Sífellt færri kaupa Barbie

Þetta er annar ársfjórðungurinn í röð þar sem sölutölur Barbie ...
Þetta er annar ársfjórðungurinn í röð þar sem sölutölur Barbie eru á niðurleið. barbie.com

Sala á Barbie féll um 13% á fyrstu þremur mánuðum ársins sem er mun meiri lækkun en eigandi Barbie, Mattel, gerði ráð fyrir. Þetta er annar ársfjórðungurinn í röð þar sem sölutölur Barbie eru á niðurleið en dúkkan hefur verið ein mikilvægasta vara Mattel í næstum því 60 ár.

BBC segir frá. 

Sölutölur Mattel lækkuðu um 15,4% á fyrsta ársfjórðungi ársins og námu 735 milljónum Bandaríkjadala eða rúmum 80 milljörðum íslenskra króna.

Mattel hefur reynt að bregðast við minnkandi sölu með því að búa til Barbie dúkkur í fjölbreyttari líkamsstærðum og húðlitum en framleiðandinn hefur lengi verið gagnrýndur fyrir að ýta undir óheilbrigða líkamsstaðla með Barbie.

Hlutabréf Mattel hafa lækkað um 25% á einu ári. Tekjur félagsins hafa minnkað töluvert m.a. vegna verðlækkana sem gera þurfti vegna óseldra vara eftir jólavertíðina.

Framkvæmdastjóri Mattel, Margo Georgiadis, sagði í febrúar að það hafi verið óvænt og haft alvarlegar afleiðingar í för með sér fyrir fyrirtækið.

mbl.is
Svæði

Gagnaveitur

Erlendar viðskiptafréttir