Fara aldrei út fyrir Leifsstöð en taldir sem ferðamenn

Talning ferðamanna á Keflavíkurflugvelli fram við vopnaleitina á Keflavíkurflugvelli og ...
Talning ferðamanna á Keflavíkurflugvelli fram við vopnaleitina á Keflavíkurflugvelli og þar með eru allir sem í gegnum hana fara með erlend vegabréf taldir sem túristar. Líka útlendingar sem eru búsettir á Íslandi í lengri eða skemmri tíma en til að mynda hefur erlendu starfsfólki fjölgað hér á landi undanfarið. mbl.is/Styrmir Kári

Fyrstu þrjá mánuði ársins fjölgaði ferðamönnum hér á landi um 53,7% en fjölgunin á fyrsta ársfjórðungi hefur numið á bilinu 31-39 prósentum síðustu ár. En þrátt fyrir ríflega helmingi fleiri ferðamenn þá fjölgaði gistinóttum útlendinga á íslenskum hótelum aðeins um 26% á sama tíma. Hlutfallsleg fjölgun gistinótta og ferðamanna var hins vegar mjög álíka á fyrsta ársfjórðungi í fyrra og hittifyrra. 

Þetta kemur fram á vef Túrista. Þar segir að styttri dvalartími ferðafólks hér á landi sé líklega ein helsta skýringin á þessari þróun en eins og greint hefur verið frá hefur Íslandsferð styst síðustu misseri.

Þá er bent á að aukin ásókn í annars konar gistingu en hótel kunni líka að skýra breytinguna en tölur Hagstofu um gistinætur í ár byggjast aðeins á upplýsingum frá hótelum en ekki gistiheimilum, farfuglaheimilum og skiljanlega ekki upplýsingum frá Airbnb og fyrirtækjum sem miðla heimagistingu.  

Samkvæmt frétt Túrista fer talning ferðamanna á Keflavíkurflugvelli fram við vopnaleitina á Keflavíkurflugvelli og þar með eru allir sem í gegnum hana fara með erlend vegabréf taldir sem túristar. Líka útlendingar sem eru búsettir á Íslandi í lengri eða skemmri tíma en til að mynda hefur erlendu starfsfólki fjölgað hér á landi undanfarið.

„Það skekkir líklega einnig talningu Ferðamálastofu að farþegi sem kemur til landsins með einu flugfélagi og heldur beint áfram með öðru félagi er líka talinn sem ferðamaður ef hann þarf að sækja farangurinn sinn og innrita sig í flug á ný í Leifsstöð. Og miðað við hvað framboð á flugi héðan hefur aukist hratt þá má telja líklegt að sífellt fleiri útlendingar fái val um tengiflug í gegnum Ísland upp í flugleitarvélum,“ segir í fréttinni og bent á að héðan er til að mynda flogið til fleiri áfangastaða í N-Ameríku en þekkist á stærstu flughöfnum Norðurlanda.

„Þannig getur Finni á leið frá Helsinki til San Francisco tengt saman flug Icelandair og WOW air og Berlínarbúi sem ætlar til Orlando getur líka tengt saman flug íslensku félaganna. Sömu sögu er að segja um þann sem ætlar milli Denver og Dublin og svo mætti lengi áfram telja. Í öllum tilvikum getur þessi hópur farþega hins vegar ekki innritað farangurinn sinn alla leið og þarf því að sækja hann við komuna til Keflavíkurflugvallar og innrita sig á ný. Þetta á líka við um langflesta þá farþega sem koma hingað með erlendu flugfélagi og halda svo áfram beint með íslensku félagi til N-Ameríku. Þessir farþegar eru allir taldir sem erlendir ferðamenn á Íslandi jafnvel þó þeir hafi aldrei farið út úr Leifsstöð.“

Þá eru vísbendingar um að sífellt fleiri útlendingar séu taldir sem ferðamenn þó þeir stoppi ekki hér yfir nótt. „Sem dæmi má nefna að fjöldi kanadískra ferðamanna þrefaldaðist á fyrsta ársfjórðungi samkvæmt talningu Ferðamálastofu en hins vegar fækkaði kanadískum gistinóttum á íslenskum hótelum um 12% á sama tíma. Frönskum ferðamönnum fjölgaði um 61% en hins vegar var fjölgun í gistinóttum Frakka aðeins 14%. Þýskum hótelnóttum fjölgaði jafn mikið og frönskum en það fóru hins vegar 71,5% fleiri Þjóðverjar í gegnum talningu Ferðamálastofu. Sem fyrr segir kann skýringin á þessum mikla mun að liggja í styttri dvöl eða að þessar þjóðir leiti í stórauknum mæli í aðra gistingu en hótel bjóða.“

Frétt Túrista í heild má sjá hér.

mbl.is
Svæði

Gagnaveitur

Erlendar viðskiptafréttir