„Veldur mér vissum vonbrigðum“

Benedikt Jóhannesson fjármálaráðherra.
Benedikt Jóhannesson fjármálaráðherra. mbl.is/RAX

„Ég held að það sé mjög mikilvægt að þessum spurningum verði svarað ítarlegar en nú þegar hefur verið gert. Ekki vegna þess að ég viti að það sé eitthvað grunsamlegt á bak við heldur tel ég að það sé mikilvægt fyrir þjóðina að fá staðfest að svo sé ekki.“

Þetta segir Benedikt Jóhannesson fjármálaráðherra um svör Fjár­mála­eft­ir­lits­ins við fyr­ir­spurn hans um kaup erlendra fjárfesta á 29,2% hlut í Ari­on banka. Segir Benedikt sérstaklega mikilvægt að fá skýr svör í ljósi nýútkominnar skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um aðkomu Hauck & Aufhäuser að kaupum á hlut í Búnaðarbankanum árið 2003.

Benedikt beindi 11 spurningum til eftirlitsins og spurði meðal annars hvort mat hefði verið lagt á hæfi nýrra hluthafa. Í svörum Fjármálaeftirlitsins kemur fram að það hafi ekki verið gert þar sem ekki er talið að nýir hluthafar fari nú þegar með virkan eign­ar­hlut í bank­an­um í skiln­ingi laga um fjár­mála­fyr­ir­tæki

Benedikt telur svörin ekki fullnægjandi. „Samkvæmt svörunum virðist athugun Fjármálaeftirlitsins á þessum málum ekki mjög langt á veg komin og kannski telja þau sig að einhverju leyti ekki þurfa að athuga þetta.“

TCA New Si­decar III s.a.r.l., Trinity In­vest­ments DAC og Sculp­tor …
TCA New Si­decar III s.a.r.l., Trinity In­vest­ments DAC og Sculp­tor In­vest­ments s.a.r.l., hafa allir upp­lýst FME um að þeir kunni að auka við hlut sinn í Arion banka. mbl.is/Ómar Óskarsson

Mikilvægt að eignarhald sé skýrt og gagnsætt

Þá segist Benedikt ekki hafa boðvald yfir Fjármálaeftirlitinu og getur hann því ekki beitt sér frekar í málinu. „Ég get bara beint til þess spurningum. Það er Fjármálaeftirlitið sem hefur þetta á sinni könnu og það hefur valdið og ábyrgðina. Ég held að það hljóti að átta sig mjög vel á því í ljósi sögunnar að það er mjög mikilvægt að upplýsa um eignarhald á bönkum og að það sé mjög skýrt og gagnsætt.“

Aðspurður hvort málið sé þá komið á endastöð hjá honum segir Benedikt að hann sé ekki kominn með svör við sínum spurningum. „Kannski koma einhver ítarlegri svör í framtíðinni en að minnsta kosti í bili dettur mér ekkert í hug til að spyrja um til viðbótar og það veldur mér vissum vonbrigðum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK