Smárabíó verði „eitt af bestu bíóum í heimi“

Þegar sýningum lýkur á sunnudagskvöld í Sal 1 í Smárabíó ...
Þegar sýningum lýkur á sunnudagskvöld í Sal 1 í Smárabíó hefjast iðnaðarmenn handa við að rífa allt út úr salnum áður en hann verður opnaður sem S-MAX fyrri hluta júnímánaðar. Aðsend mynd

Smárabíó verður eitt af bestu bíóum í heimi, að sögn eigenda, í næsta mánuði og það eina sinnar tegundar á landinu, þegar stærsti salurinn verður opnaður eftir gagngerar endurbætur. Salurinn, sem fær heitið S-MAX, verður þá útbúinn Flagship Laser 4K sýningartækni auk Dolby Atmos, nýjustu útgáfu hljóðkerfisins. Auk þess verður sýningarbúnaður í hinum sölunum uppfærður í Laser. „Smárabíó verður þannig útbúið nýjustu, fullkomnustu og bestu tækni fyrir sjón og heyrn sem í boði er í heiminum og eina kvikmyndahúsið hérlendis sem notar Laser í öllum sölum,“ segir í fréttatilkynningu.

Þar segir að með þessu muni Smárabíó bætast í einstakan hóp kvikmyndahúsa í heiminum því aðeins 68 bíó í veröldinni bjóða upp á þessa tækni. Þá bjóða aðeins innan við 5% evrópskra kvikmyndahúsa upp á Flagship Laser og því óhætt að segja að Smárabíó sé í algerum sérflokki hérlendis sem á alþjóðavísu hvað varðar gæði í sýningu kvikmynda.

„Með því að ganga skrefinu lengra og bjóða upp á Laser-sýningartækni í öllum sölum tryggjum við að allir gestir Smárabíós, sama í hvaða sal þeir sitja, fái bestu gæði á Íslandi. Við völdum nýja salnum heitið S-MAX sem stendur einfaldlega fyrir fullkomnustu tækni sem völ er á og þar munum við í framtíðinni aðeins bjóða upp á það besta þegar kemur að tækni og upplifun. Þar verður sætarýmið líka aukið þannig að hver gestur fái meira pláss en áður og njóti þess þannig enn betur að horfa á frábærar myndir í fullkomnasta bíói í heimi,“ er haft eftir Jóni Diðriki Jónssyni, framkvæmdastjóra Senu, eiganda Smárabíós.

Fram undan er því síðasta sýningarhelgi í Sal 1 í Smárabíói. Þegar sýningum lýkur á sunnudagskvöld hefjast iðnaðarmenn handa við að rífa allt út úr salnum áður en hann verður opnaður sem S-MAX fyrri hluta júnímánaðar.

Í tilkynningunni er jafnframt bent á að kannanir meðal kvikmyndahúsagesta sýna að 90% þeirra sem upplifðu Flagship Laser 4K tækni sögðu hana bera af annarri sýningartækni og yfirgnæfandi meirihluti upplifði einstakan mun á gæðum. Sá gæðamunur jókst enn frekar þegar kom að 3-D kvikmyndum. Þá sögðu 95% gesta að gæðin hefðu verið framúrskarandi og meirihluti sagðist myndu fara oftar í bíó eftir þessa upplifun.

mbl.is
Svæði

Gagnaveitur

Erlendar viðskiptafréttir