Besta rekstrarniðurstaða í sögu Norðurþings

Frá Húsavík.
Frá Húsavík. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Sveitarfélagið Norðurþing skilaði 309 milljóna króna hagnaði á síðasta rekstrarári og er það besta rekstrarniðurstaða í sögu sveitarfélagsins. Það er nú komið undir 150% skuldaviðmið eftirlitsnefndar sveitarfélaganna en heildarskuldir nema nú 136% af tekjum sveitarfélagsins.

„Þetta er besta rekstrarniðurstaða í sögu sveitarfélagsins sem er mikið gleðiefni. Það hefur orðið mikill viðsnúningur á síðustu árum og það er bjart framundan,“ er haft eftir Kristjáni Þór Magnússyni, sveitarstjóra Norðurþings í fréttatilkynningu. „Hér hefur verið gríðarlegur vöxtur. Uppbygging á Bakka er nú að skila sér í fjölgun íbúa og íbúafjöldi nálgast óðum þrjú þúsund. Áætlað er að það þurfi reisa 80-100 íbúðir á svæðinu á næstu misserum.“

Rekstrarniðurstaða A-hluta sjóðs Norðurþings var jákvæð um tæpar 100 milljónir króna. Tekjur A-hluta námu rúmum 2,9 milljörðum króna, sem er 403 milljóna króna hækkun frá fyrra ári, og skýrist að mestu af hækkun skatttekna um tæp 18%. Rekstrarniðurstaða A-hluta án fjármunatekna og fjármagnsgjalda var því jákvæð um tæpar 133 milljónir króna. Í fyrra nam tapið 116 milljónum króna.

Heildartekjur A- og B-hluta Norðurþings námu tæpum fjórum milljörðum að teknu tilliti til útjöfnunar viðskipta og viðskiptastöðu milli sveitarsjóðs og B-hluta fyrirtækja. Rekstrarkostnaður nam tæpum 3,7 milljörðum og er rekstrarniðurstaða því jákvæð um tæpar 309 milljónir króna, sem er viðsnúningur upp á um ríflega 370 milljónir króna frá uppgjöri 2015.

Fjármagnstekjur umfram gjöld námu tæpum sex milljörðum og er rekstrarniðurstaða A+B-hluta fyrir skatta jákvæð um tæpar 315 milljónir. Fjármagnsgjöld lækka umtalsvert á milli ára, eða um 100 milljónir króna

mbl.is
Svæði

Gagnaveitur

Erlendar viðskiptafréttir