Ísland í þróunaráætlun McDonald's

Ísland virðist hafa ratað inn í þróunaráætlun McDonald's samkvæmt heimasíðu …
Ísland virðist hafa ratað inn í þróunaráætlun McDonald's samkvæmt heimasíðu fyrirtækisins. AFP

Á heimasíðu McDonald's segist fyrirtækið líta jafnt til allra umsækjenda er myndu hafa áhuga á að reka útibú skyndibitakeðjunnar hér á landi „ef haldið verður áfram með þróunaráætlun fyrirtækisins á Íslandi.“

Ísland er meðal fárra landa þar sem engan McDonald's er að finna og skipar sér þannig meðal þjóða líkt og Alsír, Bólivíu, Bermúda, Ghana, Zimbabwe og Norður-Kóreu.

Á heimasíðu McDonald's er hægt að fletta upp öllum löndum heims og skoða stöðu fyrirtækisins. Einnig í þeim löndum sem nefnd eru hér að framan, að Norður-Kóreu undanskilinni, en þar greinir McDonald's frá því hvort útrás sé í kortunum. Staðlaður og sambærilegur texti er hjá öllum framangreindum löndum. Nema Íslandi.

McDonald's hvarf á braut fyrir átta árum.
McDonald's hvarf á braut fyrir átta árum. mbl.is/Sverrir Vilhelmsson

Engin ákvörðun í augnablikinu

Líkt og annars staðar er hægt að sækja um að reka útibú McDonald's á Íslandi en textinn á síðunni hefur nú verið uppfærður og samkvæmt breytingunni virðist Ísland hafa ratað inn í þróunaráætlun fyrirtækisins. „Ef við höldum áfram með þróunaráætlun okkar á Íslandi munum við líta jafnt til allra umsækjenda og hafa samband við þá sem falla helst að skilyrðum okkar.“ Sambærilegan texta er ekki að finna hjá öðrum löndum sem ekki hafa McDonald's.

Þá segir að fyrirtækið hafi á síðustu árum horft til þess að styrkja stöðu sína á núverandi mörkuðum og að það hafi reynst hluthöfum og starfsfólki vel. Að svo stöddu verði áfram unnið samkvæmt þeirri stefnu en í framtíðinni kunni fyrirtækið að horfa til þess að koma inn á nýja markaði, þar á meðal til Íslands.

Í svari við fyrirspurn mbl.is segir talsmaður McDonald's að fyrritækið horfi til ýmissa viðskiptalegra og efnahagslegra þátta þegar ákveðið sé að opna staði á nýjum mörkuðum eða í nýju landi. Í augnablikinu liggi ekki fyrir ákvörðun um að opna stað á Íslandi.

Fjórir McDonald's veitingastaðir hafa verið opnaðir á Íslandi; við Suðurlandsbraut, í Kringlunni, hjá Smáratorgi og í Hressingarskálanum við Austurstræti. Rekstraraðili skyndibitakeðjunnar lagði árar í bát árið 2009 vegna rekstrarerfiðleika sökum falls krónunnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK