlum og almenningi.

Á hinn bóginn bendir ekkert til annars en að öðrum aðilum innan fjárfestahópsins sem keypti hlut ríkisins í Búnaðarbankanum, S-hópsins svokallaða, hafi verið ókunnugt um leynisamningana og að þeir hafi staðið í þeirri trú að Hauck & Aufhäuser væri raunverulegur eigandi þess hlutar sem hann var skráður fyrir.

Kjartan Bjarni Björgvinsson, formaður rannsóknarnefndar Alþingis, afhendir Unni Brá Konráðsdóttur, …
Kjartan Bjarni Björgvinsson, formaður rannsóknarnefndar Alþingis, afhendir Unni Brá Konráðsdóttur, forseta Alþingis, skýrslu um einkavæðingu Búnaðarbankans. mbl.is/Golli

Í janúar 2003 var undirritaður kaupsamningur um kaup S-hópsins svokallaða auk þýsks fjárfestingarbanka á 45,8% hlut ríkisins í Búnaðarbanka Íslands. Kaupverðið er um 11,9 milljarðar króna en núvirt meðalgengi hlutabréfa í bankanum í viðskiptunum er 4,81.

Eftir viðskiptin var eignarhlutur ríkisins í Búnaðarbankanum um 9%. Kaupendur eru Egla hf., Vátryggingafélag Íslands hf., Samvinnulífeyrissjóðurinn og Eignarhaldsfélagið Samvinnutryggingar. Egla er hlutafélag í eigu þýska bankans Hauck & Aufhäuser Privatbankiers KGaA, Kers hf. og VÍS.

Valgerður Sverrisdóttir viðskiptaráðherra og Geir H. Haarde fjármálaráðherra undirrituðu kaupsamninginn fyrir hönd íslenska ríkisins, að því er fram kom í frétt Morgunblaðsins frá þessum tíma.

mbl.is/Jónas Erlendsson

Framkvæmdanefnd um einkavæðingu hafði umsjón með sölunni af hálfu ríkisins. Aðalráðgjafi nefndarinnar var enski bankinn HSBC, sá hinn sami og var aðalráðgjafi ríkisins við söluna á 45,8% hlut ríkisins í Landsbanka Íslands hf. til Samsonar ehf., en samningur þar um var undirritaður á síðasta degi ársins 2002.

Aðalráðgjafi kaupenda var franski bankinn Société Générale.

Kaupverð Búnaðarbankans er að tveimur þriðju hlutum greitt í Bandaríkjadölum og sagði í sameiginlegri fréttatilkynningu seljanda og kaupenda, að það verði einkum nýtt til greiðslu erlendra skulda ríkissjóðs.

Eignarhlutir samkvæmt samningnum skiptast milli kaupenda með eftirfarandi hætti:

Egla hf. 71,2%,

Vátryggingafélag Íslands hf. 12,7%.

Samvinnulífeyrissjóðurinn 8,5%.

Eignarhaldsfélagið Samvinnutryggingar 7,6%.

Hlutur Eglu skiptist þannig að Hauck & Aufhäuser Privatbankiers KGaA á 35,6%, Ker á 35,2% og Vátryggingafélag Íslands 0,4%.

Hlutur þýska bankans í Búnaðarbankanum er því 16,3%, hlutur Kers er 16,1%, samanlagður hlutur VÍS er 6,0%, hlutur Samvinnulíferyissjóðsins 3,9% og Eignarhaldsfélagsins Samvinnutrygginga 3,5%.

Þýski bankinn Hauck & Aufhäser Privatbankiers KGaA er að 70% í eigu einstaklinga og 30% í eigu stofnfjárfesta. Hann var stofnaður fyrir 206 árum og er meðal annars með starfsemi í Sviss og Lúxemborg auk Þýskalands. Höfuðstöðvar bankans eru í Frankfurt í Þýskalandi. Bankinn sérhæfir sig í sjóða- og eignastýringu fyrir stofnanir og einkaaðila, umsjón verðbréfa fyrir sjóði og fjármálastjórn fyrirtækja og einstaklinga.

Fram kemur í tilkynningu vegna kaupanna að í árslok 2001 hafi Hauck & Aufhäser Privatbankiers KGaA farið með stjórn eigna og sjóða að andvirði 12 milljarða evra, sem svarar til um þúsund milljarða íslenskra króna. Brúttó heildareignir í samstæðurreikningi bankans námu 1.694 milljónum evra, jafnvirði um 143 milljarða íslenskra króna, og eigið fé nam 107 milljónum evra, um 9 milljörðum íslenskra króna.

Fulltrúar einkavæðingarnefndar og Búnaðarbankans bera saman bækur sínar við opnun …
Fulltrúar einkavæðingarnefndar og Búnaðarbankans bera saman bækur sínar við opnun tilboða í hlutabréf ríkisins í Búnaðarbankanum mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Traustur erlendur aðili segir í fréttatilkynningu frá S-hópnum

Í fréttatilkynningu frá kaupendum á 45,8% hlut ríkisins í Búnaðarbankanum segir að það séu mikil tíðindi að traustur, erlendur banki taki þátt í að fjárfesta í íslenskri fjármálastofnun. Búnaðarbankinn komi til með að njóta þekkingar, reynslu og viðskiptasambanda þýska bankans í starfsemi sinni. Enn mikilvægara sé að með eignarhaldi þýska bankans í Búnaðarbankanum skapist tengsl sem íslensk fyrirtæki geti notfært sér til að styrkja starfsemi sína og sókn á erlendum mörkuðum. Þetta sé afar mikilvægt þegar haft sé í huga að möguleikar íslenskra fyrirtækja til að vaxa verulega og dafna tengist fyrst og fremst alþjóðlegri starfsemi.

 Í viðtali við Morgunblaðið á þessum tíma sagði Peter Gatti, framkvæmdastjóri og meðeigandi þýska fjárfestingarbankans Hauck & Aufhäuser Privatbankiers KGaA, segir að Búnaðarbankinn sé vænleg fjárfesting. Þá telji hinn þýski banki einnig að hann hafi hag af því að miðla af sérþekkingu sinni. „Búnaðarbankanum svipar mjög til okkar banka og við höfum góðan skilning á því sem hann gerir," segir hann.

Samkomulag um sölu á stærstum hlut ríkisins í Búnaðarbanka Íslands. …
Samkomulag um sölu á stærstum hlut ríkisins í Búnaðarbanka Íslands. Það voru Egla ehf., Eignarhaldsfélagið Samvinnutryggingar, Samvinnulífeyrissjóðurinn og Vátryggingafélag Íslands sem undirrituðu samkomulagið annars vegar og hins vegar framkvæmdanefnd um einkavæðingu. mbl.is/Þorkell Þorkelsson

Gatti segir að bankinn hafi fjárfest í mörgum miðlungsstórum einkafyrirtækjum og einnig náð góðum árangri við samruna og yfirtökur á síðustu fjórum árum. Bankinn hafi sjálfur mjög jákvæða reynslu af samruna við Bankhaus Aufhäuser í München, sem áður var í eigu Bayerishe Landesbanke.

Í apríl 2003 sendi Egla frá sér eftirfarandi tilkynningu en daginn áður hafði Innherji viðskiptablaðs Morgunblaðsins fjallað um fyrirhugaða sameiningu Búnaðarbankans og Kaupþings:

„Að gefnu tilefni, vegna umfjöllunar í fjölmiðlum undanfarið í tengslum við viðræður um sameiningu Kaupþings og Búnaðarbanka Íslands og ummæla sjálfskipaðra sérfræðinga um málefni fjárfestahópsins sem keypti kjölfestuhlut í Búnaðarbanka Íslands hf., þá þykir Eglu hf. rétt að eftirfarandi komi fram:

Það er rangt að samningar hafi legið fyrir um sameiningu Búnaðarbanka Íslands hf. og Kaupþings áður en gengið var frá kaupunum á kjölfestuhlutnum í Búnaðarbanka Íslands hf., eins og ýjað hefur verið að. Engir slíkir samningar lágu fyrir. Hins vegar lá fyrir frá upphafi að kaupendur að kjölfestuhlutnum í Búnaðarbanka Íslands hf. stefndu að hagræðingu í rekstri bankans og vildu skoða tækifæri á samvinnu innlendra og erlendra aðila við að endurskipuleggja íslenskan fjármálamarkað, til hagsbóta fyrir hluthafa, starfsmenn bankans og neytendur í landinu.

Frá aðalfundi Búnaðarbankans árið 2003. Kristinn Zimsen fundarritari, Stefán Pálsson …
Frá aðalfundi Búnaðarbankans árið 2003. Kristinn Zimsen fundarritari, Stefán Pálsson aðalbankastjóri, Valgerður Sverrisdóttir viðskiptaráðherra, Gestur Jónsson fundarstjóri og Pálmi Jónsson, formaður bankaráðs. Þorkell Þorkelsson

Það er einnig rangt að Kaupþing hafi annast fjármögnun Eglu hf. á hlutnum í Búnaðarbanka Íslands hf. Ker hf. á tæplega helmingshlut (49,5%) í Eglu hf. á móti þýska bankanum Hauck & Aufhäuser Privatbankiers KGaA (50%). Sú lánafyrirgreiðsla sem Egla hf. fékk vegna sinna kaupa er alfarið frá Landsbanka Íslands hf., viðskiptabanka Eglu hf. og Kers hf. Eigið fé Kers hf. er nú metið um 10 milljarðar króna og að undanförnu hefur félagið selt eignir að verðmæti um 5 milljarðar króna, í samræmi við endurskoðaða fjárfestingastefnu félagsins. Salan á hlut Kers hf. í Vátryggingafélagi Íslands hf. til Kaupþings fyrir 2,8 milljarða króna var liður í þessari endurskipulagningu fjárfestinga félagsins.

Það er einnig rangt að þýski bankinn Hauck & Aufhäuser Privatbankiers KGaA eigi ekki fulltrúa í nýju bankaráði Búnaðarbanka Íslands hf. né hafi fulltrúar bankans ekki mætt á aðalfund Búnaðarbanka Íslands hf. laugardaginn 22. mars sl. Dr. Michael Sautter, framkvæmdastjóri hjá Société Generale, var tilnefndur sem fulltrúi Eglu hf. og þar með þýska bankans í bankaráð Búnaðarbanka Íslands hf. Hefur hann verið beðinn af þýska bankanum um að sitja áfram í bankaráðinu sem fulltrúi Eglu hf., þó svo hann sé innan tíðar að láta af störfum hjá Société Generale.

Þá skal ítrekað hér að hvorki fleiri né færri en 4 fulltrúar þýska bankans Hauck & Aufhäuser Privatbankiers KGaA sátu aðalfund Búnaðarbanka Íslands hf. á dögunum, þar á meðal Gatti, aðalframkvæmdastjóri hans.

Einnig er rétt að vekja athygli á því hér að fjárhagslegur styrkleiki fjárfestahópsins var aldrei dreginn í efa þegar hópurinn var valinn af Einkavæðingarnefnd ríkisins til að kaupa hlut hins opinbera í Búnaðarbanka Íslands hf., né heldur er leitað var samþykkis Fjármálaeftirlitsins fyrir kaupunum. Vangaveltur síðustu daga um fjármögnun á kaupunum í Búnaðarbanka Íslands hf. eiga því ekki við rök að styðjast og eru ófaglegar og í meginatriðum rangar," að því er segir í yfirlýsingu frá Eglu sem var send til Morgunblaðsins í kjölfar eftirfarandi skrifa:

Bónorð til banka

Innherji skrifar

Í gær hófust formlegar viðræður um sameiningu Búnaðarbankans og Kaupþings. Stefnt er að því að viðræðurnar taki skamman tíma og verði jafnvel lokið fyrir páska.

Í gær hófust formlegar viðræður um sameiningu Búnaðarbankans og Kaupþings. Stefnt er að því að viðræðurnar taki skamman tíma og verði jafnvel lokið fyrir páska. Enda þykir vænlegra til árangurs að sameiningar eða yfirtökur taki skamman tíma fremur en að þær dragist á langinn.

Það kemur fáum á óvart að Búnaðarbankinn skuli fara í sameiningarviðræður við annan banka enda lá ljóst fyrir að mikill vilji var fyrir hagræðingu í bankakerfinu við brotthvarf ríkisins af þeim markaði. Það hefur hins vegar vakið furðu hve fljótir Kaupþingsmenn eru til að senda bónorðsbréf til bankaráðs Búnaðarbankans, eða einungis þremur dögum eftir að nýtt bankaráð er kjörið á aðalfundi bankans. Leiða má líkur að því að stjórn Kaupþings hefði ekki sent bréfið nema vera nokkuð viss um að bankaráð Búnaðarbankans myndi taka vel í málaleitanina.

Viðræðum neitað Á aðalfundi Búnaðarbankans neitaði nýkjörinn formaður bankaráðs, Hjörleifur Jakobsson, því í samtali við Morgunblaðið að þegar væri byrjað að ræða sameiningar á fjármálamarkaði. Þann sama dag ræddu fulltrúar S-hópsins við fulltrúa Landsbankans um mögulega sameiningu og stuttu áður höfðu fulltrúar S-hópsins rætt við fulltrúa Íslandsbanka. Jafnframt höfðu þeir rætt við fulltrúa Kaupþings. Því má segja að þreifingar hafi verið byrjaðar fyrir aðalfundinn án þess að hægt sé að segja til um hversu mikil alvara var í þeim.

Sá stutti tími sem það tók forsvarsmenn Búnaðarbankans og Kaupþings að sammælast um formlegar viðræður hefur vakið upp hinar ýmsu samsæriskenningar í viðskiptalífinu. Meðal þeirra er að fyrirfram hafi verið búið að semja um sameiningu Kaupþings og Búnaðarbankans. Samkvæmt henni er ástæðan sú að S-hópinn skorti fjármagn til þess að greiða fyrir 45,8% hlut ríkisins í bankanum. Því til stuðnings er bent á kaup Kaupþings á tæplega 20% hlut Kers í VÍS tveimur dögum eftir að fjármálaeftirlitið heimilaði kaup S-hópsins í Búnaðarbankanum. Greiddi Kaupþing 2,8 milljarða fyrir bréfin. Jafnframt hefur það vakið athygli að Hauck & Aufhäuser, sem er stærsti einstaki hluthafinn innan S-hópsins, sé ekki með mann í bankaráði Búnaðarbankans né hafi fulltrúi bankans mætt á aðalfund Búnaðarbankans. Heldur er framkvæmdastjóri hjá Société Générale, dr. Michael Sautter, meðal bankaráðsmanna en eins og fram hefur komið veitti franski bankinn Société Générale S-hópnum ráðgjöf við tilboðsgerð í Búnaðarbankann án nokkurra eignatengsla við kaupin.

Ef Kaupþing og Búnaðarbanki sameinast verður spennandi að sjá hver eða hverjir setjast í stól bankastjóra í sameinuðum banka og hvernig stjórn bankans verður skipuð. Hvort bankastjórinn komi frá Kaupþingi og formaður stjórnar frá Búnaðarbankanum eða öfugt.

En þrátt fyrir allar samsæriskenningar er ekki hægt að fullyrða neitt um hversu langt tilhugalífið er hjá Búnaðarbankanum og Kaupþingi enda hefur ekkert komið fram opinberlega sem sannar þær. Það sem öruggt er í málinu er að formlegar viðræður bankanna hófust í gær hvort sem frumkvæðið að formlegum viðræðum hafi fyrst komið fram hjá Kaupþingi 25. mars eða fyrr. Tíminn mun leiða það í ljós hvernig viðræðunum lyktar en það er mikilvægt fyrir hinn almenna hluthafa í Búnaðarbankanum og Kaupþingi sem og starfsfólk að þeim ljúki fljótt, hver svo sem niðurstaðan verður.

innherji@mbl.is

Rúmum tveimur árum síðar var tilkynnt um að Kjalar ehf., félag í eigu Ólafs Ólafssonar stjórnarformanns Samskipa og fjölskyldu hans, hefði keypt liðlega 23% hlut þýska bankans Hauck & Aufhäuser í Eglu fyrir 5,5 milljarða króna en Egla er næststærsti hluthafinn í Kaupþingi banka með tæplega 10% hlut. Kjalar á einnig 55% í Keri sem aftur á 68% hlut í Eglu.

Eftir þessi viðskipti á Hauck & Aufhäuser engin hlutabréf lengur í Eglu en þýski bankinn var upphaflega helmingseigandi að Eglu þegar félagið keypti 32,6% hlut í Búnaðarbankanum af ríkissjóði árið 2002 fyrir um 8,5 milljarða króna. Hauck & Aufhäuser seldi fyrri eignarhlut sinn fyrir rúmu ári síðan. Sala þýska bankans á eignarhlut sínum í Eglu er í takt við þær yfirlýsingar sem stjórnendur bankans höfðu gefið um að þeir hygðust eiga í Kaupþingi banka í tvö ár og íhuga síðan fjárfestinguna. Ljóst er að þýski bankinn hefur fengið afar góða ávöxtun af fjárfestingu sinni í Eglu.

„Við vissum af áhuga Hauck & Aufhäuser á að selja bréfin í Eglu. Við höfum alltaf haft mikla trú á Kaupþingi banka og stjórnendum hans sem hafa staðið sig mjög vel í gegnum tíðina. Við gerðum því Hauck & Aufhäuser tilboð í bréfin sem byggir á undirliggjandi gengi upp á 528 í bréfum Kaupþings banka. Þeir hafa samþykkt tilboðið," segir Guðmundur Hjaltason framkvæmdastjóri Eglu, í samtali við Morgunblaðið í júní 2005.

Eftir viðskiptin nú eru eigendur Eglu þrír, Ker með 68% hlut, Kjalar með tæp 28% og Grettir með rúm 4%.

Sigurður Einarsson, Hreiðar Már Sigurðsson, Hjörleifur Jakobsson og Sólon R. …
Sigurður Einarsson, Hreiðar Már Sigurðsson, Hjörleifur Jakobsson og Sólon R. Sigurðsson greindu frá sameiningaráformum Búnaðarbanka Íslands og Kaupþings í Þjóðmenningarhúsinu árið 2003. mbl.is/Kristinn Ingvarsson
mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK