Spá því að verðbólgan fari yfir markmið í lok árs

Hagfræðideild Landsbankans spáir 6,7% hagvexti á þessu ári sem kemur ...
Hagfræðideild Landsbankans spáir 6,7% hagvexti á þessu ári sem kemur þá í kjölfar 7,2% hagvaxtar á síðasta ári. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Hagfræðideild Landsbankans gerir ráð fyrir því að verðbólgan fari lítillega yfir verðbólgumarkmið á fjórða ársfjórðungi þessa árs og fyrsta ársfjórðungi þess næsta en verði að öðru leyti undir verðbólgumarkmiði á spátímabilinu.

Þetta kemur fram í Þjóðhags- og verðbólguspá deildarinnar. Þar segir að ein af lykilforsendum hagstæðrar verðbólguspár er forsendan um frekari styrkingu krónunnar á næstu árum en sú forsenda styðst við væntingar um áframhald á verulegum afgangi á vöru- og þjónustuviðskiptum.

Hagfræðideild spáir 6,7% hagvexti á þessu ári sem kemur þá í kjölfar 7,2% hagvaxtar á síðasta ári. Á næstu tveimur árum er hins vegar gert ráð fyrir að nokkuð dragi úr vextinum en að hann verði góður í samanburði við helstu viðskiptalönd. Þrátt fyrir töluverða spennu í hagkerfinu og mikinn vöxt eru horfur um verðbólguþróun næstu árin góðar að mati deildarinnar. 

Útflutningur verði veigamestur

Í spánni er gert ráð fyrir að megindrifkraftar hagvaxtar á næstu árum verði útflutningur, einkaneysla og fjármunamyndun en að hið fyrstnefnda verði þó veigamest a.m.k. á þessu ári. Gert er ráð fyrir að vöxtur útflutnings verði 10% á þessu ári, borinn af vexti ferðaþjónustu. Áhrif vaxtar í ferðaþjónustu á þessu ári á hagvöxt verða því töluvert mikil. Vöxtur einkaneyslu verður 6,7% á þessu ári og jákvæður bæði árin 2018 og 2019 en vöxturinn á spátímabilinu er studdur af forsendunni um áframhaldandi vöxt kaupmáttar.

Þó er það mat deildarinnar að ýmsir óvissuþættir gætu haft veruleg áhrif á spánna. Bent er á að töluverð óvissa sé um þróun efnahagsmála á næstu árum sem gæti leitt til töluverðra frávika frá spá deildarinnar. Þá er óvissa um fjölgun ferðamanna á næstu árum mikil vegna styrkingar krónu á síðustu árum. „Landið er nú dýrt í samanburði við flest önnur lönd og því spurning hvar sársaukamörk ferðamanna liggja,“ segir í spánni. Gert er ráð fyrir áframhaldandi fjölgun ferðamanna á næstu árum en fjölgunin verði hlutfallslega mun minni en síðustu ár.

„Ef spáin gengur ekki eftir og ferðamönnum fækkar í stað þess að fjölga á næstu misserum myndi það að öðru óbreyttu draga umtalsvert úr hagvexti í gegnum minni útflutning, minni einkaneyslu og minni fjárfestingu. Auk þess myndi það hafa í för með sér veikari krónu en ella og hærri verðbólgu,“ segir í spánni.

Gengisþróun meðal óvissuþátta

Aðrir veigamiklir óvissuþættir hvað verðbólguþróun næstu ára áhrærir eru gengisþróun krónunnar en einungis nokkrir mánuðir eru síðan fjármagnshöftum á innlenda aðila var að fullu aflétt. Þessu til viðbótar er töluverð óvissa varðandi verðþróun á húsnæði en það hefur verið og mun áfram verða ráðandi þáttur í verðbólguþróuninni á næstu misserum. Að auki mun launaþróun geta sett strik í reikninginn en fjöldi kjarasamninga er þegar laus eða mun losna á þessu ári.

„Að lokum er óvissa varðandi umfang verðlagsáhrifa aukinnar samkeppni með tilkomu erlendra smásöluverslana. Nú þegar má greina áhrif af opnun Costco á verðlag ýmissa vara hjá samkeppnisaðilum og ekki ólíklegt að verð á ýmsum vörum muni lækka frekar á næstu mánuðum,“ segir í spánni.

mbl.is
Svæði

Gagnaveitur

Erlendar viðskiptafréttir