Eldar ofan í hundruð á dag

Veitingakonan Halla María Svansdóttir í Grindavík ásamt starfsliði sínu eldar …
Veitingakonan Halla María Svansdóttir í Grindavík ásamt starfsliði sínu eldar ofan ferðamenn, fyrirtæki og fjölda annarra gesta á degi hverjum. mbl.is/Hanna

Veitingakonan Halla María Svansdóttir, sem rekur veitingastaðinn Hjá Höllu í Grindavík, situr ekki auðum höndum. Auk þess að taka 60 manns í sæti á veitingahúsinu við Víkurbraut og útbúa nestispakka fyrir ferðamenn eldar Halla og hennar teymi um 300-400 skammta á degi hverjum ofan í starfsfólk ýmissa fyrirtækja í bænum. Þrátt fyrir umfangsmikinn veitingarekstur er heimilisleg stemning Hjá Höllu en með henni í eldhúsinu starfa meðal annars foreldrar hennar og sonur.

„Við opnuðum hérna á þessum stað fyrir svona einu og hálfu ári en við vorum á öðrum stað á undan þannig að við erum búin að vera í gangi í um það bil fimm ár,“ segir Halla í samtali við mbl.is. Halla hóf starfsemi fyrst í eldhúsinu heima hjá sér en síðan hefur starfsemin farið ört vaxandi og vinsældir staðarins aukist, bæði meðal heimamanna og aðkomufólks.

Allt unnið frá grunni

„Það er alltaf nóg að gera. Heimafólk er rosalega duglegt að koma, Reykjavíkurfólkið líka. Þetta er mjög heimilislegt hérna, mamma er hérna og pabbi og nú er sonur minn hérna inni í eldhúsi í sumarstarfi,“ segir Halla.

Hjá Höllu er ýmislegt á boðstólum og ávallt margt um …
Hjá Höllu er ýmislegt á boðstólum og ávallt margt um manninn að sögn Höllu sjálfrar. mbl.is/Hanna

Að sögn Höllu er lagt mikið upp úr því að vinna þá rétti sem eru á boðstólum frá grunni og bjóða upp á hollt, gott og fjölbreytt fæði. Hjá Höllu er bæði hægt að fá fisk- og kjötrétti, súpur, salöt, djúsa og fleira en meðal þess vinsælasta á matseðlinum er fiskisúpan hennar Höllu.

„Það er svolítið misjafnt hvað heilsusamlegt þýðir hjá fólki. Við höfum bara merkt það þannig að það sé unnið frá grunni,“ segir Halla. „Við erum með allan mat. Við erum með fisk og kjúkling og kjöt, hvort sem það er nautakjöt eða lambakjöt, svínakjöt eða hvernig sem það er. Við erum náttúrlega líka með grænmetisrétti, vegan-rétti og samlokur, glúten og glútenlaust, en bara að það sé unnið frá grunni, það er það sem við gerum,“ útskýrir Halla. 

Panta matarpakka í ferðalagið

Aðsókn á veitingastaðinn er góð og gengur reksturinn vel að sögn Höllu. Auk þess að taka á móti fjölda gesta á degi hverjum útbýr Halla einnig mat fyrir fjölda fyrirtækja í bænum. Þá býður hún upp á eins konar nestispakka fyrir allan daginn sem hægt er að panta og innihalda þeir t.d. morgunmat, djús, hádegismat, millimál, te og eitthvað gott með kaffinu.

„Þetta eru kannski aðallega fyrirtæki en ferðamennirnir eru samt duglegir líka og panta sér og taka með í nesti þegar þeir fara af stað í ferðalagið. Þá höfum við kannski reynt að velja þannig fyrir útlendinginn að það sé harðfiskur í pakkanum og kannski eitthvað skemmtilegt sem þeir fá ekki annars staðar, eitthvað íslenskt,“ segir Halla.

„Við byrjum klukkan sex á morgnana og þá erum við að senda út til fyrirtækja alveg um 300-400 skammta fyrir klukkan 10 á morgnana,“ segir Halla sem kveðst þó ekki hafa nákvæma tölu yfir fjölda þeirra fyrirtækja sem skipta við hana. „En þetta eru alveg 10, 20, 30 og alveg upp í 40 manna fyrirtæki sem versla hjá okkur,“ segir Halla.

Veitingakonan Halla María Svansdóttir.
Veitingakonan Halla María Svansdóttir. mbl.is/Hanna
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK