Sterkasta og stöðugasta króna heims

Íslenska krónan hefur styrkst gríðarlega gagnvart helstu gjaldmiðlum á síðustu …
Íslenska krónan hefur styrkst gríðarlega gagnvart helstu gjaldmiðlum á síðustu misserum. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Íslenska krón­an hef­ur frá ár­inu 2013 styrkst um 15% til 45% gagn­vart helstu gjald­miðlum og að sögn Grein­ing­ar­deild­ar Ari­on má segja að krón­an hafi verið sú sterk­asta í heimi. Þá hef­ur einnig verið lítið flökt á krón­unni og má þar að auki segja að hún hafi verið stöðug­asti gjaldmiðill í heimi fram að þessu. Þetta mun þó breytast nú með losun fjármagnshafta og hefur flökt nú þegar farið vaxandi. Þá mun sterk króna mun að lok­um bitna á ferðaþjón­ust­unni þegar hæg­ir á fjölg­un ferðamanna.

Líkt og mbl greindi frá í morgun gerir Greiningardeild Arion ráð fyrir frekari styrkingar krónunnar á árinu.

Greiningardeild Arion banka gerði samanburð á gengi krónunnar eftir hrun á Íslandi og annarra gjaldmiðla eftir kreppuna á Norðurlöndum 1991 til að meta hvort gengisþróunin væri svipuð eftir fjármálaáföll. Svo er ekki. Raungengið hefur styrkst mun hraðar á Íslandi en það gerði á Norðurlöndum. Á tíu ára tímabili hélst raungengið á Norðurlöndum um 10% til 20% veikara en það var fyrir bankakreppu. Íslenska krónan er hins vegar komin 6% yfir sögulegt meðaltal.  

Erfitt að einangra áhrifin

Hrafn Steinarsson hjá Greiningardeild Arion vísaði til svokölluðu hollensku veikinnar sem getur komið upp þegar ójafnvægi sem skapast í hagkerfi ríkis vegna auðlindagnægðar sem veldur óeðlilegri gengishækkun. Auðlindin okkar í þessu samhengi eru ferðamenn.

„Það má segja að það rigni inn mörgum milljónum ferðamanna. Þetta er eftirspurnarhnykkur, þeirra gjaldmiðill dreifist um allt hagkerfið,“ sagði Hrafn og vísaði til þess að erfitt væri því að einangra áhrifin líkt og Norðmenn gerðu með olíusjóðinn. Hins vegar hafi verið byggður upp góður gjaldeyrisforði á Íslandi og þannig hefur verið tryggt að þetta fari ekki allt út í hagkerfið og valdi meiri þrýsting á gengi krónunnar.

Seðlabanki Íslands hefur ekki svigrúm líkt og í fyrra til …
Seðlabanki Íslands hefur ekki svigrúm líkt og í fyrra til að selja eignir. mbl.is/Ómar Óskarsson

Dýrasta land í heimi

Greiningardeild Arion banka segir Ísland stefna í að verða dýrasta land í heimi sama á hvaða mælikvarða sé litið. Það sé þó ekki dýrt í krónum talið þar sem verðlag er ekki ósvipað og í löndum Evrópusambandsins. Þar hefur verðlag hækkað um 10% á síðustu misserum en hækkunin á Íslandi nemur 20%. Þegar þessu er hins vegar varpað yfir í evrur þýðir það um 60% verðhækkun. Það hljóti að hafa áhrif á ferðamenn. 

Hrafn vísaði til þess að áhrifin væru þegar sjáanleg þar sem eyðsla ferðamanna hefur dregist saman. Sagði hann að þetta muni að lokum bitna á ferðaþjónustunni þegar hægir á vextinum.

Ekkert svigrúm til að selja eignir

Greiningardeild Arion banka telur líkur á að krónan sé komin yfir jafnvægisraungengið. Þá telur deildin að styrking krónunnar sé ekki sjálfbær.

Metafgangur af viðskiptum við útlöndhefur skapað mikið gjaldeyrisinnflæði og hefur Seðlabankinn í auknum mæli þurft að leggjast gegn innstreyminu undanfarin misseri. Gjaldeyrisinngripin námu samtals 386 milljörðum króna og stækkaði hreinn gjaldeyrisforði um rúma 280 milljarða.

Greiningardeild Arion bendir á að þegar Seðlabankinn kaupi 400 milljarða gjaldeyri þurfi að bregðast við því. Innlendar eignir hafa seldar og dregist saman úr 500 milljörðum niður í 70 milljarða. Ekkert svigrúm er í ár til að selja eignir og þyrfti Seðlabankinn því að treysta á bundin innlán og stækka efnahagsreikning sinn. Þá telur Greiningardeildin að Seðlabankinn hafi meiri áhuga á að leggjast gegn gengisbreytingum en að koma í veg fyrir ofris krónunnar.

Gjaldtaka, stöðugleikasjóður eða eitt VSK-þrep

Til þess að koma í veg fyrir ofris krónunnar má að mati Greiningardeildar Arion banka ráðast í nokkrar aðgerðir.

Til dæmis koma upp stöðugleikasjóð sem fjárfestir utan Íslands, beita aðhaldi í fjármálum hins opinbera, hefja gjaldtöku á ferðamannastöðum, hækka gistináttagjald og hafa eitt virðisaukaskattsþrep en lækkun á virðisaukaskatti á móti. Þá yrði að mati Greiningardeildarinnar hagkvæmt ef skatturinn rynni að hluta til sveitarfélaga þar sem hann myndast.

Þá mætti afnema þak á erlendar eignir lífeyrissjóða og bendir Greiningardeildin á að ef lækka eigi vaxtamun við útlönd þurfi að færa vexti niður á svipað stig og í viðskiptalöndum. Hliðaráhrifin yrðu veruleg hækkun á innlendum eignamörkuðum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK