Úr stjórn Uber eftir að hann gerði lítið úr konum á upptöku

Leigubílaþjónustan Uber er í miklum vandræðum þessa dagana.
Leigubílaþjónustan Uber er í miklum vandræðum þessa dagana. AFP

Fjárfestinum David Bonderman hefur verið vikið úr stjórn Uber eftir að upptaka skaut upp kollinum þar sem hann gerði grín að konum.

Uber hefur verið í vandræðum síðustu misseri, m.a. vegna fjölda kvartana vegna kynferðislegrar áreitni á vinnustaðnum. Í gær birti Yahoo Finance upptöku af Bonderman þar sem hann segir að ef að fleiri konur væru í stjórn Uber myndi miklu meiri tími fara í tal. Í kjölfarið tilkynnti Bonderman að hann væri að hætta í stjórninni og sagði ummæli sín „kærulaus, óviðeigandi og óafsakanleg“.

Í gær sagði forstjóri Uber, Travis Kalanick, að hann væri að taka ótímabundið frí til þess að syrgja fráfall móður sinnar. Daginn áður hafði hægri hönd hans í fyrirtækinu, Emil Michael sagt upp.

Bæði Kalanick og Michael hafa vakið neikvæða athygli síðustu misseri. Árið 2014 fóru þeir á svokallaðan vændisbar í Suður-Kóreu með öðru starfsfólki Uber og þá á Michael að hafa skoðað læknisskýrslur konu sem var nauðgað af Uber-bílstjóra í Nýju Delhi.

Í síðustu viku voru 20 manns reknir frá Uber í kjölfar skýrslu um áreitni á vinnustaðnum.

mbl.is
Svæði

Gagnaveitur

Erlendar viðskiptafréttir