Tilgreind séreign skilar fólki 20 milljónum króna

Ef greitt hefur verið tiltekinn tíma í lífeyrissjóð myndast réttur ...
Ef greitt hefur verið tiltekinn tíma í lífeyrissjóð myndast réttur til framreiknings til örorkulífeyris. mbl.is/Styrmir Kári

Einstaklingar sem nýta sér svokallaða „tilgreinda séreign“ að fullu, sem getur verið 3,5% af launum frá 1. júlí 2018, munu geta safnað upp 20 milljónum króna yfir starfsævina, sé miðað við 500 þúsund króna laun og 3,5% ávöxtun. Upphæðin fengist öll greidd út við 67 ára aldur, eða í jöfnum greiðslum frá 62 til 67 ára aldurs.

Þórhallur Jósepsson fjölmiðlafulltrúi Lífeyrissjóðs verslunarmanna, segir í samtali við Morgunblaðið að um næstu mánaðamót muni sjóðurinn opna nýja reiknivél á vef sínum þar sem sjóðfélagar geta á hlutlausan hátt reiknað út hvernig best sé að ráðstafa hækkuðu framlagi atvinnurekenda í lífeyrissjóði, og vegið og metið kosti og galla. Framlagið, sem er 2% viðbót, skilar sér til lífeyrissjóðanna 1. júlí nk. og byggist á samningi Alþýðusambands Íslands, ASÍ, og Samtaka atvinnulífsins, SA, frá því í janúar 2016. 1,5% til viðbótar bætast svo við 1. júlí 2018 en þá verður framlag í lífeyrissjóð á almennum markaði orðið samtals 15,5% og þar með jafnhátt og í opinbera geiranum.

Nýjar ávöxtunarleiðir útfærðar

Þórhallur segir að Lífeyrissjóður verslunarmanna muni útfæra sérstakar nýjar ávöxtunarleiðir fyrir tilgreindu séreignina.

Hann segir að það sé ekki einhlítt að það borgi sig að ráðstafa hinu nýja framlagi í tilgreinda séreign. „Það verður hver og einn að meta fyrir sig. T.d. gæti verið mun vænlegra fyrir ungt fólk með ung börn að ráðstafa hækkuninni í samtryggingu vegna þeirra tryggingaréttinda sem þá ávinnast, en skipta svo yfir í tilgreinda séreign síðar á ævinni, t.d. við 40-50 ára aldur. Aðalatriði er að aðstæður eru mismunandi og það er fyllilega þess virði fyrir hvern og einn að veita þessu umhugsun og íhugun,“ segir Þórhallur.

Hann segir að stuðst verði við gildandi lög og kjarasamning SA og ASÍ frá janúar 2016 þar til ný lagasetning klárist.

Eins og sagt var frá í Morgunblaðinu í síðustu viku er ágreiningur um það meðal hagsmunaaðila hvort tilgreind séreign tilheyri sama lífeyrissjóði og tekur á móti framlögum í samtryggingarsjóð, eða hvort ráðstafa megi nýju séreigninni frjálst, í sjóð að eigin vali. Forsvarsmenn Almenna lífeyrissjóðsins og Frjálsa lífeyrissjóðsins bentu á í þessu samhengi, að gildandi lög væru skýr að þessu leyti, fólk réði hvar það ráðstafaði séreignarsparnaði sínum.

Þórhallur segir að það sé alltaf erfitt að ráðleggja í hvora leiðina eigi að leggja fjármuni. „Enginn veit sína ævina fyrr en öll er. Ég svara stundum vinum mínum sem spyrja mig út í þetta sem svo: „Hvenær ætlarðu að deyja?““

Svæði

Gagnaveitur

Erlendar viðskiptafréttir