Foodco kaupir Kaffivagninn

Kaffivagninn var í eigu Guðmundar Viðarssonar og Mjallar Daníelsdóttur.
Kaffivagninn var í eigu Guðmundar Viðarssonar og Mjallar Daníelsdóttur. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Félagið Foodco hefur keypt veitingastaðinn Kaffivagninn sem stendur á Grandagarði. Gengið hefur verið frá samningum og hefur Foodco nú tekið formlega við rekstrinum. Mjöll Daníelsdóttir, sem átti Kaffivagninn ásamt manni sínum Guðmundi Viðarssyni segir í samtali við mbl.is að þau hafi fengið gott tilboð frá Foodco og því ákveðið að selja.

Kvennablaðið sagði fyrst frá kaupunum.

Kaffivagninn var stofnaður árið 1935 af Bjarna Kristjánssyni og stóð þá á Ellingsenplaninu á horni Pósthússtrætis og Tryggvagötu. Hann var fluttur út á Granda í byrjun sjötta áratugarins samkvæmt heimasíðu Kaffivagnsins og hefur staðið í núverandi mynd frá árinu 1975.

Staðurinn er þekktur fyrir fiskrétti og segist Mjöll ekki vita til þess að nýjir eigendur stefni að því að breyta áherslum staðarins. Hún segir að rekstur Kaffivagnsins hafi gengið mjög vel síðustu ár.

Mjöll og Guðmundur vilja koma á framfæri þökkum til viðskiptavina sinna fyrir frábæran tíma á Grandagarði en þau tóku við rekstrinum árið 2013. 

Í fréttatilkynningu frá Foodco vegna kaupanna kemur fram að rekstri Kaffivagnsins verði haldið áfram með óbreyttu sniði og lögð verður áhersla á „að varðveita þá sögu og þann sjarma sem fylgt hefur staðnum í gegnum árin.“

mbl.is
Svæði

Gagnaveitur

Erlendar viðskiptafréttir