Útrás til Seattle fer vel af stað

Að sögn Ragnheiðar Elínar Árnadóttur hefur árangur Íslenska sjávarklasans vakið …
Að sögn Ragnheiðar Elínar Árnadóttur hefur árangur Íslenska sjávarklasans vakið athygli erlendis. Fjöldi áhugasamra gesta mætti þegar klasinn var kynntur á sjávarútvegssýningunni í Boston fyrr á árinu og gætu sams konar klasar sprottið upp víða um Bandaríkin, s.s. í Louisiana, Alaska og Rhode Island. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ragnheiður Elín Árnadóttir reiknar með að vera mikið á flugi næstu misserin, á meðan hún vinnur að því að koma sjávarklasa á laggirnar í Seattle á vesturströnd Bandaríkjanna. „Ég sleppi því, að minnsta kosti til að byrja með, að flytja vestur um haf enda bý ég í Keflavík og er því í raun bara fimm mínútur frá Seattle, ef flugtíminn er undanskilinn,“ segir hún glettin.

Það var Þór Sigfússon, stofnandi Íslenska sjávarklasans, sem fékk Ragnheiði til að taka að sér það verkefni að stofna klasann og fylgja honum eftir fyrstu skrefin. Er stofnun klasans í Seattle á byrjunarstigi og hefur hann fengið nafnið Seattle Ocean Cluster.

Klasastarf í útrás

Ekki ætti að hafa farið framhjá neinum hvað starfsemi Íslenska sjávarklasans hefur gengið vel. Á þessum nýja vettvangi hefur fjöldi efnilegra sprotafyrirtækja vaxið og dafnað og klasinn heldur áfram að þróast og stækka í ýmsar áttir. Snemma kviknaði sú hugmynd að setja sjávarklasa á laggirnar víðar og er nú þegar búið að stofna New England Ocean Cluster í borginni Portland í Maine á austurströnd Bandaríkjanna. „Þar er byggt á sömu hugmyndafræði og hjá Íslenska sjávarklasanum úti á Granda, og hefst starfsemi þess klasa í næsta mánuði,“ segir Ragnheiður og bætir því við að þegar séu nokkur fyrirtæki búin að tryggja sér pláss hjá klasanum í Portland.

„Við getum reiknað með að undirbúningur sjávarklasans í Seattle muni taka dágóðan tíma, en sem dæmi var klasinn í Portland stofnaður fyrir tveimur árum þó núna sé verið er að opna húsið,“ segir Ragnheiður og bætir við að fleiri klasar vestanhafs gætu litið dagsins ljós. „Á sjávarútvegssýningunni í Boston í mars síðastliðnum fundum við fyrir gríðarlegum áhuga. Við efndum til fræðslu- og samráðsfundar þar sem við bjuggumst við um 20 gestum en þangað komu rúmlega 60 manns frá a.m.k. sex fylkjum í Bandaríkjunum. Er ljóst að árangur Íslenska sjávarklasans hefur vakið mikla athygli alþjóðlega og eru bæði einkaaðilar og opinber þróunarfélög áhugasöm um að nota svipað módel til að setja klasa á laggirnar á stöðum á borð við Alaska, Louisiana og Rhode Island.“

Öflug sjávarútvegsborg

Seattle er tilvalinn staður fyrir sjávarklasa. Borgin er kannski þekktust fyrir Frasier Crane og Starbucks, en Ragnheiður segir að þar sé líka mjög öflugur sjávarútvegur. „Að mörgu leyti er þetta svæði líkt Íslandi, með stórum og stöndugum sjávarútvegsfyrirtækjum í bland við smærri útgerðir. Tengslin við Alaska eru sterk og mörg fyrirtæki sem gera út þaðan koma með aflann að landi í Seattle. Er mikill drifkraftur í greininni og gróska í afleiddum geirum. Sjávarútvegurinn á Seattle-svæðinu á það líka sameiginlegt með þeim íslenska að leggja áherslu á nýsköpun.“

Að mati Ragnheiðar er núna einstaklega góður tími til að stofna sjávarklasa í Seattle. Sjávarútvegsfyrirtækin á svæðinu eru áhugasöm um að leita leiða til að fullnýta aflann og skapa ný verðmæti úr hráefninu, en um leið hefur Ísland ákveðið þekkingarforskot sem ætti að nýtast vel. „Vöxturinn í Seattle hefur verið ævintýralegur, mjög frjór jarðvegur fyrir hvers kyns nýsköpun, og til þessa hefur okkur reynst auðvelt að koma á samstarfi við fyrirtæki, stofnanir og háskóla. Hafnaryfirvöld í Seattle höfðu t.a.m. samband við okkur að fyrra bragði og eru áhugasöm um að skoða þann möguleika að sjávarklasi verði til á ákveðnu svæði við höfnina sem á að endurgera og endurskipuleggja.“

Vill svo heppilega til að þegar Ragnheiður var iðnaðar- og viðskiptaráðherra leiddi hún viðskiptasendinefnd til Seattle í ferð sem farin var á vegum Amerísk-íslenska verslunarráðsins. Er hún því ágætlega kunnug á svæðinu. „Þá heimsóttum við fyrirtæki sem við erum að leita aftur til í dag, og tókum vel púlsinn á atvinnulífnu á svæðinu.“

Ragnheiður segir ekki svo langt að fara til Seattle, þó …
Ragnheiður segir ekki svo langt að fara til Seattle, þó borgin virðist fjarlæg á landakortinu. Sjávarútvegurinn þar er mjög öflugur og tækifærin ótalmörg. Ljósmynd/Wikipedia - Rattlhed (CC)

Finna taktinn á hverjum stað

Áherslur sjávarklasans í Seattle verða svipaðar og hjá Íslenska sjávarklasanum, þó starfsemin verði vitaskuld löguð að þörfum svæðisins. „Við tökum ekki Íslenska sjávarklasann og speglum hann yfir í Portland, og ætlum ekki heldur að gera það í Seattle. Það er mikilvægt að finna taktinn í hverri borg fyrir sig, og hafa starfsemina með þeim hætti að gagnist fyrirtækjunum og sprotunum á hverjum stað,“ segir Ragnheiður.

Nokkur íslensk fyrirtæki, s.s. Marel og Hampiðjan, eru þegar með talsverða starfsemi í Seattle, og sér Ragnheiður fyrir sér að íslensk fyrirtæki muni hafa beina aðkomu að starfi nýja sjávarklasans með ýmsum hætti, en hjá klasanum myndu þau hafa bæði aðgengi að starfstöð og dýrmætu tengslaneti.

Segir Ragnheiður að nú í upphafi virðist íslensk fyrirtæki hafa jafnvel meiri áhuga á klasanum í Seattle en klasanum í Portland. „Kannski er skýringin sú að Maine er nær Íslandi og íslensku sjávarútvegsfyrirtækin eru öll meira eða minna með starfsemi á austurströndinni. Minni reynsla er af beinni starfsemi á vesturströndinni og tækifærin af öðrum toga.“

Neytendur og fjármagn

Sjávarklasinn í Seattle mun eflaust leysa úr læðingi nýja krafta í sprotasamfélaginu á svæðinu, en Ragnheiður segir nýja klasann líka geta orðið að stökkpalli fyrir íslensk fyrirtæki, bæði þau sem eru enn á sprotastigi og hin sem eru lengra komin. „Þó Seattle virðist langt í burtu á landakortinu þá er flugið ekki nema sjö tímar,“ bendir hún á.

Bandaríkjamarkaður er stór og Seattle góður staður til að ná þar fótfestu, sérstaklega með rekstur sem tengist hafinu. Stefnt er að því að koma á góðu samstarfi á milli nýja sjávarklasans og háskólanna á svæðinu, en þeir hafa sýnt verkefninu mikinn áhuga. Vonast Ragnheiður til að í gegnum þá muni opnast leiðir að styrkjum og fjárfestum. „Hjá bandarísku háskólunum er fjármögnunarumhverfið allt öðruvísi en við eigum að venjast á Íslandi og aðgengið að fjármagni af öðrum toga.“

Vill Ragnheiður benda íslenskum sprotum í sjávarútvegi sérstaklega á frumkvöðlakeppnina Fish 2.0 (www.fish20.org). „Nú þegar eru fjögur íslensk fyrirtæki búin að skrá sig en keppnin er þátttakendum að kostnaðarlausu, og gott tækifæri til að fræðast og stofna til nýrra tengsla. Verða síðan 40 fyrirtæki valin til að taka þátt í þjálfun og lokaðri keppni sem fer fram við Stanford háskóla. Þar geta þeir kynnst fjárfestum og sérfræðingum úr greininni. Skráningarfresturinn rennur út 29. apríl svo hafa þarf hraðar hendur, en skráningarferlið er einfalt og tekur aðeins örfáar mínútur.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK