Lækkunin lá í loftinu

Ingólfur segir að þær vísbendingar sem lesa má út úr …
Ingólfur segir að þær vísbendingar sem lesa má út úr yfirlýsingu peningastefnunefndar í morgun séu nokkuð hlutlausar varðandi næstu skref nefndarinnar í vaxtamálum.

Lækkun peningastefnunefndar Seðlabanka Íslands á stýrivöxtum sem tilkynnt var í morgun lá í loftinu og er mjög jákvætt skref. Þetta skrifar hagfræðingur Samtaka iðnaðarins, Ingólfur Bender, á heimasíðu samtakanna.

Að mati Ingólfs hefur lækkunin legið í loftinu, einkum eftir að opinbert var í fundargerð vegna síðustu vaxtaákvörðunar nefndarinnar að allir nefndarmenn studdu þá tillögu seðlabankastjóra um lækkun stýrivaxta um 0,25 prósentur. Hefur peningastefnunefnd bankans nú lækkað stýrivexti bankans um eitt prósentustig frá því í ágúst í fyrra en meginvextir bankans, þ.e. vextir á sjö daga bundnum innlánum, eru eftir lækkunina í morgun 4,5%.  

Vinnur þannig á móti styrkingu krónunnar

Ingólfur skrifar að með lækkuninni sé peningastefnunefndin að draga úr mun innlendra og erlendra vaxta og þeim hvata til sterkari krónu sem sá mikli munur hefur verið. Hefur skammtíma nafnvaxtamunur gagnvart helstu viðskiptalöndunum lækkað samhliða lækkun stýrivaxta bankans frá því í ágúst í fyrra.

„Það er jákvætt að peningastefnunefndin sjái svigrúm til að draga úr þessum mun og vinna þannig á móti mikilli styrkingu krónunnar undanfarin misseri,“ skrifar Ingólfur.

Yfirlýsingin frekar hlutlaus um næstu skref

Bendir hann á að þrátt fyrir lækkunina sé munurinn á skammtíma nafnvöxtum enn mikill eða ríflega 4 prósentur en skammtímavextir eru enn mjög lágir í helstu viðskiptalöndunum vegna efnahagsástandsins þar. Einnig er skammtíma raunvaxtamunur mikill og hefur hann ekki lækkað að sama skapi og nafnvaxtamunurinn enda hefur efnahagsuppsveiflan verið mun kröftugri hér á landi undanfarið en í helstu viðskiptalöndunum.

„Mikill munur innlendra og erlendra vaxta er því enn talsverður hvati fyrir fjárfesta að halda fjármunaeignum sínum í krónum sem eykur styrk gjaldmiðilsins. Er þetta umhugsunarefni fyrir næstu skref peningastefnunefndar,“ skrifar Ingólfur.

Er það hans mat að þær vísbendingar sem lesa má út úr yfirlýsingu peningastefnunefndar í morgun séu nokkuð hlutlausar varðandi næstu skref nefndarinnar í vaxtamálum.

„Verðbólgan er hins vegar mjög hófleg eða 1,7% og talsvert undir 2,5% verðbólgumarkmiði bankans. Verðbólguhorfur eru einnig góðar og verðbólguvæntingar lágar. Það virðist því vera svigrúm fyrir nefndina að stíga fleiri jákvæð skref í átt til lægri vaxta á næstunni,“ skrifar Ingólfur en næsti vaxtaákvörðunardagur nefndarinnar er 23. ágúst.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK