Brauð&Co færir út kvíarnar

Úr bakaríi Brauð&Co á Frakkastíg.
Úr bakaríi Brauð&Co á Frakkastíg. mbl.is/Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Brauð&Co ætlar að færa út kvíarnar en á næstu dögum opnar bakaríið í húsnæði Gló í Fákafeni. Síðan verður bakaríið með útibú í Mathöllinni við Hlemm sem á að opna í sumar og í dag var skrifað undir samning um fjórða útibúið, sem verður við Hofsvallagötu, við hliðina á Kaffihúsi Vesturbæjar. Aðeins er rúmt ár síðan að Brauð&Co var opnað við Frakkastíg en starfsmönnum bakarísins fjölgað frá opnun úr fjórum í næstum því fjörtíu.

„Inni á Gló verður þetta mjög svipað og við erum að gera á Frakkastíg,“ segir Ágúst Einþórsson, bakari og stofnandi Brauð&Co í samtali við mbl.is. „Við erum mjög spennt að opna þar því að bakaríið á Frakkastíg er sprungið í tætlur,“ segir hann. „Þar hefur verið mjög mikið að gera frá opnun og eftirspurnin er alveg fram úr öllum væntingum.“

Ágúst segist vera mjög ánægður með staðsetninguna á bakaríinu í Fákafeni þar sem það er mjög miðsvæðis og eflaust auðveldara fyrir suma að koma þangað að fá sér súrdeigsbrauð en á Frakkastíginn.

Bakarí Brauð&Co í Mathöllinni verður síðan aðeins öðruvísi en rýmið er ekki nema 24 fermetrar. „Þetta verður eflaust minnsta bakarí landsins,“ segir Ágúst sem segist þó spenntur fyrir staðnum og Mathöllinni í heild.

Elska hverfisfílinginn í Vesturbænum

Í dag voru síðan undirritaðir samningar milli Brauð&Co og Kaffihúss Vesturbæjar um að bakaríið myndi leigja rýmið við hliðina á kaffihúsinu eftir að apótek, sem er þar í dag, flytur út í sumar. Ágúst segist vera mjög spenntur fyrir þeirri opnun en að erfitt sé að segja til um hvenær hægt verði að opna. „Við fáum rýmið afhent í lok sumars og eigum þá eftir að vinna úr því. Ég er ekki alveg búinn að ákveða hvernig mig langar að nota rýmið en það væri gaman að halda apótekinu á einhvern hátt.“

Hann segist mjög spenntur fyrir staðnum við Hofsvallagötuna. „Það er alveg gríðarleg tilhlökkun í gangi. Þarna er þessi hverfisfílingur sem við elskum,“ segir Ágúst.

Ágúst og Pétur Marteinsson hjá Kaffihúsi Vesturbæjar skrifuðu undir leigusamning í dag. 

Starfsmennirnir orðnir hátt í 40

Það var vorið 2016 sem að Brauð&Co opnaði á Frakkastígnum og segir Ágúst að viðtökurnar hafi verið ótrúlegar. „Mig grunaði klárlega að það yrði áhugi fyrir vörunum okkar en það getur enginn séð svona mikinn áhuga fyrir. Það er oft lengri röð á Frakkastígnum en á flestum skemmtistöðum bæjarins,“ segir hann og bætir við að það séu súrdeigsbrauðin sem laði flesta að.

„Ég skil það alveg, gott súrdeigsbrauð er mjög gott brauð. Síðan eru snúðarnir að rjúka út eins og heitar lummur,“ segir Ágúst. „Við erum dregin áfram af mjög mikilli eftirspurn sem er algjört lúxusvandamál og við bregðumst við með því að opna fleiri staði.“

Þegar að Brauð&Co var opnað á Frakkastíg voru starfsmennirnir fjórir. „En núna erum við orðnir 16 starfsmenn í bakstrinum og 12-14 í afgreiðslu, bæði fullu og hlutastarfi. Núna erum við að bæta við fólki og erum orðin hátt í 40 manna vinnustaður,“ segir Ágúst.

„Það er búið að vera mjög gaman að upplifa þessa velgengni en líka mjög gaman að upplifa hana með öðrum. Ég er ennþá með sama starfsfólkið og byrjaði með mér,“ segir Ágúst.

mbl.is
Svæði

Gagnaveitur

Erlendar viðskiptafréttir