Tekjujöfnuður jákvæður um 294 milljarða

Benedikt Jóhannesson, efnahags- og fjármálaráðherra.
Benedikt Jóhannesson, efnahags- og fjármálaráðherra. mbl.is/Ófeigur

Uppgjör ríkisreiknings fyrir árið 2016 hefur nú verið birt og ríkisreikningur sendur Alþingi. Helstu niðurstöður ríkisreiknings fyrir 2016 eru að tekjujöfnuður ársins var jákvæður um 294,6 milljarða króna samanborið við jákvæðan 20 milljarða króna tekjujöfnuð árið 2015.

Tekjuafgangur árið 2016 skýrist fyrst og fremst af stöðuleikaframlögum samkvæmt samningum við slitabú fallinna fjármálafyrirtækja, sem skiluðu nettó tekjum uppá 414,6 milljarða króna.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu.

„Stöðugleiki í efnahagsumhverfinu og öflugur hagvöxtur hafa á undanförnum misserum stutt við kaupmáttaraukningu almennings og bætt afkomu ríkissjóðs. Einstaklingar, fyrirtæki og sveitarfélög hafa markviss lækkað skuldabyrði sína allt frá hruni. Eðlilegt og ábyrgt er að nýta góðæri undanfarinna ára með afgangi á rekstri ríkissjóðs og niðurgreiðslu skulda. Með þessu móti spyrnir hið opinbera við þenslu og ofhitnun hagkerfisins á sama tíma og svigrúm er nýtt til uppbyggingar innviða og styrkingar á velferðarkerfinu,“ segir Benedikt Jóhannesson, fjármála- og efnahagsráðherra um niðurstöður ríkisreiknings í tilkynningunni.

Í nýsamþykktri fjármálastefnu er kveðið á um áframhaldandi niðurgreiðslu skulda og lækkaðri vaxtabyrði ríkissjóðs. „Þannig skapast svigrúm til að takast á við ýmis aðkallandi verkefni og skuldbindingar sem skilar samfélaginu miklum ábata þegar fram í sækir,“ segir ráðherra.

Stórhækkuð framlög vegna lífeyrisskuldbindinga

Gjöld voru talsvert umfram heimildir fjárlaga, en í fjáraukalögum voru stórhækkuð framlög vegna lífeyrisskuldbindinga vegna uppgjörs á skuldbindingum vegna A-deildar LSR. Mikilvægur áfangi í átt að samræmdum lífeyrisréttindum allra landsmanna náðist með samþykkt laga nr. 127 29. desember 2016 um breytingu á lögum nr. 1 1997 um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins, að því er segir í tilkynningunni.

Ávinnsla lífeyrisréttinda breytist úr jafnri ávinnslu í aldurstengda ávinnslu og lífeyristökualdurinn er hækkaður úr 65 árum í 67 og bakábyrgð ríkisins með loforði um aukin iðgjaldaframlög hverfur. Lögin kveða á um að tryggja réttindi eldri sjóðfélaga, en breytt fyrirkomulag gildir gagnvart starfsmönnum sem hefja störf eftir 1. júní 2017.

Frumjöfnuður ríkissjóðs var jákvæður um 14,5% af vergri landsframleiðslu (VLF) á árinu 2016 á móti 3,8% árið 2015. Án stöðugleikaframlaga var frumjöfnuðurinn neikvæður um 2,7% af VLF. Á árinu 2016 var ríkissjóður með hreinan lánsfjárafgang sem nam um 3,9% af VLF, samanborið við 1,9% lánsfjárafgang árið áður. Þetta var betri niðurstaða en gert hafði verið ráð fyrir. Í fjárlögum var hreinn lánsfjárafgangur áætlaður 2,6 % af VLF en með breytingu í fjáraukalögum var áætluð hrein lánsfjárþörf upp á 2,7% af landsframleiðslu.

mbl.is
Svæði

Gagnaveitur

Erlendar viðskiptafréttir