Valin úr hópi 700 umsækjenda

,,Ég notaði kvenleg og stelpuleg efni og öll sniðin eru …
,,Ég notaði kvenleg og stelpuleg efni og öll sniðin eru stækkuð upp til þess að ná fram þessari tilfinningu að sligast undan fötunum,'' segir Ragna um útskriftarlínuna sína. Ljósmynd/Hörður Ingason

Íslenski fatahönnuðurinn Ragna Sigríður Bjarnadóttir er nú stödd í Mílanó þar sem hún tekur þátt í alþjóðlegu fatahönnunarkeppninni Mittelmoda. 700 hönnuðir sóttu um að komast í keppnina og er Ragna einn af 22 hönnuðum sem valdir voru til þess að taka þátt og sýna hönnunina sína. Ragna mun í dag kynna verkefnin sín fyrir framan 16 manna dómnefnd sem er skipuð fólki úr mismunandi greinum innan tískubransans og á morgun verður tískusýning og verðlaunaafhending í kjölfarið.

Þar verða meðal annars veitt verðlaun fyrir mest skapandi hönnunina, tilraunakenndustu hönnunina og sérstök verðlaun fyrir að vinna með ull.

Keppnin haldin þremur dögum fyrir lokaprófið

Ragna er að klára meistaranám í fatahönnun við Konunglega danska listaháskólann seinna í mánuðinum og tekur þátt í Mittelmoda með lokalínuna sína. Hún útskrifaðist úr Listaháskóla Íslands með BA gráðu í fatahönnun árið 2014.

„Ég heyrði af þessari keppnin í gegnum skólann og við vorum öll hvött til að taka þátt. Helmingurinn af bekknum sendi inn en það var mjög mikið stress því þetta var akkúrat sá tími þegar það var rosalega mikið að gera hjá okkur,“ segir Ragna í samtali við mbl.is. „Ég komst svo að því fyrir mánuði að ég var valin og það var smá stress því keppnin er haldin þremur dögum fyrir lokaprófið mitt. Svo ég þurfti að flýta öllum tímaplönum og pakka allri línunni ofan í tösku viku fyrir lokavörnina í skólanum.“

Ragna er að klára meistaranám í fatahönnun við Konunglega danska …
Ragna er að klára meistaranám í fatahönnun við Konunglega danska listaháskólann seinna í mánuðinum. Aðsend mynd

Allt varð bleikt

Útskriftarlína Rögnu heitir Hysteria og er að sögn hönnuðarins rannsókn á nútíma kvenleika, kvenkyns stereótýpum og kvenlægu uppeldi.

„Hún endurspeglar augnablikið þegar lítil stelpa mátar föt af mömmu sinni og umlykur sig þannig nútíma kvenleika. En kvenleikinn sligar hana, íþyngir og jafnvel kæfir. Fötin eru alltof stór. Hún getur ekki notað hendurnar því ermarnar eru of langar, hún á erfitt með gang af því að buxurnar eru of síðar. Ég fléttaði svo inn í þetta hefðbundnar kvenhannyrðir, eins og prjón og útsaum en notaði þær til þess að ná fram ákveðinni áferð eða flæðandi yfirborði. Ég notaði kvenleg og stelpuleg efni og öll sniðin eru stækkuð upp til þess að ná fram þessari tilfinningu að sligast undan fötunum. Svo notaði ég til dæmis rykkingar, fellingar og aðþrengd belti til þess að skorða of stóru flíkurnar að líkamanum,“ útskýrir Ragna.

Fyrstu innblástursmyndirnar sem hún notaði voru af kvensjúklingum á geðveikrahælum sem voru að veltast um í rúmfötunum eða bundnar fastar við rúmin sín.

„Þegar ég prentaði myndirnar út kláraðist blekið í prentaranum mínum …
„Þegar ég prentaði myndirnar út kláraðist blekið í prentaranum mínum svo allar myndirnar urðu bleikar og þar var ekki aftur snúið með litapallettuna. Allt varð bleikt. En það passaði líka fullkomlega inn í hugmyndafræðina á bakvið línuna.'' segir Ragna. Ljósmynd/Hörður Ingason

„Þegar ég prentaði myndirnar út kláraðist blekið í prentaranum mínum svo allar myndirnar urðu bleikar og þar var ekki aftur snúið með litapallettuna. Allt varð bleikt. En það passaði líka fullkomlega inn í hugmyndafræðina á bakvið línuna. Hvernig stelpur eiga að klæðast bleiku frá toppi til táar frá fæðingu. Ég vildi nota litinn til hins ýtrasta til að ofhlaða alla línuna af þessari stereótýpu og vekja athygli á því hvað þetta er fáránlegt allt saman.“

Ljósmynd/Hörður Ingason

Vill stofna sitt eigið merki

Hún segir það mikinn heiður að hafa verið valin í keppnina en hún er eini hönnuðurinn frá Norðurlöndunum í Mittelmoda. „Maður stekkur auðvitað bara til þegar eitthvað svona kemur upp. Það eru svo margir að útskrifast úr fatahönnun á hverju ári þannig það er mikill heiður að vera valinn inn í svona keppni,“ segir Ragna.

Ragna segir að þátttakan muni eflaust hafa jákvæð áhrif á hönnunarferilinn. „Maður er alltaf að gera sitt besta að koma sér á framfæri og þetta hefur mikla þýðingu uppá það,“ segir Ragna. „Það er aldrei að vita hvað kemur út úr þessu.“

Eftir útskrift tekur við sumarfrí hjá Rögnu og svo ætlar hún á fullt að sækja um vinnur í Kaupmannahöfn. „Það eru alls ekki mörg störf auglýst svo ég þarf að vera dugleg að senda út fyrirspurnir og tölvupósta. Þá er auðvitað gott að hafa reynsluna af þessari keppnin á bakinu,“ segir Ragna og bætir við að draumurinn sé að stofna sitt eigið merki. „Mig langar að öðlast meiri reynslu af því að vinna innan tískufyrirtækis en langar líka að stofna mitt eigið merki í framtíðinni, mögulega fyrr en seinna.“

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK