Verulegur afkomubati hjá Árvakri á síðasta ári

Árið 2016 einkenndist af sóknarhug og ráðist var í ný …
Árið 2016 einkenndist af sóknarhug og ráðist var í ný verkefni. Þannig festi Árvakur m.a. kaup á Eddu-útgáfu og tveimur útvarpsstöðvum. mbl.is/Ómar Óskarsson

Afkoma Árvakurs hf. á liðnu ári batnaði verulega frá árinu 2015. Tekjurnar jukust um 9%, námu 3,6 milljörðum króna, en gjöldin jukust um 6%. Hagnaður fyrir afskriftir, fjármagnsliði og skatta, EBITDA, batnaði því mikið og nam 99 milljónum króna. Engu að síður var tap af rekstri félagsins upp á tæpar 50 milljónir króna, en tapið nam 164 milljónum króna árið 2015.

„Árið 2016 var í meginatriðum gott ár fyrir Árvakur þó að ekki tækist að skila rekstrinum réttum megin við núllið,“ segir Haraldur Johannessen, framkvæmdastjóri Árvakurs.

„Árið einkenndist af tvennu, annars vegar batnandi rekstri, en miklar launahækkanir, ekki síst umsamdar launahækkanir á vinnumarkaði fyrstu mánuði ársins sem komu óvænt inn, skýra þann halla sem varð á rekstri Árvakurs. Hins vegar einkenndist árið af sóknarhug þar sem ráðist var í ný verkefni, meðal annars kaup á Eddu-útgáfu, sem gefur til dæmis út Andrésblöðin, og kaup á útvarpsstöðvum. Við bindum miklar vonir við þessar nýju rekstrareiningar og reynslan af þessum mánuðum sem liðnir eru frá því að þær komu til Árvakurs lofar góðu. Sem dæmi má nefna að hlustunin á K100 hefur tvöfaldast frá því að við kynntum nýja dagskrá fyrir nokkrum vikum og hófum að streyma útvarpinu í mynd á vefnum. Morgunblaðið hefur haldið öflugri stöðu sinni og er staða þess í raun einstök, hvort sem horft er á íslenska markaðinn eða sambærilega markaði í nágrannalöndum okkar. Mbl.is hefur líka einstaka stöðu í slíkum samanburði og hefur haldið áfram að vaxa og auka þjónustu við lesendur sína. Morgunblaðið hefur sömuleiðis haldið áfram að auka þjónustuna við áskrifendur sína, nú síðast með því að bjóða þeim Hljóðmoggann, sem er upplestur á helstu fréttum, viðtölum og ritstjórnarefni hvers dags, sem er til dæmis hægt að hlusta á í gegnum smáforrit í símum.“

Haraldur segir að til að styðja þá sókn sem Árvakur hafi ráðist í hafi hlutafé verið aukið um 200 milljónir króna.

Eignir Árvakurs námu 2.079 milljónum króna um síðustu áramót og eiginfjárhlutfall var 39%.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK