Ferðamenn leggja sig og smyrja samlokur í Hörpu

Ferðamenn hvíla lúin bein í Hörpu.
Ferðamenn hvíla lúin bein í Hörpu. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Færst hefur í aukana að gestir Hörpu nýti sér opnu rými hússins sem „nokkurs konar umferðarstöð eða hvíldarstað; leggi sig jafnvel eða smyrji sér samlokur víðsvegar í húsinu“. Forstjóri Hörpu telur þetta ekki hæfa hlutverki og yfirbragði hússins og verður brugðist við með því að stýra umferð um tiltekin svæðihússins og taka gjald fyrir notkun á snyrtingum fyrir aðra en þá sem eiga erindi á viðburði, fundi, ráðstefnur eða veitingastaði í húsinu.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Hörpu.

Þar segir að Harpa vermi ásamt Hallgrímskirkju efsta sætið yfir mest sóttu staði Reykjavíkur en í sumar er áætlað að hátt í 3000 gestir sækja húsið daglega heim.

„Við fögnum því einlæglega hvað Harpa er vinsæll viðkomustaður ferðamanna í borginni og einkunnin sem húsið fær í umsögnum þeirra  er framúrskarandi. Hins vegar viljum við tryggja að þetta glæsilega hús standi áfram undir þeim góða vitnisburði og allur bragur sé í samræmi við það mikilvæga menningarlega hlutverk sem það gegnir. Það eru ýmsar áskoranir við að hafa húsið svona opið sem raun ber vitni og það hefur t.d. færst í aukana að gestir nýti sér opnu rýmin sem nokkurs konar umferðamiðstöð eða hvíldarstað; leggi sig jafnvel eða smyrji sér samlokur víðsvegar í húsinu. Okkur finnst þetta ekki hæfa hlutverki og yfirbragði hússins og teljum það draga úr upplifun allra sem sækja okkur heim,“ er haft eftir Svanhildi Konráðsdóttur, forstjóra Hörpu í tilkynningu.

Í sumar er áætlað að hátt í 3000 gestir muni ...
Í sumar er áætlað að hátt í 3000 gestir muni sækja Hörpu heim daglega. mbl.is/Júlíus Sigurjónsson

Nú ætlar Harpa að bregðast við og leggja stóraukna áherslu á að hver og einn ferðamaður fái sem mest úr heimsókn sinni í húsið. „Það verður gert með því að stýra umferð um tilteknin svæði hússins þannig að boðið verður upp á skipulagðar skoðunarferðir. Hóflegt gjald verður tekið fyrir notkun á snyrtingum í Hörpu fyrir aðra en þá sem eiga erindi á viðburði, fundi, ráðstefnur eða veitingastaði í húsinu og er þetta fyrirkomuleg vel þekkt í sambærilegum húsum víða um heim,“ segir í tilkynningunni.

Boðið verður upp á skoðunarferðir með leiðsögn um húsið á klukkutíma fresti yfir daginn en þessar breytingar taka gildi þann 19. júní og standa yfir til 26. ágúst.

mbl.is
Svæði

Gagnaveitur

Erlendar viðskiptafréttir