Vegagerðin fékk 63% umferðargjalda

Vegagerðin sér meðal annars um viðhald og framkvæmdir á vegakerfinu.
Vegagerðin sér meðal annars um viðhald og framkvæmdir á vegakerfinu.

Á síðustu fjórum árum hefur Vegagerðin fengið til sín allt frá 59 til 64 prósent af helstu gjöldum tengdum umferðinni. Í fyrra námu tekjur ríkissjóðs af vörugjöldum af ökutækjum og bensíni, ásamt kolefnis-, olíu-, bifreiða- og kílómetragjaldi samtals 39,7 milljörðum króna.

Þar af runnu 25 milljarðar til Vegagerðarinnar sem meðal annars sér um viðhald og framkvæmdir á vegakerfinu.

Inni í því eru 17,7 milljarðar sem sérstaklega voru markaðir Vegagerðinni en 7,3 milljarðar komu úr ríkissjóði. Hlutfall tekna Vegagerðarinnar miðað við tekjurnar sem ríkissjóður hafði af umferðinni í fyrra var 63%.

Þetta kemur fram í svari Benedikts Jóhannessonar, fjármálaráðherra, við fyrirspurn Elsu Láru Arnardóttur, þingmanns Framsóknarflokksins.

Útgjöld Vegagerðarinnar hafa á síðustu fjórum árum annars vegar verið fjármögnuð með mörkuðum tekjustofnum, þ.e. sérstöku vörugjaldi af bensíni, olíugjaldi, kílómetragjaldi og vitagjaldi, og hins vegar með beinum framlögum úr ríkissjóði.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Gagnaveitur

Erlendar viðskiptafréttir