Innflutt vinnuafl heldur verðbólgu niðri

Atvinnuleysi hefur minnkað verulega og var einungis 1,7% í mars, …
Atvinnuleysi hefur minnkað verulega og var einungis 1,7% í mars, samkvæmt mælingum Hagstofunnar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Mikil spurn er eftir vinnuafli og hefur atvinnuleysi ekki mælst minna frá árslokum 2008. Vinnumarkaðurinn er á fleygiferð en áhrifin eru ekki þau sömu og áður. Eftirspurnin hefur ekki skilað sér í auknum verðbólguþrýstingi nema að litlu leyti og skýrist það helst af miklum innflutningi erlends vinnuafls sem hefur aukið framleiðslugetu þjóðarbúsins. Styrking krónunnar leikur þá einnig hlutverk.

Um þetta er fjallað í Hagsjá Landsbankans. Fyrr á árum leiddi svona mikil eftirspurn eftir vinnuafli jafnan til mikils launaskriðs og verðhækkana en svo virðist sem mikill innflutningur vinnuafls haldi aftur af þeirri þróun.

Samkvæmt tölum Hagstofu Íslands voru 199.300 manns starfandi á íslenskum vinnumarkaði í mars. Starfandi hafði fjölgað um 8.000 frá mánuðinum áður og um 15.500 frá því í mars 2016, eða um 8,4%. Á milli fyrsta ársfjórðungs 2016 og 2017 fjölgaði þjóðinni um 5.800 manns, eða um 1,7%. Það er því ljóst að fjölgun fólks á vinnumarkaði er mun meiri en fjölgun íbúa.

Erlendum ríkisborgurum fjölgar hratt

Atvinnuþátttaka er mjög há í sögulegu samhengi og var 84,9% af heildarmannfjölda á vinnualdri nú í mars. Hlutfall starfandi var 83,4% í mars. Að sama skapi hefur atvinnuleysi minnkað verulega og var einungis 1,7% í mars, samkvæmt mælingum Hagstofunnar. Meðalatvinnuleysi síðustu 12 mánaða var 2,9% og hefur sú tala ekki mælst lægri frá því í árslok 2008. Skráð atvinnuleysi samkvæmt tölum Vinnumálastofnunar var 2,4% í mars og 2,3% að meðaltali síðustu 12 mánuði.

Landsmönnum fjölgaði um 5.800 milli fyrsta ársfjórðungs 2016 og 2017. Stór hluti af fjölguninni skýrist af miklum flutningi fólks til landsins. Þannig fjölgaði erlendum ríkisborgurum með búsetu hér á landi um 3.800 manns frá fyrsta ársfjórðungi 2016 til sama tíma 2017. Erlendir ríkisborgarar voru um 9,3% íbúa hér á landi á fyrsta ársfjórðungi 2017, en voru 8,3% á sama tíma í fyrra.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK