Enginn vafi um að konur fái að keyra

Konur mega ekki aka bílum í Sádi-Arabíu en það gæti ...
Konur mega ekki aka bílum í Sádi-Arabíu en það gæti breyst í náinni framtíð. AFP

Sádi-arabíski prinsinn Faisal Bin Abdullah segir engan vafa um það að einn daginn muni konur í landinu keyra. Prinsinn, sem er fyrrverandi menntamálaráðherra Sádi-Arabíu, sagði í sjónvarpsviðtali í vikunni að hann efaðist ekki um það að konur muni keyra í landinu, jafnvel fyrr en seinna.

CNN segir frá.

Um stöðu kvenna í landinu sagði hann konungsfjölskylduna líta svo á að það að keyra bíl myndi klárlega gerast en prinsinn vill að konur fari lengra. „Ég vil að konur reki samfélagið,“ sagði hann. 

Viðtalið við Faisal er nýjasta merkið um að Sádi-Arabía sé að undirbúa að aflétta banni sem hindrar konur í að keyra sem byggt er á trúartilskipun.

Annar sádi-arabískur prins, Alwaleed bin Talal, bloggaði um það í desember að konur ættu að fá að keyra og að bannið væri að brjóta á réttindum kvenna og á sama tíma væri það að skaða efnahag landsins því bannið hindrar konur í að komast á vinnumarkaðinn.

Orð Faisal í viðtalinu hafa vakið ákveða athygli í Sádi-Arabíu. Fjölmargir hafa tjáð sig um þau á Twitter og voru sumir efins um að eitthvað væri að marka þau.

Krónprins Sádi Arabíu, Mohammed bin Salman, hefur talað aðeins öðruvísi um möguleikann á akstri kvenna en hinir prinsarnir.  „Samfélagið er ekki enn sannfært um akstur kvenna og trúir því að það hafi í för með sér neikvæðar afleiðingar,“ sagði hann í viðtali í apríl á síðasta ári. „Þetta fer eftir samfélagi Sádi-Araba. Við getum ekki neytt eitthvað í gegn sem þau vilja ekki.“

Það er þó mat sumra í landinu að það sé aðeins spurning um hvenær banninu verður aflétt. Ein þeirra er Hoda Al-Selaissi, kvenkyns meðlimur Shura ráðsins sem veitir konungi Sádi Arabíu ráð varðandi löggjafir.

„Þetta er á leiðinni, annað hvort fyrir áramót eða snemma á næsta ári,“ sagði hún í samtali við CNN. Sagði hún að ekki allir myndu vera ánægðir með breytingarnar en sagði málið um að konur í landinu hefðu val.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Svæði

Gagnaveitur

Erlendar viðskiptafréttir