„Eiga ekki að geta skýlt sér á bak við Costco“

Ólafur Magnússon stofnaði bæði félögin Mjólku og KÚ.
Ólafur Magnússon stofnaði bæði félögin Mjólku og KÚ. Eyþór Árnason

Ólafur Magnússon hefur á 12 árum byggt upp tvö fyrirtæki í mjólkuriðnaði. Árið 2005 stofnaði hann ásamt fjölskyldu sinni Mjólku, en það var síðar selt Kaupfélagi Skagfirðinga. Árið 2010 stofnaði hann svo félagið KÚ, en tilkynnt var um kaup Ölgerðarinnar á því félagi í gær. Í samtali við mbl.is segir Ólafur að þessi tími hafi tekið heilmikið á, bæði hjá sér og ekki síst fjölskyldu sinni. Hann segir mjólkuriðnaðinn nú á krossgötum þar sem stjórnvöld standi með meiri samkeppni sem geri minni fyrirtækjum færi á að blómstra.

Á komandi hausti áformar Ólafur að setjast á skólabekk og hefja nám í guðfræði, en fjölskylda hans tók loforð af honum að fara ekki í uppbyggingu á nýju mjólkurfyrirtæki. Við það ætlar hann að standa, en segist þó ekki ætla að liggja á skoðunum sínum um mjólkurmarkaðinn og samkeppni yfir höfuð. Gagnrýnir hann meðal annars þá samþjöppun sem hann segir að sé að eiga sér stað í dag í skjóli samkeppni frá Costco.

Aukin samkeppni ekki aðför að bændum

Þegar blaðamaður biður Ólaf um að líta yfir farinn veg og þær breytingar sem hafi verið síðan hann kom inn á markaðinn fyrir rúmlega áratug segir hann að fyrst hafi róðurinn verið mjög þungur. „Ég þótti algjörlega galinn að fara í þessa vegferð, sem ég sjálfsagt er,“ segir hann og hlær. Síðan þá hafi þó létt til og markaðurinn sé byrjaður að breytast í dag. Ólafur segir að skilningurinn á mjólkuriðnaðinum, bændum og samfélaginu í heild sé að breytast á þann veg að fólk horfi á samkeppni jákvæðum augum – að slíkt sé ekki aðför að bændum heldur muni auka framboð á vörum.

„En þetta hefur tekið heilmikið á. Ég kem úr bændasamfélagi, fæddur og uppalinn bóndasonur,“ segir Ólafur og rifjar upp að hann hafi starfað hjá Osta- og smjörsölunni, sem var dótturfélag MS, í um 12 ár áður en hann stofnaði eigið fyrirtæki. Þá hafi faðir hans verið formaður samlagsins á sínu svæði og því hafi margir upphaflega litið á þetta ævintýri hans sem ákveðin föðurlandssvik.

Sárast hve hart var gengið gegn fjölskyldunni

„Það sem hefur verið erfiðast er hvað þetta hefur oft verið persónugert og hart vegið að minni persónu,“ segir Ólafur. Þá segir hann sárast að sjá hve hart hafi verið gengið gegn fjölskyldu hans, bæði öldruðum föður hans og börnum. „Það er enn verið að reka hornin í karl föður minn,“ segir Ólafur vegna þeirra verkefna sem hann standi sjálfur fyrir. Hann segir reyndar um fámennan en hávaðasaman hóp að ræða, en að slíkt taki þó á.

Ólafur segir að hann hafi kynnst minni mjólkurframleiðslufyrirtækjum á ferðum sínum erlendis fyrir Osta- og smjörsöluna. Þar hafi minni fyrirtækin sinnt sérhæfðari vörum samhliða framleiðslu stóru mjólkursamlaganna. Slíkt hafi aukið vöruframboð og neyslu og sé bændum og neytendum í hag þegar uppi sé staðið.

Ölgerðin keypti nýlega KÚ og mun Ólafur vera þeim innan …
Ölgerðin keypti nýlega KÚ og mun Ólafur vera þeim innan handar næstu misserin. Hann stefnir þó á nýjar slóðir í haust og ætlar að setjast á skólabekk.

Aukin fjölbreytni á markaði hafi aukið neyslu og bætt sölu

Hann segir að undanfarið hafi nokkrir innlendir aðilar séð möguleika á þessum markaði og nefnir þar t.a.m. Örnu sem framleiðir laktósafría mjólk og Bíó-bú sem er með lífræna framleiðslu. Þá hafi nokkrar bændastöðvar líka sprottið upp þar sem innlendum og erlendum gestum sé boðið upp á að heimsækja bóndann, skoða dýrin og prófað afurðirnar. „Þetta hefur allt aukið sölu og neyslu,“ segir hann og bætir við að hann voni að menn hér á landi sjái að aukin fjölbreytni og samkeppni sé til góðs fyrir bændur. Segist hann vona að með kaupum Ölgerðarinnar á KÚ muni þessi fjölbreytni aukast enn frekar og að stærri kaupendur mjólkurvöru muni sjá KÚ sem raunhæfan valkost til að kaupa vörur af fyrir alla sína framleiðslu. 

„Ég er sannfærður um að umhverfið er að breytast. Núna eru stjórnvöld í fyrsta skipti okkur hliðholl og vilja aukna samkeppni og aukið samræmi þannig að allir geta keypt [hrámjólk] á sama verði.“ Segir Ólafur mikilvægt að samvinnufélög bænda gangi vel, en að það sem minni mjólkurframleiðendurnir vilji að sé passað upp á sé að keppt sé á samkeppnisgrundvelli.

Segir afstöðu MS ekki til fyrirmyndar og hafi stórskaðað greinina

Segir hann forystu MS í gegnum árin hafa hnýtt óvægið í sig og ekki sýnt sinni markaðsráðandi stöðu auðmýkt. Áður hafi menn í forystu í mjólkuriðnaðinum haft slíka auðmýkt að leiðarljósi og nefnir hann sérstaklega Óskar Gunnarsson sem var forstjóri Osta- og smjörsölunnar. Segir Ólafur að hann hafi meðal annars aðstoðað Ostahúsið í Hafnarfirði á sínum tíma við dreifingu og jafnvel keypt handa þeim pökkunarvél. „Forsvarsmenn MS mættu taka hann sér til fyrirmyndar,“ segir Ólafur og bætir við að afstaða MS undanfarið hafi stórskaðað ímynd mjólkuriðnaðarins. „Það er ekki gott þar sem mjólkuriðnaðurinn er lífæð bænda og það þarf að eiga góð samskipti við neytendur.“

Ólafur segir að kaup Ölgerðarinnar á KÚ eigi sér um hálfs árs aðdraganda. „Ég tel mig hafa náð markmiðum mínum, tel mig hafa breytt algjörum fákeppnismarkaði í samkeppnismarkað,“ segir hann, en bætir við að staðan gæti þó verið talsvert betri. „Þetta stefnir samt allt í góða átt og nú falla öll vötn til Dýrafjarðar,“ segir hann um breyttar framtíðahorfur í greininni.

Stefnir á guðfræði í haust og útgáfu bókar

Eftir 12 í uppbyggingarstarfsemi segist Ólafur ætla að venda sínu kvæði í kross og stefnir hann á nám í guðfræði í haust. Segist hann alltaf hafa verið trúaður maður, en líklega hafi hann fengið það í blóðinu frá ömmu sinni, Jórunni Ólafsdóttur. Var hún systir Ólafs Ólafssonar kristinboða. Segir hann trúna hafa hjálpað sér meðal annars í rekstrinum. „Ég hef haft þá trú að þegar þú ert með ljósið með þér sé ekkert að óttast,“ segir hann og að það hafi verið trú sín með reksturinn á Mjólku og KÚ í gegnum tíðina. Ólafur segir að í framhaldi af náminu langi hann að fara að vinna að líknarmálum og málefnum þar sem hann geti hjálpað öðrum.

Það er þó ekki bara skólabekkurinn sem bíður Ólafs. Hann segist stefna á að koma lífsreynslu sinni úr mjólkuriðnaðinum á prent nú í haust og samhliða ætlar hann að gefa út geisladisk, en söngur hefur lengi verið stórt áhugamál hjá honum. „Ætli diskurinn og bókin verði ekki að heita „Út úr kú“,“ segir Ólafur.

Ólafur er bjartsýnn á framtíð mjólkuriðnaðarins hér á landi á …
Ólafur er bjartsýnn á framtíð mjólkuriðnaðarins hér á landi á komandi misserum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Fjölskyldan tók loforð af Ólafi

Framtíðin á mjólkurmarkaði er að sögn Ólafs nokkuð björt. Hann segir að í haust hljóti ráðherra að fella MS undir samkeppnislög og með því muni minni aðilar á markaði sitja við sama borð varðandi aðgengi að hrámjólk og MS. „Þá verður allt annað að vinna á þessum markaði, þetta er grunnforsendan,“ segir hann. Hann telur hins vegar ekki miklar líkur á að hann fari í annað uppbyggingarævintýri. Fjölskylda hans hafi tekið af honum loforð um að byggja ekki upp nýtt mjólkurfyrirtæki og ætlar hann að standa við það.

„Menn eiga ekki að geta skýlt sér á bak við Costco

Þrátt fyrir þetta segist hann ekki ætla að liggja á skoðun sinni þegar kemur að mjólkurmarkaðinum og samkeppnismálum sem hafa verið honum hugleikin undanfarin ár. Hann á þó ekki von á að hann muni beita sér formlega fyrir þessum hugðarefnum sínum. Ólafur segir að í dag hafi hann sérstakar áhyggjur af samþjöppun á smásölumarkaði, „þessu sem menn kalla að mæta Costco. Ég vona að Samkeppniseftirlitið stígi í fæturna í þessum málum“, segir Ólafur.

Segir hann það meinsemd í íslensku samfélagi hversu veik samkeppnislöggjöf sé þegar komi að viðskiptablokkum, en slíkar blokkir séu að myndast í dag. Segir hann að stórar blokkir séu samkeppnishindrun fyrir litla aðila á markaði og með uppkaupum á smásölufyrirtækjum þurfi að hafa þetta í huga. „Menn eiga ekki að geta skýlt sér á bak við Costco til að geta gert hvað sem er,“ segir Ólafur.

Góð reynsla af viðskiptalífinu og bankakerfinu

Þrátt fyrir efasemdir um smásölumarkaðinn segir Ólafur að viðskiptalífið í heild sé í ágætis málum og hans upplifun meðal annars af viðskiptafélögum og bankakerfinu hafi ekki verið önnur en góð. „Það er mikið af drengskaparmönnum þar, þó að annað sé oft dregið upp. Mín reynsla af bönkunum er að þar vinni menn af heilindum.“

Ólafur mun áfram vinna með KÚ, en Ölgerðin óskaði eftir að hann myndi áfram starfa með fyrirtækinu meðan kaupin ganga í gegn. Hann muni þó ekki stjórna framleiðslunni eins og áður. Segist hann ekki vita til annars en að Ölgerðin muni áfram halda framleiðslunni á núverandi stað, en þar hafi verið byggð upp góð framleiðsluaðstaða.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK