Ungt fólk hefur setið eftir í kaupmáttaraukningunni

„Kaupmáttaraukning og lífskjarabati síðustu ára og áratuga hefur náð til flestra landsmanna, en sérstaka athygli vekur að ungt fólk hefur setið eftir,“ segir Konráð Guðjónsson, sérfræðingur hjá Greiningardeild Arion banka, í samtali við Morgunblaðið. Bankinn sendi í vikunni frá sér greiningu á málinu í Markaðspunktum undir yfirskriftinni „Hvert fór kaupmátturinn?“

„Ef maður skyggnist aðeins dýpra þá sér maður hvað húsnæðiskostnaðurinn vegur sífellt þyngra hjá fólki, því hann hefur hækkað miklu meira en aðrir liðir í vísitölu neysluverðs. Hann vegur þar af leiðandi meira en hann gerði í byrjun þessarar aldar. Þannig að hjá fólki þar sem húsnæðiskostnaður vegur hvað þyngst hefur kaupmátturinn aukist minna.“

Neyslukarfa námsmanns aukist 11% meira

Í Markaðspunktunum er tekið dæmi til frekari útskýringar um annars vegar námsmann í leiguhúsnæði og hins vegar miðaldra hjón í skuldlitlu húsnæði. „Námsmaðurinn eyðir líklega stórum hluta ráðstöfunartekna sinna í leigu og við miðum hér við 30%, á meðan hjónin borga enga leigu en verja 5% af tekjum sínum í afborgarnir af húsnæðisláni. Þá ver námsmaðurinn hlutfallslega meiri peningum í mat, en hjónin meiru í ferðalög, fatnað, veitingar o.fl. [...] Miðað við ofangreindar forsendur hefði neyslukarfa námsmannsins hækkað um næstum 11% meira en neyslukarfa hjónanna frá aldamótum,“ segir í greiningu Arion banka. Konráð segir að þetta sýni að sigurvegararnir í efnahagsþróun síðustu ára séu meðal annarra hjón á aldrinum 55-59 ára.

Konráð bætir við að í rauninni verði það aldrei þannig að kaupmáttur allra aukist jafnt, en kaupmáttaraukningin hefur að vissu marki dreifst þvert yfir þjóðfélagshópa. Hann segir að vegna hinnar miklu hækkunar húsnæðisliðarins, þá hafi vægi annarra liða í vísitölunni minnkað. „Það sem hefur haldist eða aukist auk húsnæðisliðarins eru póstur og sími. Fólk kaupir kannski dýrari síma og greiðir meira fyrir fjarskiptaþjónustu. Vægi áfengis og tóbaks hefur sömuleiðis haldið sér, sem helgast af verðhækkunum á þeim vörum.“

Í dag þarf meiri menntun

En er þetta vandamál? „Já, þetta er vandamál af þeirri einföldu ástæðu að þetta eru neytendur og fjárfestar framtíðarinnar, og ef þeim gengur illa að fóta sig, þá gæti verið að þeim gangi verr þegar fram í sækir, eða þau freisti gæfunnar annars staðar,“ segir Konráð. „Þetta virðist vera partur af alþjóðlegri þróun og breyttri samfélagsgerð. Þú þarft í dag meiri menntun og meiri starfsreynslu til að komast í hærra borguð störf.“

Svæði

Gagnaveitur

Erlendar viðskiptafréttir