Verið að búa til nýja möguleika fyrir fólk

„Ef þetta lukkast vel verður þetta samgöngubót bæði fyrir Skagamenn ...
„Ef þetta lukkast vel verður þetta samgöngubót bæði fyrir Skagamenn og Reykvíkinga sem geta sótt í allt það sem við bjóðum upp á á Akranesi og ekki síður fyrir Skagamenn að sækja í menningu í Reykjavík,“ segir Sævar sem segist trúa því að þetta verði lyftistöng fyrir Akranes. mbl.is/Árni Sæberg

Bæjarstjóri Akranesskaupstaðar telur að ný ferja á milli Reykjavíkur og Akraness sem hefur áætlunarsiglingar eftir helgi verði mikil samgöngubót, bæði fyrir Skagamenn og Reykvíkinga. Ferjan fer í sína fyrstu áætlunarferð á mánudaginn. Ferðin mun taka 25 mínútur og tekur ferjan 110 manns í sæti. 

Umferðin til höfuðborgarinnar alltaf að þyngjast

Um er að ræða tilraunaverkefni milli Reykjavíkurborgar og Akranesskaupstaðar til sex mánaða. „Þetta verður mjög góð viðbót sérstaklega þegar maður horfir til þess að umferðin til höfuðborgarinnar er alltaf að þyngjast. Ég keyrði sjálfur í vinnu frá Akranesi til Reykjavíkur í tólf ár og mínúturnar bættust við með hverju árinu. Með ferjunni er verið að búa til nýjan möguleika fyrir fólk,“ segir Sævar Freyr Þráinsson, bæjarstjóri Akraness í samtali við mbl.is.

Hann segir ansi mikla tilhlökkun í bænum að sjá hvernig siglingarnar koma út. Margir hafa haft samband og forvitnast um siglingatímann til þess að sjá hvort það henti vinnutíma þeirra sem vinna í höfuðborginni að nýta ferjuna. Sævar segir að fjöldi fólks sæki vinnu til Reykjavíkur frá Akranesi og telur hann að það sé um 15-20%. Síðan er einnig nokkuð stór hópur sem fer til Reykjavíkur í skóla frá Akranesi á hverjum degi. 

Sævar Freyr Þráinsson, bæjarstjóri á Akranesi.
Sævar Freyr Þráinsson, bæjarstjóri á Akranesi.

Allt að 15 milljóna kostnaður

„Ef þetta lukkast vel verður þetta samgöngubót bæði fyrir Skagamenn og Reykvíkinga sem geta sótt í allt það sem við bjóðum upp á á Akranesi og ekki síður fyrir Skagamenn að sækja í menningu í Reykjavík,“ segir Sævar sem segist trúa því að þetta verði lyftistöng fyrir Akranes. „Við erum með ákveðna ferðamannasegla á Akranesi eins og vitasvæðið og Langasand, Byggðasafnið, golf og svo er fjöldinn allur af gönguferðum og fjallgönguleiðum í nágrenninu.“

Kostnaður við verkefnið fyrir Akranes verður allt að 15 milljónir króna en endanleg tala verður háð árangri tilraunarinnar.

„En ég ber þá von í brjósti að þetta muni ganga það vel að það verði hægt að finna flöt á ferðunum áfram. Það skiptir máli máli fyrir Skagamenn sem sækja vinnu til Reykjavík að halda þessari samgöngubót. En auðvitað er þetta bara tilraun og nú þurfum við að sjá hvernig gengur.“

mbl.is
Svæði

Gagnaveitur

Erlendar viðskiptafréttir