Sá stærsti stígur á bremsuna

Lífeyrissjóðir eru nú að endurskoða reglur sínar um veðtryggingar í ljósi mikilla hækkana á fasteignamarkaði að undanförnu. Lífeyrissjóður verslunarmanna hefur í varúðarskyni þegar gert breytingar á útlánareglum til sjóðfélaga sinna. Ekki er lengur miðað við matsverð fasteignar við útreikning veðláns, heldur er nú eingöngu miðað við markaðsverð samkvæmt kaupsamningi eða fasteignamat. Þessi breyting tók gildi í síðasta mánuði, samkvæmt upplýsingum frá sjóðnum. Auk þess hefur veðhlutfall verið fært úr 75% í 70%. Þetta hvorutveggja þýðir að sú lánsupphæð sem sjóðfélögum stendur til boða getur lækkað, enda getur munur á matsverði og fasteignamati oft verið þónokkur.

„Fyrir einu og hálfu ári síðan hækkaði hlutfall þess sem lánað var úr 65% af matsverði fasteignar í 75%, en nú er búið að lækka viðmiðið í 70% auk þess sem við erum hætt að miða við verðmat. Meginreglan er að miða við kaupsamning ef um kaup er að ræða, en annars fasteignamat,“ segir Þórhallur Jósepsson upplýsingafulltrúi lífeyrissjóðsins.

Aðspurður segir Þórhallur að þeir sem áður gátu fengið lán til dæmis til að endurfjármagna eldri lán, allt að 75% af matsverði, geti nú aðeins fengið lán sem jafngildir 70% af fasteignamati hússins. „Núna er bara hægt að fá lán miðað við matsverð með sérstakri undanþágu.

Forsendur breytinganna hjá okkur eru að við viljum stíga varlega til jarðar í þessu og sýna varkárni í útlánum, þannig að við séum ekki sjálfkrafa að elta hækkanir á markaðnum. Þá er það í takt við þau sjónarmið sem koma fram í nýlegum lögum um fasteignalán til einstaklinga sem tóku gildi 1. apríl s.l. Hér er verið að herða á einum þættinum í lánareglunum af varúðarsjónarmiði.“

31,6 milljarðar í fyrra

Í ársskýrslu Lífeyrissjóðs verslunarmanna fyrir árið 2016 kemur fram að veitt voru ný sjóðfélagalán á árinu fyrir 31,6 milljarða króna, en hlutfall þeirra var í árslok um 20% af skuldabréfasafni sjóðsins samanborið við 13% í árslok 2015.

Tveir stórir lífeyrissjóðir aðrir sem Morgunblaðið ræddi við, Gildi og Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins, LSR, hafa ekki breytt sínum reglum með sama hætti. Haukur Hafsteinsson framkvæmdastjóri LSR segir sjóðinn nú vera að endurskoða reglur sínar um veðtryggingar í ljósi mikilla hækkana sem verið hafa á fasteignamarkaði að undanförnu, eins og hann orðaði það. Hjá Gildi hefur engin ákvörðun verið tekin um breytingar af þessu tagi, að sögn Árna Guðmundssonar, framkvæmdastjóra sjóðsins.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK