Störfum í ferðaþjónustu fjölgaði um 18,5%

Alls fjölgaði störfum í ferðaþjónustugreinum um tæplega 3.800 og var ...
Alls fjölgaði störfum í ferðaþjónustugreinum um tæplega 3.800 og var fjölgunin 18,5% milli ára. Árið 2011 hófst uppsveiflan í ferðaþjónustu og hefur störfum í greininni fjölgað um tæplega 12 þúsund frá árinu 2010 sem er tæplega tvöföldun starfa í greininni. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Launþegum hér á landi fjölgaði um 8.500 á síðasta ári. Meðalfjöldi launþega var rúm 180 þúsund en um 44% af fjölgun launþega á síðasta ári skýrist af fjölgun starfa í greinum sem snúa að ferðaþjónustu.

Þetta kemur fram í Hagsjá hagfræðideildar Landsbankans.

Þetta er umtalsvert meiri fjölgun starfa hlutfallslega séð en verið hefur síðustu ár. Þannig fjölgaði launþegum á bilinu 1,1-3% á árunum 2011-2015 og kom sú fjölgun í kjölfar fækkunar árin 2009 og 2010 en árið 2009 fækkaði launþegum um 8,8%. Þessi mikla fjölgun á síðasta ári helst að talsverðu leyti í hendur við hagþróunina en umtalsvert meiri hagvöxtur mældist á síðasta ári en árin á undan. Þannig nam hagvöxturinn 7,2% á síðasta ári borið saman við meðalhagvöxt upp á 2,7% á árunum 2011-2015.

Alls fjölgaði störfum í ferðaþjónustugreinum um tæplega 3.800 og var fjölgunin 18,5% milli ára. Árið 2011 hófst uppsveiflan í ferðaþjónustu og hefur störfum í greininni fjölgað um tæplega 12 þúsund frá árinu 2010 sem er tæplega tvöföldun starfa í greininni. Á sama tíma hefur heildarfjöldi starfa í atvinnulífinu vaxið um 26 þúsund og skýrir fjölgun starfa í ferðaþjónustu því 46% af heildarfjölgun starfa í atvinnulífinu í heild á tímabilinu.

mbl.is
Svæði

Gagnaveitur

Erlendar viðskiptafréttir