Nýtt Fosshótel reist við Mývatn

Mikið kapp var lagt á frágang við hið nýja Fosshótel …
Mikið kapp var lagt á frágang við hið nýja Fosshótel í Mývatnssveit sem opnað var um síðustu helgi. Ljósmynd/Birkir Fanndal

Nýtt Fosshótel við Mývatn var opnað um síðustu helgi, en aðeins er um ár síðan framkvæmdir hófust. Hótelið er 4.500 fermetrar að stærð með 92 herbergjum, þar með taldar þrjár svítur. Hótelið verður rekið allt árið, nema um jól og áramót en þá verður lokað, segir Óskar Finnsson, framkvæmdarstjóri rekstrarsviðs Íslandshótela.

Hótelið stendur í um 700 metra fjarlægð frá Mývatni segir Óskar, spurður um hve nálægt hótelið standi vatninu. Mikil áhersla hefur verið lögð á umhverfismál við byggingu hótelsins af arkitektastofunni BASALT.

„Stefna Íslandshótela hefur verið mjög skýr í mörg ár að fráveitukerfi séu af bestu gerð,“ segir Óskar og nefnir að þriggja þrepa fráveitukerfi sé á hinu nýja hóteli við Mývatn. „Það á nánast að vera hægt að drekka vatnið sem kemur út á endanum,“ segir Óskar kíminn. Lagt var upp með að hótelið væri í samræmi við náttúru svæðisins. Hótelið er viðarklætt og mun viðurinn grána með árunum, segir Óskar, og því falla betur inn í umhverfið. Þá þekja lyngþökur þak hótelsins.

Umferð minnkar á haustin

Að sögn Óskars hafa margar bókanir borist fyrir sumarmánuðina. Hins vegar lítur út fyrir að bókunum muni fækka þegar líður á haustið.

Óskar Finnsson staddur í veitingasal Fosshótels við Mývatn.
Óskar Finnsson staddur í veitingasal Fosshótels við Mývatn. Ljósmynd/Birkir Fanndal

„Það er farið að draga úr aðsókn á landsbyggðina á haustin,“ segir Óskar. Sterkt gengi krónunnar hafi þar mikil áhrif. „Það fylgir aukinn kostnaður því að koma sér út á land.“

Hann er þó bjartsýnn á framtíð Fosshótels við Mývatn. „Við bindum vonir við að þetta geti orðið áfangastaður með svipað aðdráttarafl og hótel okkar á Hnappavöllum, sem er þekkt fyrir góðan mat og þjónustu,“ Fyrir utan náttúrufegurð svæðisins þá er mikil afþreying í boði, t.d. jarðböð, snjósleða- og hestaferðir. „Þetta getur orðið mikill áningarstaðarkjarni.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK