Spáir því að 12 mánaða verðbólga verði 1,8%

IFS reiknar með að verð á húsgögnum og heimilisbúnaði haldi ...
IFS reiknar með að verð á húsgögnum og heimilisbúnaði haldi áfram að lækka í apríl eða um 0,5% eftir að hafa lækkað um 2,7% í mars milli mánaða. mbl.is/Eggert Jóhannesson

IFS spáir því að tólf mánaða verðbólga verði 1,8% í júlí. Þá spáir IFS 0,4% hækkun verðlags í apríl frá fyrri mánuði en gangi spáin eftir hækkar tólf mánaða verðbólga úr 1,6% í 1,8%. Undanfarna þrjá mánuði hækkar verðlag um rúm 1,2% gangi spáin eftir sem er 4,8% verðbólga á ársgrundvelli. „Verðbólguvaldarnir í aprílmánuði er áframhaldandi hækkun á húsnæðisverði, hækkun á eldsneytisverði og flugfargjöldum til útlanda,“ segir í samantekt IFS sem spáir því að verðlag hækki um 0,2% í maí, 0,2% í júní og lækki um 0,2% í júlí.

„Búast má við að koma Costco til landsins muni hafa áhrif á verð til lækkunar á næstu mánuðum. Þá gerum við ráð fyrir að fasteignaverð haldi áfram að hækka á næstu mánuðum sem mun drífa verðbólguna áfram ásamt flugliðnum. Í maímánuði reiknum við með að flugfargjöld til útlanda lækki milli mánaða en taki svo að hækka aftur í júní og júlí,“ segiri í samantekt IFS.

Þar er jafnframt tekið fram að húsnæðisliðurinn hafi verið að hækka skarpt undanfarið og samkvæmt verðmælingum IFS er útlit fyrir að reiknuð húsaleiga hækki hraðar í aprílmánuði en í mars eða um 1,7%. Þá gerir IFS ráð fyrir að greidd húsaleiga hækki um 0,2% milli mánaða.

Flugfargjöld til útlanda lækkuðu um 5,7% í mars milli mánaða. Verðmælingar IFS benda til þess að flugfargjöld til útlanda hækki um 8% milli mánaða í apríl en flugverð hefur vanalega hækkað í páskamánuði. Verðmælingar IFS benda til þess að liðurinn bensín og olíur hækki um 1,1% í aprílmánuði. Á fyrstu þremur mánuðum ársins hafa bílaumboðin verið að lækka verð en IFS mælir 0,5% hækkun í apríl frá fyrri mánuði.

„Hins vegar hafa fréttir borist að verð á dekkjum hafi lækkað um allt að 40% hjá Sólningu en búist er við aukinni samkeppni þegar Costco mun opna verslun sína í maímánuði,“ segir í samantekt IFS.

Þá reiknar IFS reiknar með að verð á húsgögnum og heimilisbúnaði haldi áfram að lækka í apríl eða um 0,5% eftir að hafa lækkað um 2,7% í mars milli mánaða. Samkeppni á húsgagnamarkaði hefur verið að aukast og mikið hefur verið um tilboðsdaga á vörum nú í apríl. Liðurinn föt og skór hækkaði um tæp 8% í mars eftir litlar verðbreytingar í febrúarmánuði. Bent er á að í lok marsmánuði tilkynnti fataverslunin Lindex um 11% verðlækkun að meðaltali. IFS reiknar með að fataliðurinn lækki um 2% í apríl milli mánaða (-0,08%). IFS áætlar að fjarskiptaliðurinn lækki um 1% í apríl. Matarkarfan lækkar um 0,1% en verð á gistingu og veitingum hækkar um 1,5% í apríl frá fyrri mánuði, gangi spár IFS eftir.

mbl.is
Svæði

Gagnaveitur

Erlendar viðskiptafréttir